9/29/2004

Reykjavík klukkan 04:45

Klukkan tæplega fimm í morgun áttu sér stað nokkrir atburðir í Reykjavík. Í fyrsta lagi þá var nágranni minn að elda sér mat í eldhúsi mömmu sinnar, hann var greinilega vel í glasi eftir að hafa verið á trúnaðarskeiði með einhverjum vini sínum í Polo bifreið. Ég stóð á BSÍ og kvaddi eiginkonu mína sem að hvarf upp í rútu sem að hélt af stað til Keflavíkurflugvallar. Stuttu seinna var maður staddur fyrir BSÍ og hvæsti á mig fyrir að leggja bílnum á vitlausan stað. Það sem að sá einstaklingur hafði upp úr krafsinu var bros á orða frá mér. Hann hefði kannski fengið einhver viðskipti í sjoppunni sinni frá mér ef að hann hefði ekki blásið svona úr nös. Það hefur aldrei borgað sig að blása úr nös svona snemma að morgni.
Hjördís er farinn til Osló í nokkra daga þar sem að hún mun blanda saman vinnu og skemmtun eða eitthvað á þá leið. Alltaf skrýtið þegar að hún fer og ég skilinn einn eftir heima. Betra að hafa hana heima öllum stundum. Mér var boðið að koma með en ég hef ekki tíma til þess og ég hef því ráðið staðgengil sem að getur farið með henni í veislur ef að hún vill. Gott að eiga kunnigja út um allt sem að geta haldið uppi fjöri ef að þess þarf. Gummi er í Osló og reddar þessu því að hann er snillingur.
Annars er ég ferskur og heyrði í félaga mínum í Stokkhólmi í gær, mikil snilld. Þessi drengur er algjör öðlingur sem veit allt um allt.....ég er heppinn að eiga góða að.....
Nú ætla ég að fara að borða....

9/28/2004

Til hamingju.

Góðan daginn sagði einhver í morgun, efast stórlega að það standist sökum þess að ég vaknaði of seint í morgun. Það verður nóg að gera hjá mér í dag og ég tek því með tilhlökkun þar sem að lítið var að gera í gær og það er alveg óþolandi staða. Það verður allt svo erfitt þegar að það er lítið að gera. Minnstu verkefni verða að einhverju fjalli sem að ómögulegt virðist vera að klífa. Ég var að breyta aðeins hérna á litlu síðunni minni en ég er heldur latur þegar kemur að því að skipta um búning.........

9/27/2004

Tilveran..

Dagarnir eru svo fljótir að líða núna að það er ekki fyndið. Verkefni hrúgast upp í skólanum og ég verð að taka á öllum mínum til að halda dampi. Það er þokkalega mikið að gera í vinnunni en það eru skorpur þar. Á heimilinu reynir maður að vera liðtækur í að halda öllu fínu. En samt eru að koma jól enn einu sinni, eða hvað. Klukkan er orðin tíu og ég er ennþá að horfa á skjáinn, greyið augun að vera á þessum líkama.........


Hringurinn.

Frikki er búin að smíða hringinn á mettíma, skrýtið að vera kominn með hringinn en samt ekki sama hringinn. Nýji hringurinn er mjög flottur og eitthvað svo fáraánlega nýr. Hann veðrast fljótt og verður svipaður og hinn fljótlega. Frikki fær orður fyrir að redda þessu svona fljótt fyrir mig, einstakur drengur sem á allt hið besta skilið. Ég verð sennilega að forhleypa aðeins meira en venjulega næst þegar að við tökumst á við snókerborðið.
Demantahelgi............

Helgin var algjör demantur þar sem að við fórum í gegnum fataskápa og settum í poka til að gefa rauða krossinum. Þetta var þarft verk sem að var unnið á nokkrum klukkutímum við gott undirspil. Frikki er byrjaður á hringnum mínum í þessum orðum og mér skilst að ég verði kominn með hring á fingur ekki seinna en á miðvikudag.
Annars var eitt af hápúnktum helgarinnar þegar að ég eldaði kjötsúpu sem að var algjör snilld. Viddi hennar Önnu gaf okkur svona í mat um daginn og ég varð að prófa þetta. Sko, maður kaupir sér poka sem að hægt er að elda kalkún í, þetta er nauðsynlegt sökum þess að þetta er mikið magn sem að þarf að komast í pokann. Maður sker niður slatta af rauðlauk, lauk, gulrótum, broccoli, papriku, kartöflum og einhverju sem að maður fílar og setur í pokann. Svo setur maður heilt læri ofan á grænmetið og lokar pokanum. Þetta setur maður svo á 180 gráður í einn og hálfan tíma. Við ákváðum að hafa gráðosta sósu með þessu en það fer bara eftir smekk hvers og eins. Það verður að sjálfssögðu að setja krydd og salt á lærið eins og venjulega. Svo bakaði Hjördís snilldar eplaköku til að éta í eftirmat. Ég ætla ekki að reyna að útskýra betur hversu gott þetta var en ég mæli með þessari einföldu uppskrift................Helgin var sem sagt demantur...................

9/24/2004

Alias.........

Hér er smá sýnishorn af tónlist í seríu 3 af Alias. Fullt af dóti sem að ég nennti ekki að týna til. Ég er svo spenntur yfir þessu að ég öskra bara þegar að þættirnir eru búnir.

Episode 6: The Nemesis
ARTIST: Underworld
ALBUM:
1992-2002
SONG: Rez.Cowgirl

Episode 12: Crossings
ARTIST: Damien Rice
ALBUM:
O
SONG: Delicate

Episode 16: Taken
ARTIST: Quarashi
ALBUM: Jinx
SONG: Stick 'Em Up

9/23/2004

Sænski skatturinn........

Hringdi til Stokkhólms áðan og spjallaði við konu hjá sænska skattinum. Það er ótrúlegt hvað maður fær alltaf góða þjónustu í þessu batterií sem að sænski skatturinn er. Man eftir því að ég var að sækja eitthvað vottorð þarna á sínum tíma og sá að ég var skráður sem breskur ríkisborgari eða eitthvað á þá leið, ég fór aftur og bað um leiðréttingu og maðurinn sem að gerði mistökin kom alla leið niður úr byggingunni og fór að spjalla við mig um heima og geima. Svo baðst hann afsökunar og lét mig hafa nýjan pappír og sagði mér að eiga hinn ef að ég vildi vera breskur ríkisborgari á pappírunum. Þetta er ekki svona hér og það mun aldrei verða svona hér. Annars er brjálað að gera hjá mér og ég er kominn upp aftur í hjartslættinum. Er samt glaður og sáttur við lífið og Frikki sagði mér að efnið í hringinn minn sé komið og hann er að fara að byrja á honum. Ég er ekki sáttur við að hafa ekki hringinn minn og þessi hringur mun verða límdur á mig for the rest og my life.......

9/22/2004

Fyrirtækið sem að er ekki að standa sig.

Er að bíða eftir símtali frá Útilíf þessa stundina. Ég hef verið ótrúlega þolinmóður við þetta fyrirtæki sökum þess að ég er stundum of góðhjarta. Fyrirtækið seldi gallaða vöru og hefur ekki staðið sig í að fá nýja fyrir mig í staðinn. Ég gef þeim nokkra daga svo segi ég ykkur frá öllum staðreyndum í þessu máli þannig að þið finnið ykkur knúin til að versla á öðrum stað. Gefum þeim eina viku frá deginum í dag.
Landsliðið okkar.

Settist niður með einum sjötugum í hádeginu og krafðist svara við nokkrum spurningum. Ég spurði hann hvort að það hefði alltaf verið svona mikil spilling í pólitíkinni. Málið er það að hann hefur fylgst með fréttum í rúmlega 50 ár þannig að það telur aðeins. Hann sagði að þetta hefði alltaf verið svona en það væri bara meira talað um hlutina núna. Áður þorðu menn ekki að segja neitt sökum þess að þeir getu lent illa í því.
Þetta er ágætt að heyra en ég hef samt visst óþol fyrir hópi stuttbuxna stráka með uppréttar hendur sem að eru hættulega langt til hægri á leikvellinum. Í boltanum þá verður miðjan að vera sterk og ef að menn eru hættulegir á kantinum hvort sem að það er vinstri eða hægri kantur þá geta þeir hinir sömu valdið ursla ef að ekki er fylgst með þeim. Þeir geta raunverulega verið hættulegir í leiknum og geta gert út af við leikinn ef að þeir komast of langt. Það er bara erfitt að eiga við þetta þegar að landsliðþjálfarinn er búin að vera of lengi við völd, þá reyna menn að ganga í augun á honum til að fá öruggt sæti í liðinu. Sem betur fer getum við kosið í þetta landslið en það er samt ekki gott ef að leikmenn sparka sandi í augun á kjósendum.

9/21/2004

Draumarnir....

Hvað hefur verið að gerast. er ennþá í innlendu fréttabindindi. Það hlýtur þó að vera kennaraverkfall því að ég var á fundi í hádeginu á aðalskrifstofunni og meðaldur starfsmanna var sennilega komin niður í 12 ár. Fullt af litlum einstaklingum hlupu um með pappíra og græjur. Kannski er þetta einhver ný starfsmannastefna en þetta leit allavega skemmtilega út. Frétti að það væri kominn nýr forsætisráðherra en það hlýtur að vera lygasaga, það skal engin segja mér að Davíð sé farinn að gera eitthvað annað. Man ekki hvort að mig dreymdi að Davíð hefði skipað ungan hugsjónarmann sinn í embætti aðstoðarmanns Umhverfisráðherra, svo allt muni fara í réttan farveg. Svo heyrði ég að Sjálfstæðisflokkurinn ætti í vandæðum með að finna einstakling til að skipa réttan mann í hæstarétt. Hlýtur að vera erfitt að standa frammi fyrir svona erfiðum málum.

9/20/2004

Mánudagur.........

Dagurinn hefur rúllað fínt. Ekki mikið að gera í vinnunni en samt alveg nóg miðað við mánudag. Ég fór að hlaupa seinni partinn og rúllaði inn rúmlega fimm km í nokkuð erfiðu hlaupi. Ég er allur að koma til í þessu. Ég fór síðan í skólann og leyfði vöðvunum að slaka á í spæsnkukennslu. Ég held að þreyttir vöðvar fíli það að heyra spænsku talaða. Úbbss ef að það er ekki Kalli sem er að syngja somewhere over the rainbow í auglýsingu frá umferðarstofu þá látið mig vita. Hvar var ég, jú vöðvar í spænsku. Ég semsagt átti fínan klukkutíma í skólanum og fór svo heim og borðaði salat með beyglu sökum þess að verlslunarferð mín um helgina endaði með því að ég keypti upp allt salatið í Nóatúni. Ástæðan fyrir þessu er ekki kunn en það er ekki aðalatriðið, salatið var gott. Er ekki frá því að það hafi verið ostur og malakoff þarna líka. Núna er ég á netinu að reyna að finna eitthvað sniðugt til að skrifa ritgerð um. Ég þarf að skrifa einhverja biblíu um eitthvað og skila því á flutningabíl með lyftu sökum stærðarinnar. Hjördís er að horfa á Vestur álmuna í kassanum og virðist vera sátt við þetta allt saman.
Það er margra klukkutíma svefn sem að ég þarf að klára til þess að komast aftur í vinnunna, ætti að fara létt með það. Þangað til vona ég að þið hafið það gott.

9/19/2004

Super size helgi....

Helgin hefur verið fín, lærdómur á morgnanna og dund á daginn. Fór í billiard með Frikka seinnipartinn í gær og þaðan að versla í matinn. Ég og Hjördís slökuðum á eftir góðan mat og horfðum á Killing fields. Í dag fórum við í bæin og fengum okkur kaffi á súfistanum. Jú guð minn góður, fórum að sjá Super size me..... Mér varð óglatt eftir korter, hvað er að gerast í Bandaríkjunum. Börnin í skólunum eru að synda í djúpsteikingarpottum og fá að gúffa í sig allan djöfulinn í mötuneytum skólanna. Hvernig getur peningamaskínan komist svona langt án þess að ekkert sé aðhafst í málunum. Ég skal ekki trúa því að það sé hægt að heilaþvo foreldra með einhverju kjaftæði um að þetta sé gott fyrir þau því að þau læra að velja það sem að er gott fyrir þau. Átakakenningar segja að hugmyndir valdamestu stéttarinnar séu þær sem að njóti mestrar viðurkenningar og með því er hægt að réttmæta efnahagslega hagsmuni en common getur þetta verið svona andskoti yfirgengilegt. Læknarnir sem að sáu um einstaklinginn sem að borðaði einungis á Mc Donalds trúði ekki sjáfir hvað hann var að fara illa með sig. Þetta var rosalegt óhóf að sjálfssögðu en þetta var forvitninlegt og gott að einhverjir þarna úti séu tilbúnir að leggja sig í líshættu til að sýna fram á hvað er verið að mata fólk með mikilli vitleysu...

9/18/2004

Pirrrrrrr

,,EKKI ÞETTA", sagði fyrrverandi forsætis ráðherra við Jón Ársæl þegar að hann beindi míkrafóni að honum a dögunum. Jón Ársæll sagðist hafa orðið hræddur við hann og ekki þorað öðru en að hörfa.
Þetta sagði Jón þegar að hann heimsótti vini sína í Tvíhöfða í gær, ég hefði sjálfur orðið hræddur.
Það er laugardagsmorgunn.....
Hef verið að læra síðan níu í morgun og er að verða þreyttur á þessu. Sólin skín inn um gluggann og veðrið virðist vera þokkalegt. Er búin að drekka einn kaffi í morgun og reykja þrjár. Hjördís fór að hitta Lindu í kringlunni og ég er því einn í kotinu. Það er eitt sem að kallar stöðugt á mig, bílanammið. Það er opinn poki af bílanammi inn í skúffu og þegar að það er hljótt í íbúðinni þá heyri ég í bílunum vera að kalla á mig. Þeir vilja ekki vera í pokanum þannig að af góðmennsku þá verð ég að frelsa þá og borða. Ég er svo góður.

9/17/2004

Alias..

Ég hélt að allt ætlaði að verða vitlaust á mínu heimili í gær þegar að þriðja sería Alias hóf göngu sína í Ríkissjónvarpinu. Er ekki frá því að blómin hafi meira að segja tekið við sér og snúið sér að sjónvarpinu. Biðin var á enda, hvað í ósköpunum hafði gerst. Þetta er frábær þáttur.

9/16/2004

Veðrið í andlitinu.

Minni á lagið Stormy Weather með Pixies, gjörsamlega vanmetið lag. Minni á að það var stormy weather í RVK í nótt, gjörsamlega vanmetið. Ég er samt sáttur við loftslagið og veðurfarið á Íslandi eftir að hafa komist í kynni við hita dauðans í sumar. Maður getur farið í úlpuna og sett á sig húfuna og brosað í gegnum tárin sem að renna niður kinnarnar sökum vindsins. Fínt er samt að hafa áskipaða stöðu sem karlmaður vegna þess að þá þarf maður ekki að vera búin með maskarafræði 103 og 203 til að vita hvernig maður á ekki að líta út eins og djöfladýrkandi eftir að labba í rigningu. Ég veit nú samt nokkuð um maskara og svoleiðis sökum þess að ég er stundum tekinn með í leiðangra sem gerðir eru út af Hjördísi. Kannski liti ég út fyrir að vera 200 ára ef að ég notaði ekki snyrtivörur frá Lancome.

9/15/2004

Beiðni.

Er einhver möguleiki á því að fá tímatalinu aðeins breytt þannig að sólahringurinn lengist um sex klukkustundir. Ég hefði svolítið gott af því að fá aðeins meiri tíma til að gera ýmsa hluti.
Hljómsveitirnar..

Var að hlusta á útvarpið þegar að ég krúsaði í skólann. Lag hljómaði með Libertines og ég fór að spá. Niðurstaðan er sú að umrætt band ásamt The Hives, The Strokes mega alveg gleyma sér.
Seinna krúsaði ég með DVD fjallið sem að Hjördís glápti á í gær og þá hljómaði lag með Muse í útvarpinu og ég fór að spá. Niðurstaðan er sú að þeir fá verðlaun fyrir tónsmíðar frá mér sökum þess að þeir eru algjörir snillingar. Það þarf ekki að taka það fram að þetta er svona og engu fær því breytt. Gítarsóló fengu ekki leyfi til að koma aftur fyrr en að þeir komu með slíkt á nýjustu plötu sinni. Ef að þið heyrið gítarsóló í lagi sem að samið var á tímabilinu 1994-2003 þá er það eitthvað skrýtið lið sem að stendur á bakvið það, og ekki kaupa þá tónlist.
Fasteignasjónvarpið.

Í sjónvarpinu núna er þáttur um wannabe fyrirsætur, annað hvort er þetta rosalega leiðinlegt og vitlaust eða þá þjáist ég af athyglisbresti. Nei ég er búin að vera að skoða fasteignavefinn fram og aftur. Það er ekkert skemmtilegt til lengdar sökum þess að þetta er í flestum tilvikum steypa og gler sem kemur í mismunadi stærðum og litum. Hvernig væri samt að flytja inn í nýtt 4-5 herbergja hús á góðum stað í borginni. Ég er búin að sætta mig við það að þurfa kannski að flytja í úthverfi ef að eitthvað gott er í boði. Maður þarf ekki endilega að vera nálægt 101 þó að það sé alltaf best. Það hlýtur að finnast eitthvað á næstu árum sem að við sættum okkur við.

Af hverju hefur engum dottið í hug að vera með fasteignasjónvarp þar sem að íbúðir sem að eru á sölu eru skoðaðar, kannski heimskuleg hugmynd.........

9/13/2004

Helgin...

Helgin leið eins og fjölveiðiskip í mokandi fiskeríi, fljótt og örugglega og leikendur skemmtu sér konunglega. Við dunduðum okkur bara og höfðum það gott. Ég var nokkuð duglegur að læra og veitir heldur ekkert af. Fórum að sjá Terminal í gær og þetta er fínasta afþreying, falleg saga sem að engum getur leiðst nema að hann sé bara leiðinglegur sjálfur. Það sem að var áhugavert er það að flugstöðin í myndinni var leiksvið þ.e þetta var allt saman byggt fyrir þessa mynd þar sem að útilokað er að fá að taka upp heila kvikmynd á einhverjum stórum flugvelli sem er í fullri notkun. Tom Hanks sýndi góðan leik í þessari mynd eins og oft áður. Ég vill ekki vera í hlutverki bíó rýnis en varð að segja aðeins frá þessu.
Helgin spilaðist semsagt á einföldu tempói sem að er þægilegt. Það er ekki gott að vera með fullhlaðna dagskrá fyrirfram þegar að öll önnur dagskrá er á þá leið. Þegar að U2 gerðu myndbandið við lagið One þá notuðu þeir hugmynd sem að gekk út á að hafa myndbandið sem einfaldast áhorfnar. Ef að myndbandið er skoðað þá eru buffalóar að hlaupa og þetta er sýnt hægt með litlum sem engum lit. Þetta er svipað og að glápa á eld í arin, algjörlega auðmelt fyrir höfuðið. Hvað er ég að segja hérna, ég er næstum búin að missa þráðinn hér. Helgin var góð.
Ég fer í skólann í kvöld og stefni á að fara að hlaupa með Hjördísi á undan..

9/10/2004

Veðurfarið, geimfarið........

Spurning með veðurfarið í Reykjavík þessa daganna. Íþróttataskan mín er búin að vera í sturtu út á snúru í nokkra daga. Taskan heimtaði þvott eftir að hafa verið á Cameldýri í svolítin tíma. Rigning er alltaf annað slagið og er þetta að verða aðeins þreytandi. Það mætti vera kaldara og bjartara úti í nokkra daga. Ég er þreyttari en þreytt núna eftir lítinn svefn og er búin að endurheimta bauganna sem að ég losaði mig við í sumarfríinu. Ég hélt að ég hefði skilið þá eftir í öðru landi og átti engan vegin von á því að þeir mundu finna mig aftur. Helgarfríi frá vinnu er framundan og lærdómsvinnuvikan er að hefjast, verst að það er langt þangað til að ég fæ útborgað fyrir lærdóminn.

Fjölskylda vikunnar að þessu sinni er................Þetta eru snillingar sem að ég hafði ekki hugmynd um. gaman að segja frá því..........................................................................................................................

9/09/2004

Blöðin..

Í fréttum blaðanna og á netinu eru stundir fréttir af fólki sem að eru misgóðar. Arndís leikkona fékk miklar gersemar í arf, bollastell frá langömmu sinni. Ég óska henni til hamingju með þetta. Ég er betri maður eftir að vita þetta. Stundum heyri ég fólk segja að það sé alltaf sama fólkið í fjölmiðlunum og það vilji fara að heyra í fólkinu í landinu. Spurningin er hvort að fólkið í landinu hafi frá einhverju skemmtilegu að segja. Við erum svo fá að þetta gengur illa upp. Það er ekkert skrýtið þó að sama fólkið sé alltaf í fjölmiðlunum. Ég hef ekkert mikið á móti því að einhver segji fréttir af nýju saumanámskeiði í vinnustofu Herdísar en það er ekki endilega spennandi fréttir. Annars líður mér sennilega betur þegar að ég fer í fréttabindindi. Allavega innlent fréttabindindi sökum þess að við búum í gjörspilltu þjóðfélagi þó svo að aðilar sem að taka þetta út geta ekki bent á hvar spillingin sé. Hagfræðingar eiga að geta reiknað út hversu mikið af peningum eru í umferð sem að ekki hafa fengið að koma við í ríkiskassanum, svo ekki sé minnst á alla hina spillinguna sem að er í gangi...
Útvarpið.

Einn ónefndur dagskrárgerðarmaður á Bylgjunni fer svolítið í taugarnar á mér. Ívar (slanguryrði yfir fólk sem að er fast í tímabilinu 1980-1990) skulum við kalla hann. Hvernig er hægt að gera þetta í þeirri samkeppni sem að er á fjölmiðlamarkaðnum. Hvernig væri að fá einhvern sem að veit hvað er að gerast í tónlist í dag. Óli Palli ( slanguryrði yfir einstakling sem að er ekki fastur í ákveðnu tímabili) er alveg frábær á Rás 2 ar sem að hann gefur öllu séns og fylgist mjög vel með. Svona á þetta að vera. Rás 2 er samt ekki sloppinn, það eru einstaklingar þar sem að mætti alveg fara að setja á bekkinn. Gestur Einar ( slanguryrði yfir sinstakling sem er fastur í fornöld) mætti alveg prófa að setja nýjan disk í spilarann. Kannski er málið það að engin hefur sýnt honum að það er uppfinning sem að kallast í daglegu máli geislaspilari. Lísa Páls er fín en, ég endurtek en, það mætti fara að prófa nýtt fólk. Ég er ekki að setja út á fólkið sem slíkt heldur hvernig það sinnir starfi sínu á öldum ljósvakans, ekki misskilja mig þó að það sé furðu einfalt.
Ég hlusta stundum á Tvíhöfða á leiðinni í vinnunna, stundum væri ég til í að þurfa að keyra lengri leið en stundum er það öfugt. Ég hló mig máttlausan í morgun þegar að þeir voru að rugla um ýmsa hluti. Það er ríflegt að hlusta á þá í tíu mínútur á dag, það er nóg. Annars er ég ekki mikill útvarpskall en ég hef mínar skoðanir. Ég og Hjördís vorum mikið að ferðast í sumar og hlustuðum þá alltaf á Rás 2 og það er nokkuð sterk dagskrá þar. Þættir eins og Geymt en ekki gleymt eru alveg frábærir. Það er einfaldlega gaman að heyra hvernig saga og gerð ýmissa íslenskra platna fór fram. Heyrði til dæmis umfjöllun um plötu sem að Jakob Frímann Magnússon ( slanguryrði yfir íslenska tónlistasnillinga) gerði einhverntímann fyrir löngu síðan. Þar kom í ljós að hann hefur verið að gera snilldarhluti sem að íslendingar voru bara ekki tilbúnir fyrir, hefðu kannski orðið það ef að hann hefði orðið alvöru frægur eins og var staðreynd í tilviki Bjarkar Guðmundsdóttur. En hvað með það, dagsrkáin á Rás 2 er nokkuð sterk, það er það sem að ég ætlaði að segja, áfram Rás 2. Ég ætla ekki að rífa FM 95,7 í mig núna vegna þess að ég er í fínu skapi. Ef að einhver segir að þetta sé alvöru stöð þá má hinn sami reyna að sannfæra mig um það en það er bara ekki séns. Létt FM er mjög létt grænmeti fyrir grænmeti.

9/08/2004

Snókerinn.......

Fór í hið göfuga sport snóker á mánudagskvöldið. Mótspilari minn þurfti að fara heim sigraður 3-0. Það sem að er fyndið við að fara í snóker er það að við tölum lítið sem ekkert meðan á þessu stendur. Salurinn er reykmettur og einbeitning skín úr andlitum spilara sem og öðrum. Stöku sinni heyrist ,, góð kúla maður" eða ,, vel spilað uppá" eða ,, hvernig er hægt að vera svona heppinn", síðast nefnda kommentið er þá kannski gremjublendið. Þetta er snilldarleikur.
Þetta er með öðrum orðum slökun.....

9/05/2004

Helgin í stuði með Hjördísi...

Jæja halló, við erum í stuði. Það var snilld að fara og borða Sushi á fösudagskvöldið. Frikki og Þórgunnur léku á alls oddi og við skemmtum okkur vel. Maður var að vísu orðin syfjaður snemma en það er allt í lagi. Í gær var ég afar duglegur og vaknaði klukkutíma á undan vekjaraklukkunni og var farin að læra upp úr klukkan átta. Við fórum í sund eftir hádegi og þaðan á þjóminjasafnið. Það var gaman að skoða þarna en ég var ekki sáttur við kaffiaðstöðuna þarna, þetta var svolítið mötuneytislegt. Maður er orðin kröfuharður eftir að hafa farið á nokkur söfn en þegar að verið er að eyða miklum peningum í þetta þá er allt í lagi að hafa góða aðstöðu til að fá sér kaffi og svona.
Við fórum svo að versla í matinn og fórum heim. Við fórum og rúntuðum aðeins um borgina í gærkveldi og leigðum okkur svo mynd. Fínasti dagur verð ég að segja. Núna erum við að fara í mat til Önnu, Vidda og Co, það verður fínt að fá alvöru kjötsúpu. Annars ekkert nema gott að frétta af okkur þar sem að við höfum skemmt hvoru öðru um helgina og líðanin er góð. Ég er að reyna að koma mér í form þessa daganna þar sem að formið varð eftir í hitanum í Túnis. Bölvaður dónaskapur að stela þrekinu frá manni þar sem að ekkert aðvelt er að byggja það upp.

9/03/2004

Helgin.........

Ég er að fara út að borða með Hjördísi, Frikka og Þórgunni í kvöld. Við ætlum að fara og fá okkur Sushi. Ég hef ekki borðað Sushi síðan á Nobu í London snemma á þessu ári. Ég er þar af leiðandi með síðbúin fráhvörf. Það verður örugglega mjög gaman hjá okkur ef að ég þekki leikmenn rétt. Það verður nóg að gera hjá mér um helgina þar sem að ég er eftirsóttur fylgdarsveinn hjá Hjördísi. Við ætlum að fara í bíó, söfn, sund og fleira. Ég þarf að læra alveg helling í spænsku og gera verkefni í félagsfræði. Þetta verður bara gaman.....

9/02/2004

Húðsjúkdómalæknirinn

Ég fór áðan til húðsjúkdómalæknis. Þetta var mikil skemmtiför þar sem að ég vildi láta tékka á því hvort að ég væri dauðvona sökum sólarljóssins. Ég var látin fara úr öllum fötum og var skoðaður í 1 mínútu og 12 sekúndur, sennilega nýtt met þarna. Það kom ekkert í ljós en ég var látinn borga pening fyrir strippið. Af hverju var mér ekki borgað fyrir að fara úr fötunum, ég skil þetta ekki.

Já ertu mikið í sól?
Nei ekkert rosalega en ég reyni að vera alltaf með sólvörn.
Já hvað sterka?
25 sagði ég…
Já það er ekki nógu gott, þú þarft að vera með sólvörn númer 100.

Ég spyr nú bara hvort að það sé til. Hvernig er að vera með vörn númer 100. Makar maður á sig tjöru eða hvað. Það eru meiri líkur á því að læknirinn fái kvilla sökum ístrunar heldur en að ég fái krabbamein úr sólinni eins og staðan er núna. Ég var ekkert að segja honum að éta bara gúrku og sneiða hjá stöðum eins og Mc Donalds of Burger King.
Nei , nei, það er fínt að láta tékka á þessu en mér finnst þetta pínu öfgafullt að mega ekki sjá dagsljósið án þess að vera með slæðu.
Annars er ég afar duglegur að reyna að brenna aldrei í sól og það hefur gengið ágætlega hingað til.
Ég er ennþá að reyna að vakna eftir sumarfrí en það gengur ekkert ofvel. Ég er byrjaður í skólanum á fullu og er að byrja að læra spænsku, það finnst mér erfitt. Svo er ég í sögu og félagsfræði. Áfanginn í félagsfræði er magnaður þar sem að afbrotafræði eru skoðuð ofan í kjölinn. Þetta verður pínu strembið en allt í lagi. Ég hef ekkert heyrt af giftingarhringnum mínum en held samt í vonina að hann komi í leitirnar. Þangað til hafið það sem best……….