7/24/2005

Tjaldferðalagið.

Við ókum af stað út úr bænum um 8 leytið á föstudagskvöld. Það var rosalega gott veður í Reykjavík og við fengum sjokk þegar við keyrðum yfir Hellisheiði í átt að Hveragerði, þar var bara teppi yfir öllu. Við keyrðum inn í þoku og vorum þar í þokkalegan tíma. Við keyrðum að Seljavöllum sem er uppáhaldsstaðurinn okkar þegar að tjaldið er í skottinu. Við tjölduðum um tíu leytið og komum okkur fyrir. Það er ótrúlega fallegt að vera þarna sökum þess hve náttúran er ótrúleg á þessum slóðum. Við fórum ekki seint að sofa og vorum þessvegna vöknuð um átta leytið á laugardagsmorgunn. Ég stökk í smá fjallgöngu meðan að Hjördís las bók og slappaði af. Sundlaugin opnaði á hádegi og þá skelltum við okkur í laugina. Það kom síðan brakandi gott veður með sólskini og öllum græjum. Þarna lágum við bara og slöppuðum af. Við fórum nokkuð snemma af stað í morgunn og fórum í sund á Laugarlandi. Svo keyrðum við í rólegheitum í átt að Reykjavík og stoppuðum aðeins á Selfossi. Þetta var mjög fínn túr og við höfðum gott af þessu. Við vörum með lítið ferðaútvarp sem gerði okkur kleyft að hlusta á Rás 2, hljómar eins og ný uppfinning en þetta er bara svo mikil snilld að hlusta á útvarpið út í náttúrunni okkar.
Við kíktum á spítalann til mömmu þegar við komum í bæinn og hún er bara ótrúlega hress og ánægð með að vera þarna. Besta mál.
Nú er ný vinnuvika að hefjast og hún verður sennilega nokkuð stíf, það eru víst fleiri en ég sem fá sumarfrí, það finnst mér skrýtið.
Kunningjar okkar frá USA koma til landsins á fimmtudag og verður það spennandi, svo er brúðkaup næstu helgi hjá félögum okkar og allt að gerast.
Hlakkar til að fara í klippingu á þriðjudag, verst að ég má ekki vera með emils í kattholti húfuna mína í vinnunni, mundi smellpassa við ljósu jakkafötin mín............

7/21/2005

Sumar..

Þetta er skrifað úr garðinum á heimili okkar, við liggjum á teppi í túnfætinum og sleikjum sólina. Það er frábært að svo gott veður skuli vera hérna núna. Dagurin leið eins og hann leið og allt í gúddí..

7/20/2005

Smáblogg...

Það er allt gott að frétta hérna frá okkur. Mamma er á batavegi eftir veikindi og fer í aðgerð á morgun á spítala í Reykjavík. Ég talaði lengi við Gumma félaga í Noregi áðan og langt síðan maður hafði heyrt í honum. Ekki þarf að koma á óvart að hann er að vinna allt of mikið eins og venjulega. Það væri nú gaman að hoppa til Osló bráðlega. Hef ekki séð borgina skarta sínu fínasta sumarpússi. Ég er búin að slá garðinn í dag og fara út að skokka, einnig tók ég aðeins til hérna heima. DUGLEGUR..... Nóg að gera í vinnu hjá okkur en stefnan er sett á að sofa í tjaldi um helgina. Við ætlum að fara stutt út úr bænum og hafa það gott.

7/08/2005

Meira blogg...

Það er búið að vera barátta við vindmillur hjá mér í dag. Að eiga við iðnaðarmenn er alveg ótrúlegt. Loksins náði ég í einhvern sem að getur lagað einhverja stíflu í dreninu hjá mér. Það hefur verið barátta í gangi í einhvern tíma þannig að ég er að verða sáttur ef þetta gengur eftir.

Nú er sumarfríið að verða búið í bili og við höfum farið út um allt. Við fórum til Stokkhólms og þaðan til Reykjavíkur svo fórum við til Egilstaða og þaðan til Akureyrar, svo var farið aftur til Reykjavíkur og þaðan til Ítalíu, þaðan í gegnum Slóveníu til Króatíu og svo heim aftur. Við erum bara sátt við þetta allt saman og vikan í Stokkhólmi var svo skemmtileg með vinum okkar þar sem eiga endalausar þakkir skilið fyrir að hafa leyft okkur að vera hjá sér allan þennan tíma. Það sem eftir er af sumri sem er hellingur fer vonandi í útilegur og skemmtilegheit. Það er tilhlökkun í að sofa í tjaldi einhversstaðar og drekka neskaffi og svoleiðis.

Ég horfði á Live 8 tónleikana eða það sem ég náði af þeim, það var svo gaman að Pink Floyd spila þarna. Það heyrðist vel hversu miklir snillingar þetta eru. Að hlusta á sumar hljómsveitir spila þarna live var hálf neyðarlegt sökum þess að þær voru ekki nógu vel spilandi. Pink Floyd kann þetta og það heyrist varla munur á live spilun og plötunum. Ég horfði á Coldplay spila sig úr brókunum þó svo að ég viti að þeir eru þokkalegir spilarar nema kannski trommarinn sem er ekkert nema þokkalegur. Málið er bara að á svona concert eru böndin berskjölduð og geta ekki falið sig mikið á bakvið hljóðmenn og svoleiðis. Gott live band er ekki gefið, það tekur gríðarlegan tíma að æfa til að gott geti orðið. Annars fyrst að talað er um hljómsveitir þá er nýja Cardigans platan að koma út og ég er spenntur. Ég hef fylgst nokkuð vel með bandinu í stúdíóinu sökum þess að nafni minn í Cardigans hefur verið gríðarlega duglegur að taka myndir og skrifa fréttir á heimasíðu þeirra sem er stórskemmtileg. Platan á að heita ............ og hefur hún verið tekin upp í gula stúdíóinu í Málmey, þokkalega íslensk þýðing. Það á kannski að fylgja með eitthvað DVD stöff þannig að þetta er besta mál. Ég hef mikið dálæti á síðustu plötu þeirra LGBD og komst að því að hún var að hluta til tekin upp á Gotlandi sem við heimsóttum þegar við bjuggum í Sverige. Nú einnig styttist í nýja plötu frá Sigur Rós og það er líka tilhlökkunarefni. Las á heimasíðu þeirra að þeir eru að fara í gríðarlega stóra tónleikaferð sem spannar einhvern helling af löndum. Flott hjá þeim.
Annars var mikil blessun að geta hlustað á góða tónlist þegar við komum heim frá Króatíu, það er ekki hægt að lýsa því hversu leiðinlega tónlist maður heyrir á svona sólarstöðum. Það er oft einhver tónlist við sundlaugarbakkann, svo er einhver tónlist við hótelið á kvöldin, svo er tónlist í búðum og á veitingarstöðum. Ég nenni ekki að lýsa þessu mikið en svo er það þessi austur-evrópska hryllings tónlist sem að er eitthvað sambland af Scooter og svefnpillum, Das Kapítal á tungumálanámskeiði, taugaveiklaður þjóðernistitringur á saltpillum og þar fram eftir götunum. Hriiiiikalegt dæmi, ég og Hjördís sötruðum á fanta drykkjum og hlustuðum á heimamenn í Kóatíu syngja með svona tónlist í smá stund, þokkalega fyndið.

Sænska stöðin næst loksins á sjónvarpinu okkar, við vorum búin að vera býða eftir þessu í smá tíma. Í dag fékk ég smá sænskan fréttaskammt og verður þetta kannski til þess að maður gleymir ekki tungumálinu alveg strax.

Ég talaði við Frikka í London í gær og hann var eftir atvikum góður, þetta var ekki venjulegur dagur hjá þeim í gær en þau lentu samt ekki í neinu. Hann er að verða búin að setja upp nýja flotta flash síðu sem að sjósett bráðlega. Gaman að því. Í kjölfarið heyrði ég í Kristjáni gítarleikara og hann er farinn að kokka á 22, það voru að streyma inn pantanir þegar að ég talaði við hann þannig að þetta var stutt samtal.

Þetta eru um 700 orð og má ekki vera meira í bili, góða nótt.

7/07/2005

Breytingar...

Aðeins að breyta þessu svo að einhverju sé breytt...
Króatía varð fyrir valinu.

Við erum komin heim eftir eina viku í Króatíu. Við ákváðum með þriggja daga fyrirvara að skella okkur þangað. Við lentum í Trieste á Ítalíu síðasta fimmtudag og fórum þaðan í rútu í gegnum Slóveníu og þaðan til Króatíu. Við fengum fínt hótel í bænum Rovinj, þessi bær kom okkur svo á óvart því hann er rosalega fallegur. Við slökuðum vel á í fínu veðri og lágum við sundlaugarbakkann á daginn. Við löbbuðum yfirleitt í bæinn á kvöldin og horfðum svo á sjónvarpið þangað til við sofnuðum. Þetta kallar maður að slaka vel á. Heimkoman var erfið þar sem við þurftum að vakna klukkan hálf fjögur á íslenskum tíma og skrölta í rútu í nokkra klukkutíma, svo var flugið heim fjórir og hálfur tími. Fluginu var flýtt sökum yfirvofandi verkfalls flugumferðarstjóra á Ítalíu. Það gekk erfiðlega að fara í gegnum flugvöllinn þar sem að þjónustustigið var fyrir neðan frostmark. Við erum þó komin heim og nokkuð sátt. Við förum að vinna á mánudag og það verður skrýtið og gaman.
Allt er að komast í venjulegan gír þannig að er í góðum gír....