9/27/2006

Dagarnir snúast núna um að hafa gaman þar sem ég er með Bríeti snilling. Ég er ennþá mikið á labbi með vagninn og það eru nokkrir hlutir sem maður spáir í á þessum göngum. Ég er alltaf að verða þreyttari og þreyttari á að fara yfir Miklubrautina með vagninn þar sem maður er í stórhættu þarna. Það er ekkert hægt að komast úr hverfinu nema þarna yfir eða þá að taka stóran aukarúnt yfir nýju brúnna á Snorrabraut. Ég get ekki skilið að ekki sé meiri pressa á að eitthvað sé gert þarna á Miklubraut. Það er svo mikið að fólki með börn hérna í hlíðunum sem þarf að fara þarna yfir. En ég breyti þessu svosem ekki en ég væri til í að taka göngutúr með þessum sem hafa með þetta að gera. Á mótum Lönguhlíðar og Miklubrautar er þetta ekki betra þar sem maður þarf að stoppa á milli aksturleiða og bíða eftir ljósi til að komast yfir og þá koma bílarnir af öllum stærðum og gerðum á miklum hraða þannig að maður verður að passa að fjúka ekki um koll. Ef að einhver bílstjóri missir stjórn á bílnum þá stoppa ekki grindverkin sem eiga að hlífa manni. Ég vona að ekki verði slys þarna en er annsi hræddur um að það styttist í eitthvað hörmulegt þarna þar sem umferðin þarna er að þyngjast. Gísli Marteinn var að básúna um Ártúnsbrekkuna í kjölfarið á slysinu þar um daginn og þá var farið inn á þessi gatnamál í borginni. Hann kom með einhverja statistik um hvað Ártúnsbrekkan þolir en ég spyr: Og hvað? Hvað á að gera í þessum málum. Ef einhver vill fara í smá spennuatriði þá bendi ég á að gatnamótin sem ég minntist á áðan eru mjög sniðug til þess. Farið á grænum kalli inn á miðju þannig að þið séuð með umferð Miklubrautar beggja vegna við ykkur og standið þar í smá stund. Ef kalt er í veðri og bílarnir komnir á nagladekk þá er gott að hafa með sér trefil til að hafa fyrir vitunum. Ég fer kannski að selja inn á þetta rush.....
Annars ætla ég ekki að vera í einhverju gremjukasti yfir þessu þar sem ég get selt og flutt en mér finnst allt í lagi að minnast á þetta...
Annað, mér er farið að leiðast að ganga Laugaveginn (verslunargötuna) , það eru þó mikið af nýjum búðum núna en þetta er allt svo einsleitt og fyrirsjáanlegt. Ég veit að ég rekst á 3 fulla kalla að meðaltali og alltaf sé ég einhvern að leita í ruslinu, einhverjir iðnaðarmenn hanga utan á húsum og sölufólk húkir úti að smóka sig, harmonikkuleikarinn frá austur-evrópu er sennilega að spila fyrir utan Bónus og einhver skrýtinn tónlist berst út af spilakassastöðunum. Það eru allar líkur á að rekast á Unicef krakkana sem hanga yfirleitt 3 saman og spjalla í stað þess að safna undirskriftum en þau eru sennilega búin að fá allar undirskriftir sem þau á annað borð fá. Það er mikið um fólk með barnavagna og ef maður er undir stýri þá fær maður yfirleitt glott þar sem þetta er eitthvað svo nýtt í sögunni okkar. Ég er farinn að slaka á Latte staðlinum en ég nenni ekki að bíða endalaust eftir afgreiðslu. Betra að stökkva í sjoppu og taka eina kóla. Skólavörðustígurinn getur verið spennandi eftir því hvernig veðrið er, klikkar ekki að túristar eru að mynda Hallgrím (s) kirkju og einhverjar spírur standa fyrir utan 12 tóna að spjalla um síðustu plötur Hallbjarnar yfir rettu. Ef að maður sér flottan Range Rover þá er í 80% tilvika kona undir stýri að tala í símann. En ef að maður spáir í eitt þá kemur mér á óvart að það sé liðið að fólk sé alveg stjarft af dópneyslu og áfengineyslu sé að vappa á Laugarvegi á miðjum dögum og einnig um helgar. Ég sé þetta í hvert einasta skipti sem ég fer á labbið um helgar með vagninn. Það mætti aðeins taka á þessu þar sem fólk er með börn þarna og skil ég ekkert í því að verlsunarsamtökin á Laugarveginum séu ekkert búinn að raula út af þessu, kannski eru þau búinn að því en þetta er allavega til staðar og er ekkert glæsilegt, önnur tímasprengja þessa pistils. Ég er að detta úr æfingu við að sitja fyrir framan tölvuna, ég er þreyttur í augunum.
Það vantar að fá sænsku lögregluþjónana hingað að láni þar sem þeir eru eins og ég hef minnst á 2 metrar og krúnurakaðir boltar ekki undir 150 kg,, sennilega skildir finnsku skógarhöggvurunum en alla vega zero tolerance herra Björn, takk fyrir...

9/11/2006



Fegurðin í þessari kaffivél er svo svakaleg að ég hugsa um það hvað Halldór Laxness hefði skrifað um hana. Það hefði sennilega verið svipað og þegar hann sagði okkur að fara tannbursta okkur forðum. Við ættum að hætta að drekka kaffisull og fá okkur eina slíka...

9/04/2006

Lúðrablástur mánaðarins..

"Davíð Oddsson er vinur minn, látið hann í friði."





Gúgúúúúúú

9/03/2006

Nú er skólinn byrjaður aftur og ég þarf að taka einn áfanga í MH og einn í fjarnámi í FÁ til að útskrifast um jólin. Þetta er að sjálfssögðu spænska sem situr eftir, þetta er svona geymdu gleðina þangað til síðast.. Þetta verður þokkalegt en það munar að þurfa ekki hugsa um vinnu fyrr en eftir áramót. Skrýtið samt að vera ekkert að vinna, maður er svo vanur því að vera alltaf vinnan, allt tengist því en svo er maður bara heima alla daga með snúllu og það er fljótt að venjast. Nú vill ég bara vera í þessu næstu árin, sjá um börnin og taka kannski einhverja kúrsa á kvöldin...
Eins og sést þá hef ég verið að taka til og mála hérna heima og sett það hérna inn þar sem fjölskyldan þekkir þessa íbúð nokkuð vel. Það hafa margir tengdir Hjördísi búið hér og verið í lengri eða skemmri tíma. Það er líka ágætt að hafa þetta hérna þar sem þetta er fín dagbók.
Dagarnir fljúga áfram og rútínan er svipuð nema hvað ég og Bríet erum kannski meira farinn að hanga úti og gera eitthvað skemmtilegt eins og að fara í Hreyfiland og svoleiðis. Við ætlum á mömmumorgna í Háteigskirkju í næstu viku og þar hittum við vonandi fullt af krökkum því að það virðist vera aðalmálið hjá Bríeti núna.