12/31/2005

Áríð hefur verið viðburðaríkt svo ekki sé meira sagt, eða hvað. Það kom í ljós á fyrri parti ársins að við ættum von á nýjum einstaklingi í eininguna okkar og var það mikið gleðiefni. Á svipuðum tíma ákvað ég að taka boði um að breyta til í vinnu og skipti um stöðu á þeim leikvelli. Það sem helst var kostur við það var að vinnutíminn styttist til muna, drengurinn farinn að vinna eðlilegan vinnudag. Meðgangan gekk ekki alveg eins og best hefði verið á kosið þannig að um tíma vorum við í lausu lofti með þetta allt saman. Við fórum í sumarfrí til Svíþjóðar og Króatíu og reyndum að njóta okkar þó svo að erfitt væri að slaka á þegar ekki var vissa um að allt væri í lagi. Við fengum að heimsækja spítala mikið á árinu þar sem strangt eftirlit var með bumbubúanum og einnig lenti móðir mín á spítala í nokkrar vikur. Þetta var því skrautlegt á tímabili þar sem maður var alltaf að leita af bílastæði við spítalann. Fékk nokkuð margar hugmyndir af lausn þessa vanda meðan á þessu stóð en hef ekki fengið að koma þessum hugmyndum að ennþá.
Ákveðið var að gangsetja Hjördísi fimm vikum fyrir tímann og var það skrýtið ferli að ganga í gegnum. Það gekk þó allt vel og litla var á spítalanum í tæplega 5 vikur.
Núna er hún komin heim og við erum að reyna að finna einhverja rútinu á hluti sem við höfum í raun enga stjórn á ennþá. Við erum næstum ósofin síðan á þriðjudag og ruglum bara eitthvað hérna. Klementína vill sofa á daginn og vaka á næturna. Hún hefur verið svo rosalega vakandi síðustu nætur að ég bara skil ekki hvernig hún fer að þessu. Við erum búin að reyna nokkrar útfærslur á þessu en ekkert gengur ennþá. Hún er svo sofandi á daginn að erfitt er að gefa henna að borða. Hún brosir líkt og svefndrukkkinn togarasjómaður á leið í land, þetta er alveg ótrlúlegt, svo á nóttinni gæti hún eflaust rennt í gegnum Dalí bókina sem er á stofuborðinu og er ekki mikið minni en hún. Understanding Dalí berfore you are 5 months old,,, Hjördís sagði við mig að ég yrði sennilega að fara vinna næturvinnu upp úr þessu, kannski það. Þetta eru bara fyrstu dagarnir og við erum bara að finna okkur hérna, þetta hlýtur að lagast.
Það eru svo miklar sprengingar núna í hverfinu að dóttir mín ætti ekki erfitt með að sofa á stríðhrjáðum svæðum erlendis eftir þetta. Hún hefur þó ekki kippt sér neitt upp við þetta ennþá en spurning hvernig þetta verður í kvöld. Það er skrýtið að upplifa þessi jól og áramót með barnið nýkomið heim, við eigum ennþá efir að halda upp á jólin í einhverjum skilningi, allavega að gefa hvoru öðru jólagjöf. Rétt í þessu var dinglað og Solla systir Hjördísar lét okkur hafa mat fyrir 1300 hundruð manns, veit sannarlega ekki hvernig við eigum að klára þetta allt saman en þetta er mjög spennandi. Alltaf jafn hugulsamt fólkið í kringum mann.
Jæja fyrsta baðið hennar Klementínu heima hjá sér er að byrja og verður það sennilega sprengjuregn ef ég þekki mína rétt.
Við vonum að kvöldið verði jafn yndilegt hjá ykkur eins og það stefnir í hjá okkur....

Farið varlega í sprengjurnar, ég mun setja inn nýjar myndir bráðlega.......
mm

12/29/2005

Minnir töluvert á geimfara fyrir brottför

Mæðgurnar að spjalla um skiptiborðið

" Ég er að fara heim fólk...."

Alsáttar saman heima hjá sér...

Magnúsdótttir er komin heim til sín.

Það var í gær 28. desember sem litla kom í fyrsta skipti heim til sín, í fyrsta skipti sem hún fór út af spítalanum, í fyrsta skipti sem hún rúntaði um á Miklubrautinni. Já við fórum þann 27. upp á spítala þar sem við fengum að vita að það ætti að útskrifa hana. Við þurftum að hlaupa um allan bæ og redda ýmsum hlutum en þetta hafðist allt saman. Við vorum fyrstu nóttina saman í herbergi á spítalanum og það gekk ágætlega nema hvað svefninn var nánast enginn. Í gær var svo farið heim og gekk það vel, nóttin var strembin þar sem þurfti að vaka mikið og læra á þetta allt saman. Við erum núna frekar föl og úfin en þetta kemur allt saman vonandi. Nú er bara að setja sig inn í þetta allt saman og ná einhverjum rithma í þetta. Það er að vísu sú litla sem ræður ferðinni og við vitum ekki ennþá hversu taktföst hún er, þetta litla grey......

Þetta er allt yndislegt og skemmtilegt, auðvitað erum við pínu stressuð yfir þessu öllu saman,,, hver er það ekki.....

12/24/2005


Sæl öll. Þetta er Klementína sem skrifar.
Ég vil óska ykkur allra gleðilegra jóla og þakka ykkur fyrir allar kveðjurnar og gjafirnar.
Ég er búin að vera laus við sonduna síðan í gærkveldi og kannski þarf ég hana ekki aftur. Ég er búin að léttast svolítið síðan í gær, enda fer svo mikil orka í að drekka allar gjafir sjálf. Risarnir hér á spítalanum segja að ég fari aftur að þyngjast þegar ég verð búin að jafna mig á þessum breytingum. Mamma og pabbi eru orðin voða þreytt, komu til mín kl. hálfátta í morgun og voru stórskrýtin, með hárið út í loftið og allt. Það verður gott þegar ég kemst heim til mín og við getum öll lagt okkur saman.
Eins og þið sjáið neðst á myndinni er ég með kreppta hnefa. Ég er voða oft með kreppta hnefa og svo sperri ég mig oft. Mamma vildi vita hvort þetta væri allt í lagi og læknirinn sagði svo vera og sagði mig mjög fína stelpu. Hjúkkan sagði mömmu og pabba að svona værum við fyrirburarnir oft.
Ég er að hugsa um að drekka bara úr pela og er búin að láta mömmu og pabba vita oft af því undanfarna tvo daga að ég vilji ekki standa í þessu brjóstastússi. Ég veit ekki hvort þau taka eitthvað mark á því, en bíðið bara. Ég mun sigra þessa baráttu. Hjúkkurnar segja að ég sé svakalega sterk og svo er ég líka mjög ákveðin, eins og allir segja sem þekkja mig. Mamma segir að ég minni hana að þessu leyti á Elvar Orra frænda minn.
Bless bless,
Klementína.
PS. Ég heyrði áðan að mamma og pabbi eru svona næstum því búin að ákveða nafn. Ég bíð voða spennt eftir nafninu mínu, þau eru nú búin að vera alveg nógu lengi að reyna að ákveða þetta!
Húfan var nauðsynleg þar sem kalt er á hótel vöku í dag

barbarbrella engin sonda

Það er misgaman þegar verið er að baða mann

Hverjum líkist ég eiginlega

Sæta snúllan fyrir svefninn í nótt

Helstu fréttir frá hótel voku eru þær að Klementína er 48,5 cm og 2450 grömm, hún er orðin lengri en pabbi sinn var þegar að hann kom í heiminn fyrir rúmlega þrjátíu árum og hún á enn 6 daga inni fram aö þeim degi sem hún hefði átt að fæðast á. Það gengur allt samkvæmt áætlun við fengum að vita að hún kemur sennilega heim strax eftir áramót, Ég segi áætlun eins og í vinnunni þar sem þetta getur tekið breytingum, segjum ETA Hlíðar fljótlega eftir áramót.
Það var enginn smá gestur sem heimsótti Klementínu í dag, jú eins og hjúkrunarkonan sagði þá kom UNGFRÚ HEIMUR til að tékka á samkeppninni, hún lét taka myndir af sér með Klementínu og allt. Einnig áritaði hún plakat handa henni og gaf henni engil. Ég er ekki að plata......

Fórum í fjölskylduboð til Önnu Karenar og Vidda áðan og hittum fullt af fólki, við förum svo í jólamat til Sollu og Gæja á morgun. Klementína er búin að fá fullt af pökkum og bleikan kínverskan þjóðbúning og skó með ýlu í hælnum. Það er gott að það sé ýla í hælnum því þá getum við heyrt þegar hún er að lenda eftir flug í gallanum flotta. Það kom kökusending frá Höllu systir Hjördísar sem eiga eftir að koma sér vel. Í dag versluðum við allt sem þarf fyrir næstu daga. Þetta áttu að vera fyrstu jólin okkar í hlíðunum en þetta verðuir eitthvað skrýtið þar sem við erum að flakka á spítalann í tíma og ótíma. Við munum kannski fresta aðeins jólunum hjá okkur þar sem þetta er eins og það er. Það er samt æðislegt hvað fólk er tilbúið að taka okkur upp á sína arma og bjóðast til að hjálpa. Það er gott að eiga svona gott fólk að.

Það eru margir að tala um hverjum Klementína er lík og gaman er að heyra hversu mismunandi skoðanir fólk hefur. Sumir segja að hún sé eins og ég, aðrir segja að hún sé eins og Hjördís, enn aðrir segja að hún sé lík Önnu Kareni og einhver nefndi Elvar Orra. Þetta allt kemur ekkert á óvart þannig lagað en mjög gaman að heyra þegar fólk er að velta þessu fyrir sér.

Þetta er orðið gott þar sem örfáir klukkutímar eru í næstu gjöf.....

Hafið það gott......

12/22/2005




Hæ, þetta er Hjördís. Maggi stakk upp á því að ég myndi skrifa textann í þetta skiptið.

Það gengur allt rosalega vel hjá Klementínu, hún stóð sig mjög vel í drykkjumennskunni í dag. Við erum að hugsa málið með nokkur nöfn á skvísuna, en látum ekkert uppi fyrr en við höfum tekið lokaákvörðun. Sum nöfnin eru glæný á lista, en önnur hafa verið í skoðun í nokkra mánuði, frá því að við vissum að við ættum von á stelpu. Maggi valdi eitt nafn í kvöld og við prófum að nota það þangað til annað kvöld, og þá vel ég annað. Kannski hjálpar þetta okkur við að taka ákvörðun, en kannski ruglar þetta okkur enn meira í ríminu – kemur í ljós.

Skvísan var 2335 grömm í gærkvöldi. Ofnarnir eru bilaðir á vökudeild, þannig að við settum á hana húfu áður en við fórum í kvöld. Hún hefur ekki verið með húfu í nokkuð langan tíma og það var greinilegt að húfan passaði ekki jafnvel og áður. Ég þurfti að teygja hana til og frá til að gera hana passlega á hausinn hennar Klemmu.

Klemma er náttúrlega alltaf jafn yndisleg – skemmtilegasta, duglegasta, klárasta og sætasta barn í heiminum. Að sjálfsögðu. Ég bíð eftir að komast til hennar á hverjum degi og finnst alltaf jafn erfitt að fara frá henni á kvöldin. Það styttist í að hún fái að koma heim, en þetta fer allt eftir því hversu fljót hún verður að geta klárað allir gjafir á pela eða brjósti. Þess vegna er ekki hægt að hugsa um neinar sérstakar dagsetningar í sambandi við heimferðina, heldur verður að koma í ljós hvenær Klemma verður orðin “sjálfbjarga” að þessu leyti.

Á morgun fer ég í fyrsta skipti niður á spítala áður en stofugangur byrjar, það er að segja í fyrsta skipti síðan ég útskrifaðist sjálf af spítalanum. Þá er ég hjá Klemmu frá því fyrir klukkan 8 og til kl. 9, þegar stofugangur byrjar. Svo mæti ég aftur á svæðið eins og vanalega kl. 12, þegar stofugangi lýkur. Við erum yfirleitt hjá henni til 10 á kvöldin og þá taka við ýmis heimaverkefni. Það er því mikið að gera hjá okkur, en það er alltaf jafn gaman.

Bestu kveðjur og knús,
Hjördís.

PS. Takk fyrir konfektið og smákökurnar Rúna, ótrúlega gott! Við hámuðum þetta í okkur á spítalanum í kvöld með bestu lyst.

12/19/2005

Tásur, tásur og meiri tásur

Halló félagar..

Alltaf jafn hress

Æi farið að slaka á með myndavélina

Laumast var til að mynda þegar hún var sofnuð

Allt gengur eins og í sögu hérna hjá okkur. Klementína er að fá svo flottar gjafir að við hjónin roðnum hérna. Klementína er svo skemmtileg að maður veit stundum ekki hvernig maður á að vera. Hún er farinn að sýna allskonar takta og svipirnar hennar eru stórkostlegir. Ég er búinn að komast að því að hún er með tærnar hennar Hjördísar, bara fyndið að sjá hvernig börnin eru foreldrarnir í smækkaðri mynd. Það hefur fækkað mikið á hótelinu hennar og nú verður hún sennilega ein í herbergi í nótt. Við erum að tala mikið um það hversu gaman það verður að fá hana heim til okkar, þá er hægt að gera þetta svolítið á okkar tempói þó svo að ekkert sé verið að setja út á spítalann.



Erfitt að skrifa meðan að six feet under er í sjónvarpinu, ætla að fara að horfa...

12/17/2005


Hér er dúllan alveg búin á því, nýbúið að baða sig

Pabbi að róa elskuna litlu


Dagurinn hefur verið fínn og við skiptum deginum með litlu þannig að við gætum farið að kaupa jólagjafir. Þetta er alltaf upp á við og hún þyngist og lengist með hverjum deginum. Það er alltaf að stækka matarskammturinn og hún er að læra að taka brjóstið. Gærdagurinn var þó langur hjá Hjördísi þar sem hún var á spítalanum til að verða 12 á miðnætti. Litla dúllan var eitthvað óánægð og sennilega var það bara loft í maganum, það er ekkert gaman þegar maður kann kannski ekki að losa sig við það. Þetta var svo allt í lagi og hún sofnaði vært. í dag er hún búin að vera eins og engill og ég skildi við hana í vöggu um hálf tíu, þá var hún steinsofandi. Nú liggur hin elskan steinsofandi í sófanum og ég hamra bara á tölvuna. Ég ætla að fara að pakka inn jólgjöfum núna til að minnka aðeins á morgundeginum..

Hafið það sem allra best....

12/15/2005

Ég ætla að geyma að setja myndir inn í dag til að auka aðeins á spennu lesenda. Helstu fréttir eru þær að hún er orðin 2135 grömm og er rosalega dugleg. Við fórum á foreldranámskeið á spítalanum í dag sem er haldið fyrir þá sem eru að útskrifast af vökudeildinni. Pínu fyndið að sitja með Hjördísi í svona kennslu og sjá hana taka glósur fyrir okkur, verst að hún vilji ekki sitja með mér í kvöldskólanum og glósa smá þar fyrir mig. Fólkið í sveitinni var að spyrja hvernig Hjördís hefði það og ég get bara svarað því á einn hátt, hún virðist hafa það rosalega gott í hlutverki móður. Það er pínu geggjað að gera í vinnu núna en maður er alltaf farinn út klukkan 16:3o til að bruna í fataskipti og niður á spítala. Að setjast í lazy boy með dóttur sína á bringunni er svo mesta slökun sem ég hef komist í, maður gjörsamlega gleymir öllu öðru sem er að gerast þarna úti. Um helgina ætlum við að skiptast á að vera á vaktinni og fara að kaupa jólagjafir. Mér skilst að þorrinn af minni fjölskyldu ætli að sleikja sólina um jólin og vera á kanarí, sterkur leikur til að breyta til.
Föstudagur á morgun og þá er baðdagur, þá verður Klementína lengdarmæld og svoleiðis. Ég á að baða núna og spennan er gríðarleg. Klementína er búinn að snúa helsta brjóstagjafasérfræðing spítalans niður án þess að blikna. Hún er algjör snillingur þessi dama, ef að hún sér brjóst þá fellur hún í djúpsvefn og bíður eftir að mjólkin komi í sonduni niður í maga. Hvaðan hefur hún þessa svakalegu snilld. Mínar kenningar eru á þann veg að henni vanti bara smá þyngd til að geta sogið nógu fast til að þetta komi fljótt. Hún er ákveðin ung stelpa og vill að hlutirnir komi strax og ekkert rugl. Ég spái því að þegar hún verður um 3 kíló þá fari þetta allt í gang.
Þetta eru helstu fréttir þennan fimmtudag frá fréttastofu Magga&Hjördísar&Klementínu.

12/14/2005

Hjördís og Klementína að fara í gegnum daginn.

Hjartsláttur þokkalegur pabbi...


Róleg og góð...

Gott að halda í putta hjá mömmu..

Jæja nú er ástin rúmlega 2 kg og ekki nóg með það heldur er dóttir trommarans sögð vera háværasta barnið á deildinni. Við erum búin að skríkja af hlátri sökum þessa en spurning hvernig þetta verður þegar að við verðum vakinn á næturna hérna heima. Málið er það að gott er að hafa svona góðan kraft í svona litlum kroppi. Hún er alltaf vöknuð vel fyrir gjafir og lætur vel í sér heyra. Við skruppum í foreldraherbergið áðan til að snæða kvöldmat og þegar við komum til baka sat dúllan í fangi kanínunnar sem hún fékk að gjöf frá saumó. Þá hafði hún ekki verið ánægð þegar hún sofnaði í fanginu okkar og svo næst þegar hún opnaði augun þá vorum við gufuð upp, þá hefur hjúkkan ákveðið að láta kanínuna passa dömuna á meðan foreldrarnir hámuðu í sig næringuna. Hún er svolítil snuddustelpa og þokkalega ákveðin ung dama. Þetta er allt rosa gaman en það stingur alltaf þegar að greyið er að gráta, það hlýtur að vera eðlilegt. Heimkomu er ekki verið að ræða en það kemur allt í ljós. Það hefur verið fyndið að sjá alla umfjöllun um vökudeildina í sjónvarpinu þar sem þetta er okkar annað heimili. Það sem má teljast öruggt að þetta er besta hótelið sem Klementína getur verið á meðan hún er að ná öllu sem þarf að lærast. Þessi barnaspítali er algjörlega til fyrirmyndar..............

12/12/2005

Góði rakaðu þig áður en þú kemur að heimsækja mig..

Hérna er dúllan á réttum stað.

Snuðstelpa stuðstelpa..

Þrotlausar æfingabúðir alla daga....úfffffffffffffffffff

Það er mikið að gera hjá mér þar þessa daga og maður getur vart beðið eftir að fara til Hjördísar og Klementínu. Ég er að skrifa þetta svo seint að þreyta er mætt á staðinn. Við sitjum hérna í stofunni syfjuð þar sem mjólkurstöðin og fréttastofan eru á fullu. Ég ætla að segja þetta gott núna og láta myndirnar tala sínu máli. Klementína er 1965 grömm í dag. Á morgun er svo bað..........

12/11/2005

Hér er litla í fínum galla að spóka sig..

Pabbi og litla á matartíma.

Hjördís að segja frá einhverju svaka skemmtilegu.

Svo er bara sofið.

Svaka pósa fyrir alla lesendur....

Helgin hefur flogið áfram og við höfum verið hjá litlu eins og venjulega. Föstudagur var baðdagur og viktaði hún þá 1875 g, svo núna rétt áðan þá var hún orðin 1930 g þannig að það styttist í 2000 g. Það verður hátið á bæ þegar hún nær því marki. Hún er ekki með neitt tengt við sig nema sonduna og hún er farin að ná smá mjólk á brjósti þannig að þetta gengur ótrúlega vel. Nú er það eina sem heldur henni þarna það að hún þarf að læra að taka brjóst. Þetta verða bara ærfingarbúðir en við erum róleg, þetta hefur gengið svo vel að við getum ekki verið stressuð yfir því hvaða dag hún kemur heim. Við höfum skotist í að kaupa í matinn og í gær skelltum við okkur á B5 og sporðrendum borgurum, gaman að sjá hvað margir voru á Laugarveginum að versla. Við erum ekki búin að gera neitt í jóladæminu en stefnum að því að nota þennan langa opnunnartíma verslanna á næstu dögum. Nú þetta eru helstu fréttir frá fréttastofunni þessa helgina. Það bara gengur allt eins og í sögu.....maður er farinn að sjá karakter í litlu Klementínu og það er draumur.......

12/10/2005

Nú erum við í foreldraherberginu að borða nammi og horfa á fréttir, erum að fara til Klementínu aftur enda styttist í 8 gjöfina...
Takk folks fyrir skemmtileg komment... Klementína biður að heilsa öllum....
Set inn myndir í kvöld eða fyrramálið.....

12/08/2005

Það er svo gaman að vera tveggja vikna gömul

Hjördís með litlu á góðri stundu

Bara gaman

Afsakið risar, gæti ég fengið tommu þögn svo ég geti farið að sofa, takk fyrir...

Tveggja vikna gömul 1840 gramma stúlka var hress í dag þrátt fyrir að foreldrar væru á þönum. Hún er algjör snillingur þessi dama, hún slappaði vel af eins og venjulega og er farin að drekka 41 ml á þriggja tíma fresti. Það er sennilega ágætt að flatmaga og fá mjólkina beint í magann. Svo er maður rifinn upp og bleyan tekinn og ný sett á í staðinn, lúxus.....

Klementína er búin að fá allskonar gjafir upp á síðkastið, föt og hitt og þetta, miklar þakkir fyrir það..............þið eruð yndisleg...

Þar sem mikið er spurt um heimsóknir á vökudeildina þá set ég hérna smá upplýsingar.

"Sem stendur eru heimsóknir takmarkaðar við foreldra og systkini (það er að sjálfsögðu átt við foreldra og systkini litla barnins, ekki foreldra og systkini foreldra litla barnsins). Þetta er vegna mikils álags á deildinni, sem ég sé ekki betur en að verði viðvarandi um einhverja hríð. Þegar heimsóknir eru leyfðar á annað borð eru þær mjög takmarkaðar, og í raun er ætlast til eða mælt með að foreldrar velji að einungis sá sem veitir þeim sérstakan stuðning á meðan barnið er á vökudeild komi í heimsókn. Það á ekki við í okkar tilfelli, við erum til að mynda ekki með tvíbura sem þarfnast umönnunnar tveggja, eða einhvern heima hjá okkur sem er að sjá um heimilið og systkini barns. Auðvitað kemur það fyrir að foreldrar eru að semja við hjúkrunarfræðing annað, en við munum ekki gera það. Það er alveg nóg stress að hafa áhyggjur af því sem við sjálf erum að bera þarna inn, bæði vegna Klementínu (sem er mun viðkvæmari en ég gerði mér grein fyrir fyrst) og allra hinna litlu barnanna sem þarna eru. Það má ekki gleyma því að inni á deildinni er gjörgæsludeild og fyrirburar sem geta verið allt niður í 2 merkur, og það er stöðugur gangur á milli mismunandi hluta deildarinnar. Fyrirburar og léttburar (sem Klemma er aðallega þó hún sé líka fædd nokkuð fyrir tímann) fæðast ekki með sömu mótefni og fullburða börn. Fullburða börn hafa tiltekið magn í líkamanum sem fer úr þeim á fyrstu mánuðunum, en á sama tíma eru þau að byggja um mótefnaforða sem þau fá úr brjóstamjólk. Fyrirbura og léttbura vantar hins vegar þessar birgðir sem fullburða börn hafa í byrjun. Vegna þessa eru heimsóknir á heimili eftir heimkomu barnsins líka mjög takmarkaðar og jafnvel bannaðar. Ungbarnaeftirlitið metur fyrir okkur hvernig þessu verður háttað, og fær allar viðeigandi upplýsingar þegar þar að kemur frá lækni Klementínu upp á vökudeild. Ef heimsóknir verða leyfðar eitthvað í Mávahlíðina þurfa allir sem koma þar inn fyrir dyr að byrja á að þvo sér vel um hendurnar, meira að segja þó þeir komi ekki við Klemmu. Síðan mega engin börn koma inn á heimilið og alls ekki fólk með kvef eða hálsbólgu, eða aðrar sýkingar. Ég veit að fólk á erfitt með að skilja þetta og vill fá að sjá heimsins sætasta barn, en við biðjum bara um skilning á því að við munum alltaf láta heilsu og velferðKlemmu ganga fyrir þörfum og löngunum aðstandenda okkar. Að sjálfsögðu látum við vita hvað ungbarnaeftirlitið segir um leið og við á, og þangað til munum við leggja okkur fram um að birta myndir á vefnum."

Maggi, Hjördís og Klementína...

12/07/2005

Litla í slökun hjá mömmu sinni.

Hérna er hún í vöggu rétt áður en við fórum heim.


Hún hefur sennilega verið að fara með eina bæn eða svo áður en við sögðum góða nótt.

Ástin litla var eitthvað önug í dag og höldum við að það hafi bara verið eitthvað í maganum á henni. Við fengum svo að heyra gott skot og skiptum svo á henni, eftir þetta var hún rosalega sátt og glöð. Litlu greyin, maður er eitthvað svo máttlaus þegar þau eru önug. Annars var dagurinn svipaður og seinustu dagar og allt gengur vel. Hjördís fór með eitthvað af fötum til Klementínu og skellti henni í fínan galla. Hún er enn svo smá að ekki er mikið af fötum sem hún passar í. Hún er samt rosalega stór í okkar augum, eiginlega risastór þessi elska.
Ég var svo mikið að flýta mér á spítalann að ég gleymdi ljósunum á Opelnum og að þeim sökum verður hann að gista á spítalanum, hann reyndar er vanur því þar sem hann var þar í rúmlega viku eftir að ákveðið var að leggja Hjördísi inn. Við erum að rútínerast aðeins í þessu nema hvað maður hefur ekki tímt að fara sofa á skikkanlegum tíma þessa daga. Af þeim sökum er maður að verða meiri kaffiþurfi í vinnu. Ég fattaði það reyndar klukkan hálf tíu í morgun að ég hafði gleymt að taka með mér kaffi þegar ég kom á skrifstofuna. Það er svaka ferðalag að komast í vinnu þar sem ég fer inn í húsið og þarf að labba upp á þriðju hæð og þaðan í gegnum húsið og aftur niður á fyrstu hæð, þetta hljómar kannski ekki mikið en ég bendi á það að ég er 14 sekúndur að keyra meðfram húsinu stafna á milli á 50 km hraða og reiknið svo. En ekki má gleyma að það er kaffihús á miðri leiðinni í gegnum húsið og þar virðist eitthvað hafa klikkað í dag.

Jæja allir hressir og nú þurfa allir að fara leggja sig, allavega bráðlega.

12/06/2005

Hérna er krúttið eftir baðið í dag...

Haldið í hönd foreldris.


Gleðin skín úr andliti barnssins á þessari mynd.

Klementína fór í bað í dag og var það mamma hennar sem sá um það í þetta skiptið. Það var tekið upp smá myndskeið af atburðinum þannig að Klementína getur séð þetta þegar hún verður eldri. Hún tók stór skref í dag þar sem hún er ekki lengur tengd við tækið sem mælir hjartsláttinn og súrefnismettun. Það verður að teljast gott. Nú er bara smá tæki sem segir vælir ef hún hættir að anda skyndilega. Þetta er allt að koma og vigtaði hún 1790 g í dag sem er alveg frábært. Hún er að verða búin að ná 100 grömmum yfir fæðingarþyngd og verður það sennilega á morgun. Hjördís fer til hennar klukkan 12 á daginn og ég hef verið að koma eftir vinnu, þetta gefur okkur tíma til að hugsa um elskuna eins mikið og við getum eins og staðan er. Þetta eru helstu fréttir af nýburagjörgæslu 23D - vökudeild.

12/05/2005

Já það er slakað á við öll tækifæri hvort sem það er á skiptiborðinu eða í vögguLíka í fanginu á pabba...
og aftur á skiptiborðinu.. himneskt....

Dagurinn súr þar sem ég var að vinna og sá ekki engilinn fyrr en um 1800. Nei þetta er ekkert súrt, bara skrýtið........yes but no, but yes...
Hún stóð sig vel í dag og ekkert nema gott að segja um hana. Veit ekki hvað ég hef oft nefnt hversu gott er að liggja þarna með hana í fanginu. Hún sefur og sefur, sennilega búin að slá einhver met. Það er ekkert skrýtið að maður sé vakandi þegar kemur á unglingsaldurinn ef þetta er eðlilegur svefn hjá börnunum.
Hjördís er alveg rosahress og ég hló þegar ég keyrði á eftir henni heim áðan því hún ruglaðist á nýju slaufunni á Snorrabraut Miklubraut, það var víst svipaður hlátur hjá henni þegar að hún fattaði að hún fór vitlausa leið. Sem sagt tveir hlæjandi foreldrar að keyra í sitt hvora áttina á Miklubrautinni seint um kvöld, dúrúrúrú twilight zone....
Það var búið að setja fullt af jólaskrauti á vinnustaðinn minn, pínu kósí, pínu skrýtið, eru að koma jól.

12/04/2005

Mikið fjör hjá okkur
Slakað á hjá mömmu...
Glaðvakandi hjá mömmu....
Rosalega fínar mæðgurnar.......

Yndið okkar var vigtuð áðan og hún mældist 1735g þannig að hún er búin að ná fæðingarþyngd og rúmlega það. Það er gott að vita að hún sé að þyngjast svona vel. Við höfum séð hana stækka um helgina enda erum við búin að liggja með hana til skiptist og gefa henni að borða. Þetta hefur verið gaman og frábært að geta verið með henni svona mikið. Nú er ég að fara að vinna í fyrramálið og það er súrealískt að hugsa til þess. Þetta venst og ég bruna á spítalann eftir vinnu og næ að vera með henni fram á kvöld. Hjördís er hress og ótrúlega ánægð með ungann okkar eins og gefur að skilja. Svo er þetta bara einn dagur í einu.
Ég ákvað að prófa að vera með komment opið á þessari færslu þannig að ef eitthvað er sem þið hafið að segja þá endilega skrifið.