9/28/2005



Þessi er nokkuð góð....
Þetta og hitt.

Nú erum við búin að koma okkur fyrir saman í stofunni eftir að hafa tekið góðan göngutúr í hverfinu. Við vorum að skoða húsin í hverfunum um leið og við löbbuðum um. Við lágum ekki á gluggum en það er gaman að skoða hvernig fólk hefur húsin sín og umhverfið. Það er fullt af skemmtilegum götum eins og Kjartansgata og Hrefnugata. Það er annars kallt í borginni, sennilega við frostmark núna og svo er einnig vindur sem gerir þetta frekar slæmt. Eftir smá labb er þetta samt ekkert mál, húfan á kollinum og vetlingarnir klárir.
Í fréttum síðustu daga hefur verið svo mikið fjallað um Baugsmálið að erfitt er að fylgjast með þessu öllu, ég hef einfaldlega ákveðið að blása ekkert um málið nema í mesta lagi heima í stofu þar sem maður getur alltaf másið og blásið. Þetta er samt gríðarlegur banani sem er í gangi. Davíð fékk drottningarviðtal í Kastljósinu eins og venjulega og spyrillinn líktist dómara í snókerleik sem er með hvíta hanska og stoppar sundum leikinn til að þurrka af hvítu kúlunni. Ég skil samt alveg að fólk vilji einfaldlega ekki segja of mikið við gaurinn þar sem hann gæti fengið kast. Davíð vill ekki vera í Kastljósinu nema að hann sé einn, ég vill sjá breytingu á þessu. Hann er eini maðurinn sem virðist komast upp með þetta.
Annars er víst Kastljósið að hætta þar sem verið er að sameina þann þátt með Ópinu og einhverjum einum enn. Það er verið að búa til einhverja samsuðu sem er erfitt að ýminda sér að gangi upp þó svo ég sé yfirleitt bjartsýnn. Kastljósið er þátur sem að ég treysti mikið á, þar er tekið á málum sem eru í gangi og fólk fengið til að tala saman og margir fletir skoðaðir. Ég bara trúi ekki að RÚV sé til í að henda þessu út af dagskránni og taka séns á einhverri samsuðu. Þetta kemur þó í ljós og maður verður bara að bíða rólegur.
Ofninn á baðinu er kalldur og það virðist ekki vera nógur þrýstingur á kerfinu hérna í húsinu. Það hefur því verið nokkuð kallt hérna, ég er byrjaður að leita að pípara til að kíkja á þetta. Verður leitin að iðnaðarmanni erfið nú, það er erfitt að segja. Sé fyrir mér sjónvarpsþátt sem heitir týndi iðnaðarmaðurinn, þar er leitað af iðnaðarmönnum sem hafa komið og tekið að sér verk og ekki sést síðan. Gæti verið stórskemmtilegt efni í anda amerískra lögguþátta þar sem fylgst er með lögreglunni eltast við glæpamenn. Nei ég þarf bara að ráðast á gulu síðurnar og byrja að hringja.
Nú fer að styttast í það að Opelinn fá að fara að hvíla sig, við fórum og prófuðum tvo bíla á laugardaginn. Við erum að leita að jeppling eins og Vitara eða Kia, eitthvað í þeim flokki. Það er ekki hægt að vera á óöruggum bíl þegar að Klementína verður mætt á svæðið. Það er samt ótrúlegt hvað Opelinn er búinn að vera duglegur öll þessi ár, hann var eins og guðsgjöf á sínum tíma og maður mun sjá mikið eftir honum.
Það hefur verið nóg að gera í skólanum og eitthvað smá af verkefnum sem ég hef þurft að ganga frá. Það er samt pínu eins og að það séu færri í skólanum en venjulega. Sennilega eru bara allir að vinna í góðærinu. Það dettur alltaf eitthvað út þegar svona þensla er í gangi, svo kemur næsta lægð og þá sest fólk aftur niður og fer að læra. Það er alltaf auðvelt að sjá þetta gerast í kvöldskólanum. Ég hef verið að lesa aðeins greinar um kvennasögu og hefur það verið stórskemmtilegt. Það er mikill uppgangur í rannsóknum á þátt kvenna í sögunni og eins og kennarinn segir þá erum við nokkrum árum á eftir í þessu en þetta er vel á veg komið í háskólanum hér. Það er skemmtilegt að lesa um hvernig þetta er rannsakað og hvaða kenningar eru notaðar í þessu samhengi. Sumir ganga svo langt að segja að það verði að endurskrifa söguna og rannsaka hvaða þátt konur áttu í henni. Við eigum eftir að fá einhverjar skemmtilegar greinar til að lesa og vinna verkefni út frá.
Okkur hefur fundist vera eyðimörk í bíóhúsunum hérna upp á síðkastið, það er einfaldlega ekkert sem maður nennir að sjá. Þetta er einmitt tíminn sem maður á nota til að fara. Það verður ekki eins einfalt að stökkva frá þegar að Klemma verður mætt þó svo að það verði sennilega stanslaust bíó. Það er að vísu að detta í kvikmyndahátið hérna þannig að kannski ætti ég ekkert að vera að kvarta, þar verður örugglega svo mikið í gangi að maður lendir í vandræðum með að velja úr.

9/25/2005

Landslagið.

Hjördís dormar í sófanum og ég er að spá í því hvort að Klemma sé vakandi eða sofandi. Ég gleymdi mér aðeins í lestri á dagbókarfærslum Björns Bjarnasonar, rann sennilega yfir síðustu tuttugu daga í lífi hans. Merkilegt þykir mér hvað hann er harðorður í garð margra á þessu dagbókarformi sínu. Ég mæti honum stundum á hlaupum mínum í vatnsmýrinni, hann er þá á labbi með aðstoðarmanni sínum, reyndar hef ég ekki hugmynd um hver þetta er sem er alltaf með honum, kannski er þetta lífvörður eða næringaráðgjafinn hans. Björn var eitthvað að setja út á Hallgrím Helgason og ég hélt að það hefði verið nóg að Davíð hefði tekið Hallgrím á teppið á sínum tíma. Svo fann ég alveg snilldarræðu sem Hallgrímur fór með á þingi ungliðasamtaka stjórnmálaflokkanna 12. mars. 2005. Hér er pistillinn.... Langt síðan ég hef lesið jafn góðan pistil sem lýsir því sem er að gerast hérna í pólítik á Íslandi..
Við fórum í sund í morgun svona rétt til að viðra okkur og skelltum okkur svo í smá matarinnkaup, svo er bara verið að hlaða geymana fyrir vinnuvikuna sem er framundan. Ég var heima nokkra daga þannig að það bíða mín sennilega nokkur verkefni þegar ég mæti á morgun. Maður verður bara að vera jákvæður og hafa gaman af þessu. Tók smá göngutúr áðan þar sem veðrið er svo fallegt þó svo að það sé svolítið kallt.

9/23/2005

Lasinn..

Fór heim úr vinnu á Miðvikudag þar sem ég var orðinn lasinn, ég er að jafna mig en er samt pínu aumur ennþá. Ég þoli ekki að vera ekki 100% og það hefur verið þannig lengi. Erfitt með að slappa af og láta líkamann hvílast í rólegheitunum. Það hefur þó ekki verið um annað að velja þessa daga. Ég hef verið að hlaupa mikið upp á síðkastið og sé nú fram á að þurfa að koma mér aftur í form í rólegheitunum, maður fer á einhvern núllpunkt þegar svona er ástatt. Svo kvartar maður þegar að allt er samt þvílíkt gott og fínt. Hjördís er að vinna og fer sennilega að detta inn um hurðina með Klementínu í maganum. Það er eitthvað svo mikil snilld að vita að því að þær eru að brasa eitthvað saman. Það er þó þannig að maður kippist aðeins við ef heyrist í sírenum hérna í hverfinu. Það breytist sennilega öll svona skynjun við að eignast barn. Ég þekki þetta ekki en það segir sig sjálft þannig lagað. Jæja það er best að gleyma sér ekki í blogginu.
Annars langar mig að sjá úrslitaleikinn í bikarnum á morgunn þar sem mitt nýja lið er í úrslitum, jú maður verður víst að vera Valsmaður þar sem maður býr í hlíðunum.
Útgáfumolinn............................................................

Due to the massive demand for The Cardigans upcoming album, Super Extra Gravity, more than anyone could expect, the album will be released one week earlier in Sweden than said before.The new swedish releasedate is set to October 14th. For the rest of Europe it is still October 17th and for Japan October 24th.The single "I need some fine wine..." is currently one of the most sold songs on iTunes, plus one of the absolutely most played songs on swedish radio right now.The video is on high rotation on both MTV and ZTV.

9/20/2005

Það er einhver nettur gebbi í landanum þessa daganna svo ekki sé minna sagt. Það þarf ekkert að útskýra það nánar en þetta virðist ganga í bylgjum og við erum ofarlega á kúrfunni núna. Ég veit ekki hvort það sé tunglstaða eða slæm birgðastaða hjá kjúklingabændum. Það eru sennilega allir að keppast við að borga ekki dagsektir hjá guði ef að eitthvað klikkar.
Hef verið á ágætum námskeiðum síðustu daga, tengist bæði vinnu og almennri skynsemi. Í skólanum er það spænskan sem er mér erfiðust, er alltaf að vonast til að vakna einn morguninn og tala málið reiprennandi, það hefur ekki gerst hingað til og sennilega gerist það ekki. Ég er í mjög skemmtilegum áfanga í sögu þar sem kennaranum tekst að halda fullri athygli í tvo tíma og geri aðrir betur, enda er ekki verið að reyna leggja allar sýslur á minnið eins og gert var í gamla daga, maður er sennilega vel staddur ef þær eru allar í kollinum og ekkert annað. Reyndar áhugaverð pæling sem kom upp í þessu samhengi þar sem að yngri kynslóðin kannast við að þeir sem tóku landspróf segja oft að það hafi sko verið alvöru lærdómur sem hafi reynt meira á fólk miðað við hvað gengur og gerist í dag, er þetta rétt. Sennilega ekki, nú er verið að kenna allan djöfullinn og krakkar þurfa að kunna á allskyns græjur í því sambandi, það er verið að kenna með allskonar margmiðlunargræjum og fólk þarf að hafa fyrir þessu öllu. Annars kemur það líka í ljós að við Íslendingar erum þess gæðum aðnjótandi að flestir hafa unnið við allskonar störf t.d á sumrin og með skóla yfirleitt. Þetta gerir það að verkum að við kunnum ýmislegt og getum bjargað okkur nokkuð vel, Eastwood var eitthvað að hæla okkur fyrir þetta þar sem hann minntist á að þetta væri öðruvísi í USA þar sem að fólk er oft á tíðum ansi einhæft. Kannski alhæfing en ég las einhverntímann eitthvað um það hversu sniðug við værum útfrá því hvað við hefðum snert á mörgum hlutum í lífi okkar.
Er að horfa á skjá einn og það eru ekki góð skilyrði á þessari stöð, varla hægt að horfa á þetta. Annars bara eitthvað hangs hérna á kantinum en ég ætti að vera að lesa greinar og skólabækur en ég er bara eitthvað stjarfur eftir vaktina í dag, þarfnast þess að dorma....
Nýja platan með Cardigans er að detta og það er hægt að sjá nýja myndbandið þeirra á cardigans.com undir media/videos, nenni ekki að linka, þið getið farið þetta sjálf.....
Ég er ennþá spenntur og þá frekar eftir lögunum sem verða sennilega ekki í forgrunni heldur frekar hinum pælingum sem eru oft mjög svo skemmtilegar.
Nýja plata Sigur Rósar hefur runnnið nokkra hringi og ég er svo sannarlega ánægður með þetta hjá þeim, hellings þróun og frábær spilamennska, sánd og annað er konfekt. Maður segir eins og allir aðrir...Takk
Hjördís var að horfa á myndband white stripes Joleen á heimasíðu þeirra um daginn, ég varð alveg húkt á þessu, horfði aftur og aftur, lagið eitt og sér er frábært en sjá þau spila þetta er alveg geðveikt.. Þetta er líka undir videos að sjálfssögðu......
Klementína er að fara í sónar á morgun þannig að vonandi fáum við góða mynd af henni til að dást að... Hjördís er kominn með virkilega stóra bumbu, ég verð að fara að taka mynd til að eiga til minninga um þessa snilld, þetta er bara rosalega gaman.
Síðast en ekki síst,,,, Borgarstjórinn okkar, dííííííííssssuuuss úps batteríið búið.....

9/18/2005

Rúv og Rambó 7 í Hagkaup.

Er að horfa á þáttinn sem var á RÚV í gær þar sem Hjálmar taka nokkur lög. Ég er svo ánægður að það sé kominn svona þáttur á dagskrá hjá RÚV. Þetta verða svo mikil menningarverðmæti sem geymast upp í Efstaleiti. Maður verður alltaf glaður þegar sýnd er t.d gamlar upptökur með Þursaflokknum eða Baraflokknum. Það er einnig gott fyrir landsbyggðina að fá þessar hljómsveitir inn í stofu þar sem ekki allir nenna að bregða sér í kaupstað til að sjá þessar hljómsveitir sem eru þó duglegar að kíkja í ferðalög. Hjálmar eru fínir þó svo að mér finnist hún skiptast svolítið eftir því hver semur lögin, ég hef áður sagt að mér finnist vera himinn og haf milli þess sem Sigurður og Þorsteinn komi frá sér, þá er ég hliðhollari Þorsteini. Annars þótti mér vænt um að heyra sænsku talaða í þættinum.
Við skelltum okkur á Rambó 7 í leikhúsinu í gær og skemmtum okkur vel, ég hafði nett gaman að því hvernig til tókst að gera áhorfendur spennta sökum þess að þeir vissu aldrei hvenær þeir yrðu þáttakendur í leikritinu. Svolítið var gert út á sóðaskap en það fór þó aldrei yfir strikið þó svo að litlu hefði munað. Þetta var allt í allt fínasta kvöldstund. Ég var 7,2 prósent lasinn í gær og vaknaði 4,2 prósent lasinn, held að ég sé alveg orðin þokkalegur núna. Við fórum að versla í matinn áðan og á boðstólnum verður kjúklingur og fínerí.
Annars hef ég verið að dunda við að læra og reyna að slaka á, veðrið í Reykjavík hefur verið fram úr vonum gott í dag og er það eitthvað annað heldur en var á föstudag þegar ringdi steypubílum og garðsláttuvélum, þvílík rigning og læti.
Við erum að fara í sónar í þessari viku og verður spennandi að sjá Klementínu í þríviddarsónarnum aftur, held að hún sé að hvíla sig núna svo að hún verði úthvíld þegar kemur að myndartöku.

9/15/2005

Tölvan er í lagi...

Nú gleðst ég þar sem Sony talvan mín er kominn í samband við umheiminn aftur. Það kom einhver glaðbeittur einstaklingur í heimsókn og græjaði þetta þar sem netkortið var eitthvað að stríða mér. Það er svo gott að nota þessa tölvu þar sem allar aðrar eru svo miklir hlunkar. Ég get nú farið að blogga meira. Við vorum að detta heim eftir kvöldmat á sólon og ferð í bókabúð. Ég keypti mér spænska orðabók og nýja diskinn með Sigur Rós, er nokkuð spenntur þó svo að ég sé búinn að heyra smá af honum. Það er svo gott að liggja heima og hlusta á tónlist í sínum eigin græjum. Við erum að fara horfa á Alias sem er byrjað aftur á Rúv, alaleg snilld. Ég sá síðasta þáttinn af Lost og er að verða þreyttur á því að sitja eftir svona þætti með fleiri spurningar í kollinum en þegar síðasti þátturinn byrjaði. Alias klikkar ekki......
Það er búið að vera nóg að gera í vinnu og ég er að fíla mig vel í þessu nýja starfi, maður fær að læra eitthvað nýtt alla daga. Well nú hefst þátturonn svo að ég verð að kveðja...

9/09/2005

Snókerinn.


Fór í snóker með Frikka gullsmíðandisjómannshetju í gær, það voru teknir þrír rammar og endaði 2-1 fyrir mér. Frikki spilaði af stakri snilld í gær og það munaði litlu að þetta endaði 2-1 fyrir hann. Það sem toppaði þetta var þegar að ég skutlaði honum heim þá vorum við að spjalla fyrir utan híbýli hanns þegar að síðhærður umhverfisverndarsinni í smekkbuxum bankaði á gluggann hjá mér og sagði “ do you think it´s good for the enviroment to keep the car running” með óblíðri röddu. Greyið hefur verið búið að manna sig upp í þetta í nokkrar mínútur. Ég svaraði að hann hefði rétt fyrir sér og drap á opelnum. Eins gott að þetta var ekki tíu árum fyrr, þá hefði maður ekki orðið við þessari beiðni sökum vanþroska. Annars sagði Frikki mér að þessi gaur sé búinn að vera að smíða pall í garðinum hjá sér í þrjú ár með litlum árangri en ég vill ekki gera lítið úr umhverfisverndarsinnanum nema það að pallurinn stenst ekki sjónmengunarprófið þar sem safnað hefur verið saman mismunandi spreki til að koma honum upp. Ég vona að umhverfisverndarsinninn hafi það gott í dag, hann hefur sannarlega rétt fyrir sér, maður á ekki að láta bílinn ganga út í eitt þegar maður getur einfaldlega drepið á honum. Tala nú ekki um það hvað bensínið kostar, hugsanlega hefur 7 mínútna stopp með bílinn í gangi kostað 217 krónur miðað við gengi dagsins í gær.

Annars var brjálað að gera í vinnu í gær og svo fór ég á hraða ljóssins í skólann. Hjördís var í sófanum í gærkveldi og dj-aðist á fjarstýringunni og fann eitthvað sniðugt til að horfa á. Toppurinn var að við rákumst á nýjan þátt af Alias sem virðist vera ný sería af þessum annars frábæra þætti. Það er fínt að fá góðan fimmtudagsþátt á skjáinn. Klementína var hress í gær í maganum á mömmu sinni, hún dansaði alveg rosalega mikið þegar við vorum að fara sofa, dugleg alltaf þessi dúlla.

9/06/2005

Hælinu,

Las góða setningu í gær, ,,Herinn hefur haldið Íslandi á púpustigi fullveldis"... Gaman þegar að menn skrifa skemmtilega og segja flott frá... Annars þokkalegur, geggjað að gera í vinnu í dag og er á leið í skólann núna. Renni aðeins við heima og fer úr vinnufötunum. Ekkert skemmtilegt að vera í jakkafötum í skólanum, sérstaklega ekki MH þar sem maður þarf helst að vera með ullarhúfu. Yndislegur skóli sem mér þykir svo vænt um...
Kannski er Hjördís heima núna með Klemmu í maganum...
Klementína Magnúsdóttir, nýjustu stúdíómyndirnar.

9/04/2005

Dagurinn.

Við vorum uppi þokkalega snemma í dag, Hjördís skaust fram að nærast en ég lá aðeins lengur í rúminu. Ég fór svo að læra og Hjördís að vinna, reyndar vann hún heima þannig að við vorum bara í rólegheitunum hérna í stofunni. Ég skellti mér í hlaup og fór 5 km á venjulegum hraða. Eftir þetta sló ég svo garðinn en það er líklega í síðasta skiptið á þessu ári. Ég fór síðan með Hjördísi í göngutúr niður á laugarveg. Við settumst inn á B5 og fengum okkur að éta. Fínasti matur þarna og bara róleg stemning. Eftir þetta var svo labbað heim aftur þar sem hitað var te og slakað á yfir fréttunum. Sannarlega rólegur og góður dagur. Veit ekki hvað er að gerast í garðinum við hliðina á okkur í sama húsi, þau eru búin að vera að slá síðan snemma í dag, hlýtur að vera eitthvað að sláttuvélinni. Annars er það garðurinn í næsta húsi sem hefur ekki verið sleginn í allt sumar, það þar sérmenntaðan garðyrkjumeistara til að redda því kaosi. Annars bara gott að frétta af Klemmu þar sem hún vex og dafnar, hún er búin að vera róleg í dag en fer líklega að hreyfa sig núna þar sem allt er komið í ró hérna hjá okkur. Kannski þarf ég bara að fara og kalla á hana...
Á morgun fer ég á eittvað fínt námskeið í vinnunni sem mun taka hálfan daginn, ég var að fatta það að seinni helming dagsins verð ég að keyra á tvöföldum hraða til að ná upp því sem gerist á meðan ég er í burtu, men det spilar ingen roll...........
Græja dagsins..... flott flott
Þetta er það nýjasta og flottasta sem ég hef séð nýlega. Forerunner 301 fyrir langhlaupara og skokkara og byggir á GPS tækninni. Hlaupatölvan reiknar nákvæmlega hraða, vegalengd og "tempo" (pace) ásamt því að mæla púlsinn og hversu mörgum kaloríum þú brennir á æfingunni.
Samsett úr 2 hlutum, úri og sendi sem mælir púls.

Training Center hugbúnaður fylgir. Með honum sérðu allt sem mælt er og getur líka búið þér til æfingaáætlanir. Hlaupaleiðin er sett inn á Íslandskort sem fylgir með Training Center hugbúnaði.
Hægt að velja um hlaupaæfingar, hjólaæfingar eða annað sport.
Auto Pause™ stoppar sjálfvirkt miðað við ákveðinn hraða og heldur síðan áfram að taka tímann ef hraði fer upp fyrir fyrirfram skilgreind mörk.
Auto Lap™ mælir tíma eftir ákveðna vegalengd. Frábærlega þægilegt á brautaræfingu, þar sem tími er tekinn sjálfvirkt á ákveðnum vegalengdum.
Sýndarhlaupari hjálpar þér að æfa með tíma eða vegalengd sem markmið.
Vatnsþétt á 30 m.
Geymir 5000 tíma í minni eða sem svara allt að 2ja ára æfingatíma.
Hleðslubatterí sem dugar í 14 klst í einu.
USB tengi.
Veit ekki hvort að ég fæ eitthvað fyrir að sýna þetta hérna en þetta er sannarlega græja í lagi...........

9/03/2005

Og hún er lent...

Hjördís er komin heim loksins, nú þarf ég ekki að sofa í stofunni í nótt, ég hef sofið þar síðustu nætur þar sem hún var ekki á heimilinu. Ástæðan er einföld, rúmið er allt of stórt fyrir eina persónu og það er líka svo gott að sofna út frá sjónvarpinu. Ég vaknaði nokkuð snemma í dag og fékk mér kaffi og hlustaði á útvarpið, eitthvað laugardagsþema á rás 1 sem fór inn um eitt og út um annað. Jú það var ferðasaga einhverrar konu sem ferðaðist einhverja ævintýraferð fyrir löngu síðan. Eyru mín sperrtust þegar hún minntist á að hafa verið í 50 gráðum einhversstaðar, ég þekki það. Ég skellti mér í sund með eldri kynslóðinni um tíu leytið. Prófaði að minnast á veðrið við sjötíuogeitthvað en hann vildi ekkert tala meira um það, ég held að ég hafi truflað einhverja íhugun hjá honum. Ég fór sjálfur í smá íhugun og slakaði á í annars frábæru veðri. Eftir þetta fór ég að standsetja smá grilldag í fyrirtækinu sem ég vinn hjá og það var þokkaleg stemning þar, aðallega hjá yngri kynslóðinni sem gat sporðrennt pylsum eftir hverja ferð í hoppikastala. Ég stakk svo af og skellti mér til Keflavíkur að pikka upp dömurnar sem komu frá Stokkhólmi. Ég fékk peysu að gjöf frá Hjördísi, rosalega flott peysa sem hún keypti í búð á söder. Svo var haldið í hlíðarnar og slakað á. Við erum að horfa á Woody Allen í einhverju af sínu vanalega maníukasti, þvílíkur snillingur.
Morgundagurinn býður upp á lærdóm sem þarf að vera nokkuð stífur þar sem þessi laugardagur fékk að sleppa við hann.
Mamma á afmæli í dag og óska ég henni kærlega til hamingju með daginn..frábært....

9/02/2005

Hugmynd dagsins,,

Dagurinn í gær var svona power vaka þar sem ég skaust á flugvöllinn og var vaknaður 04:45. Ég vann til að verða 18:00 og skaust þá heim til að hvíla, svo fékk ég smá maníukast í þrifum og datt svo út rétt fyrir miðnætti. Hjördís hefur það gott í Stokkhólmi en svaf eitthvað illa í kústaskápnum á östermalm. Hún vakti mig í morgun þar sem að hún borðaði morgunmat fyrir sig og Klementínu. Dúllurnar koma heim á morgun og ég verð mættur á flugvöllinn að venju. Ég eyddi smá tíma í gær í að upplýsast um fellibylinn sem gekk yfir USA, horfði á erlendu fréttastöðvarnar keppast um að koma þessu frá sér á sem bestan hátt. Það gengur eitthvað illa að koma þjóðvarðarliðinu á staðinn. Allavega þá sannfærist ég alltaf betur um hvað við búum við frábært loftslag hérna á Íslandi.
Dagurinn í dag hefur verið annsi geggjaður hérna í vinnu og þar af leiðandi er hann að verða búinn. Ég ætla að hreyfa mig eitthvað á eftir svona rétt til að ná svefnvöntun úr kerfinu.

Hef verið að spá í nýrri tækni sem ég vil sjá í öllum fyrirtækjum í framtíðinni. Þetta er svona sambland af því sem til er og smá nýrri forritun. Það sem ég var að hugsa um er starfsfólk sem situr við tölvur allan daginn við hin ýmsu verk. Þetta yrði svona þráðlaust tæki sem tengt yrði við mann þegar maður sest niður. Í tölvunni er þá forrit sem skráir niður hjartslátt, blóðþrýsting og eitthvað fleira. Forritið tekur svo upplýsingar um aðgerðir sem gerðar eru í tölvunni og er einnig tengt símanum sem er að sjálfssögðu með IP tölu. Af þessu öllu saman má svo sjá hvernig álagið hefur áhrif á fólkið á mismunandi tíma dagssins. Einnig sést viðvera við tölvuna þannig að hægt er að sjá hvernig púls og blóðþrýstingur er fyrir mat og eftir mat. Úr þessu ætti að vera hægt að sjá hversu stressað fólk er á mismunandi tímum. Ef að einhverjir eru rosa háir í púls þá er hægt að skoða hvað veldur og fram eftir götunum.
Ef þetta verður komið á vinustaði fljótlega þá átti ég hugmyndina.

9/01/2005



Hjördís stakk af með Klementínu til Stokkhólms, vona að þær hafi það gott.......