10/31/2005

Metaðsókn í trönuberjasafa..

Það er merkilegt að hugsa um það að nú er komin vetur, bílar fastir um allt land og Idolið varla byrjað. Ég hef verið út úr bænum síðustu tvö föstudagkvöld þannig að ég hef ekki fengið mitt vikulega meðal, stefni á að bæta úr því bráðlega. Fór út að hlaupa seinipartinn, renndi mér á gangstéttum borgarinnar og náði inn einhverjum 4 – 5 km. Það er alltaf gott að hlaupa, ekki bara fyrir líkaman heldur líka sálina, einstök ró. Eftir þetta fór ég að undirbúa matinn sem að þessu sinni var kjúklingur í karrý eins og oft áður, fæ einfaldlega ekki leið á þessu. Hjördís kom heim um 6 leytið og hjálpaði mér með uppvaskið og svoleiðis. Við fórum svo í smá göngutúr um hverfið, þetta er svona eins og sjónvarpsþátturinn Horft inn um glugga, þar sem fólk labbar um og skoðar húsin í nágreninu. Nei við erum ekkert að liggja á gluggum heldur er maður að reyna að sikta út hús sem maður væri til í að búa í. Þetta er svona rannsóknarvinna í bland við hreyfingu. Heyrði aðeins í félaga mínum í Stokkhólmi, hann afar hress en þurfti að slíta samtali sökum lokaþáttar CSI í sjónvarpinu. Kannast við þetta síðan ég var á kafi í Alias og þurfti oft að slíta samtölum við hann á þessum tíma. Það er gott að hafa eitthvað í sjónvarpinu sem maður vill ekki missa af. Annars er nóg til að hugsa um þessa daganna og þetta snýst meira um að gefa sér tíma til að slaka á, það var gert á Búðum um helgina.
Það er alltaf að styttast í að Klementína komi í heiminn, við erum auðvitað mjög spennt að takast á við allt sem þessu fylgir. Við förum á foreldranámskeið á fimmtudag og svo tvo næstu laugardaga. Það verður spennandi.
Jæja ég var ekkert að fara að skrifa hérna en datt óvart í þessu skrif, ætla að fara að slaka á þar sem ég hef verið að í allan dag, nú slekk ég á vélinni og fer að koma mér fyrir í sófanum þar sem maður slekkur á kollinum og dormar í nokkrar mínútur áður en maður fer undir sæng.

Góða nótt ............
The police disco lights
Now the neighbors can dance!
The police disco lights
Now the neighbors can dance!
"The Arcade fire"

10/30/2005

Búðarráp..

Fórum í mikla svaðilför á föstudag. Við fórum í þokkalega biluðu veðri út úr bænum og enduðum á hótel Búðum. Við fengum reyndar far í Range Rover með góðu fólki. Það var búið að skipuleggja hópferð á staðinn þannig að ekki var annað hægt en að berjast í gegnum veðurofsann. Það var skuggalega hvasst á tímabili og síðustu 30 kílómetrarnir einkenndust af því að bílarnir snigluðust áfram til að sjá í næstu vegstikur. Þetta hafðist allt saman og vorum við komin þarna um klukkan 21:00 ef ég man rétt. Fleiri bættust svo við eftir því sem á leið. Það var skipulögð diskóhelgi á staðnum og þótti okkur nauðsynlegt að taka smá snúning og njóta okkar út í sveit. Laugardagurinn var frábær, sólskin og frábært veður var á staðnum. Útsýnið stórkostlegt og maður gat gleymt sér í því að horfa út í náttúruna. Kvöldverðurinn á laugardagskvöldinu var frábær þar sem fólk var komið í diskógalla og naut sín. Maturinn var í alla staði frábær og fólk virtist skemmta sér stórkostlega vel, við dönsuðum aðeins en vorum ekki lengi þannig lagað, laumuðumst upp á herbergi um eitt leytið. Fólk var að skemmta sér þarna alveg til klukkan fjögur samkvæmt áræðanlegum heimildum. Í dag fórum við svo heim og vorum komin um 3 leytið heim, sannarlega fín helgi þó svo að maður sé pínu þreyttur. Klementína fékk að heyra diskótónlist og höldum við að hún hafi haft það gott þarna í sveitinni.
Eftir að heim kom var verslað inn og farið yfir það helsta í þrifmálum og svona.
Nú er maður að slaka á og fara að horfa aðeins á sjónvarpið svona í restina af kvöldinu.
Við erum bara alsátt við þetta allt saman......Mun setja einhverjar myndir inn á bloggið bráðlega.........

10/24/2005

Ég hef ekkert skrifað í háa herrans tíð eða svo. Fór í sumarbústað með vinnufélögunum á föstudag og þurfti að skilja Hjördísi og Klemmu eftir heima, þær eru reyndar óaðskiljanlegar núna þar sem klemman er á mallanum á mömmu sinni, anyway þá var þetta fín ferð og við komum til baka í bæinn upp úr hádegi á laugardag, þetta var svona grill plús singstar með slatta af hlátri og þessháttar. Næst verða svo makar og börn með og þetta sennilega aðeins lengra.
Ég kom svo heim í faðm Hjördísar og svo skelltum við okkur í Kringluna og svoleiðis. Matarinnkaup og þesháttar, það var eldaður fínn bananafiskur á laugardagskvöldið og slappað af. Ég staulaðist með Hjördísi inn í rúm um nóttina eftir að við höfðum bæði sofnað í sófunum. Ég lærði á sunnudag og svo skelltum við okkur í bíltúr út úr bænum. Við fengum okkur desert í rauða húsinu á Eyrarbakka og keyrðum svo í Þorlákshöfn en þangað man ég ekki eftir að hafa farið, greinilega ekki misst af rosalega miklu. Við tímasettum svo heimkeyrsluna til að sjá hvort að hægt sé að búa þarna en vinna í Reykjavík, ekki halda að við séum að flytja þangað, þetta er meira svona tilraunaverkefni styrkt af Peugeot og Essó.
Ég eldaði svo kjúklingalundir sem voru þokkalega góðar þó að ég segi sjálfur frá. Kvöldið fór svo í að horfa á Downfall aftur svo ég gæti klárað eitt smá verkefni fyrir skólann. Hún batnaði ekkert þessa annars ofmetna mynd eins og einhver góð kona sagði. Hún er þó ekki leiðinleg en ansi var gott að geta hraðspólað aðeins stundum.
Í dag vorum við félagarnir tveir eftir í deildinni þegar að konurnar stóðu upp og fóru, þetta var þó ekkert mál þar sem það var lítið að gera. Skellti mér í smá körfu áður en ég fór heim eftir vinnu.
Ég er búinn að spjalla heilmikið við Klemmu um helgina og hún er svo dugleg að heilsa manni, það er eins og hún fatti alveg hvar maður er að spjalla, hún virðist ýta á magann og hittir akkúrat á munninn á mér. Þetta er bara krúttlegt, maður getur vart beðið eftir jólunum þegar að hún á að koma í heiminn þessi dúlla. Yndislegt dæmi....
Nú er ég á bílasölurúntinum á netinu og helsta leitin er nú að Land Rover Freelander... ég ætla að finna einn áður en vikan er liðinn....

10/19/2005

Bílakaup

Það er allt gott að frétta hérna, bara geggjað að gera á öllum vígstöðvum. Fór á bílasölur í gær í leit minni að ökutæki sem virkar. Það er pínu tímaþjófur að standa í þessu. Bílar eru ekki á staðnum og maður þarf að mæla sér mót við eigendur og þessháttar. Skrýtinn markaður, mér finnst að síminn eigi að rauðglóa og seljendur séu í röðum fyrir utan gluggann minn að reyna að selja mér. Nei virkar ekki þannig, ég er að reyna að leggja mig fram um að kaupa gott eintak og nú þegar eru margir bílar seldir sem ég hafði áhuga á en var bara ekki nógu fljótur. Það er kannski einkenni á þessum markaði að maður verður að vera snöggur til að bregðast við ef eitthvað dettur inn. Það er fullt af fólki sem hefur ekkert að gera nema að sitja á bílasölum og drekka kaffi, ég er ekki einn af þeim. Kannski ætti að vera þjónusta þar sem einhver nettur gaur í leðurjakka kemur og tekur niður hvað manni vantar og svo fer hann og finnur þetta og tekur smá greiðslu fyrir. Hann hefur þá ríflega fyrir bensíni til keyra á milli og svo einhverju að borða, hann þarf ekkert fyrir kaffinu því það er frítt. Svo ef góður bíll finnst þá fær hann prósentu eða tvær af kaupverði. Held ég að þetta væri snilldin fyrir upptekið fólk. Kannski að ég stofni eitthvað batterí í kringum þetta. Það er hægt að kaupa fleira en bíla, t.d húsnæði, gluggatjöld og svona ýmislegt.

10/16/2005

Sunnudagur..

Jæja ég er vaknaður. Dagurinn hefur verið nokk fínn, skelltum okkur í sund um hádegi og fengum okkur svo að borða. Við fórum ´svo upp í Gerðarsafn og skoðuðum gersemarnar sem eru þar á sýningu sem nefnist Tími Romanov ættarinnar í Rússlandi. Þetta var gaman að skoða og ótrúlegra að þessir hlutir hafi ferðast alla þessa leið og ratað inn á þetta safn á Íslandi. Við fórum einnig og kíktum á eina íbúð sem er til sölu, veit ekki alveg hvort að hún sé nógu spennandi. Það er ekki alveg tíminn núna til að flytja í íbúð sem þarf að gera mikið fyrir, það verður nóg að gera með Klemmu. Við rúntuðum aðeins eftir þetta um hverfi sem við værum til í að búa í. Ég vill persónulega búa nálægt vinnustaðnum hennar Hjördísar sökum þess að það er augljóst að hún verður þar í langan tíma, svo er svæðið í kringum Efstaleyti mjög heillandi.
Ég á 100 mánaða afmæli í dag, það þurfti að vísu smá útreikning en hélt upp á daginn með því að kaupa mér gallabuxur svona til tilbreytinga.
Ég kíkti á hljómsveit kvöldsins síðan í gær og þar var Írafár að spila, ekki fíla ég þetta band mikið en gaman að sjá að Addi trommari er búinn að breyta þessu bandi algjörlega. Hann er einn af þessum betri trommurum sem við eigum hér á landi. Þéttleiki og léttleiki bandsins er allt annar en hefur verið áður fyrr. Þarna er bara gott dæmi um það hvernig trommari getur gjörsamlega breytt ágætu bandi í þrusugott band.
Það kom mér skemmtilega á óvart að Rás 2 spilaði allt í einu lag með Útópíu þegar að við v0rum að keyra heim. Langt síðan ég heyrði í því bandi í útvarpinu.
Annars er allt gott og fullt af fiðrildum flögrandi í íbúðinni okkar.
Ég ætla nú að fara að heyra í henni Klemmu, hún hefur verið eitthvað löt að hreyfa sig í dag. Hún er sennilega bara að hvíla sig fyrir vinnuvikuna.
Það hefur breyst svo hitastigið úti að ég verð að fara lækka á ofnunum hérna, maður er farinn að svita hérna í sófanum, þetta gengur ekki....

10/15/2005

Er er er tómur...

Dagar fljúga og allt í einu var komin helgi. Hjördís réðst aftur á eldhúsið þannig að þetta var pínu deja-vu frá síðustu helgi. Það hefur varla sést eins hreint eldhús á þessari breiddargráðu. Við vöknuðum bara snemma í dag og ég fór að læra aðeins og tók svo undir þrifin með Hjördísi. Fyndið að ég er að reyna að skrifa eitthvað og er alveg gjörsamlega tómur. Þetta er kannski eitthvað sem gengur yfir vonandi.

10/12/2005

Sónarinn...

Fórum í sónar í dag og Klemma tók sig bara vel út, allt í góðu standi. Það er alltaf gaman að fara í sónar og sjá krílið vera að bralla eitthvað. Hjónin komu ekki heim úr vinnu fyrr en undir átta í kvöld, óvenjulangur vinnudagur þar á ferðinni. Þetta endaði í klassísku brauði með bökuðum baunum og osti í ofni. Reddingarmatur þar á ferðinni. Ég sá að Svíþjóð bakaði Íslendinga í ofni líka þar sem leikurinn endaði 3-1. Ég sá ekki leikinn og þar af leiðandi get ég ekki dæmt um þetta. Ég var búinn að spá því að leikurinn mundi fara 5-0 fyrir Svíum. Ekkert rosalega langt frá því. Hefði verið til í að sjá leikinn samt. Nettur þjóðernisrembingur í öfuga átt.
Annars óvenju tómur svona á miðvikudagskvöldi þar sem maður er nettur í sófanum. Það er kalt úti en fallegt veður búið að vera fyrir utan gluggann í dag. Ég hef verið að þræða bílasölur á netinu og það er ekkert rosalega gaman til lengdar, ég held þó að leitin sé að fara skila árangri. Maður getur ekkert velt þessu endalaust fyrir sér, þá hverfa bara allir bílarnir sem eitthvað er varið í. Ætla að spyrjast fyrir um einn grip á norðurlandinu á morgun.
Nú ætla ég að fara að hita te fyrir fjölskylduna og spjalla við Klemmu....

10/10/2005

Það er nú svo.........

Eldaði fínt Lasagna í kvöld, þokkalega gott með hrásalati. Dagurinn fauk áfram eins og ég veit ekki hvað. Ég var kominn heim um fimm leytið og fór svo út að hlaupa. Átti gott hlaup sem ég þurfti ekkert að hafa fyrir. Ég og vinnufélagarnir tókum tvo á tvo í körfu á föstudaginn í hádeginu, það var erfitt. Spiluðum í hálftíma á fullu blasti. Við stefnum að því að gera þetta oftar. Þetta er svona killer dæmi fyrir kroppinn. Annars bara allt gott og lítið að frétta frá því síðast. Klemma er búin að vera dugleg, Hjördís er að segja mér núna að hún sé að hreyfa sig mikið, sennilega er hún að kalla á pabba sinn. Kastljósið nýja er farið í loftið og ég gef þvi nokkra daga áður en ég ræðst á það með skrifum.....
Jú ég er latur núna, gott að segja það upphátt.........

10/09/2005

Hjördís tekur eldhús í nefið.

Ég vaknaði um níu í morgun og fór að læra, Hjördís kom fram stuttu seinna og fékk sér morgunmat, það leið ekki á löngu þar til að hún var farinn að þrífa eldhúsið. Þetta var ekki þetta vanalega heldur var allt tekið í gegn. Við tökum stundum svona meira en venjulega þrif, þetta er alveg nauðsynlegt en í þessu tilviki held ég að það sé verið að gera klárt fyrir Klementínu í rólegheitum. Það er alltaf eitthvað sem við erum að brasa og undirbúa í rólegheitunum. Það er samt ekki hægt að segja annað en eldhúsið hafi verið rækilega tekið í gegn í dag. Við fórum í sund eins og venjulega, rosalega gott veður og við slökuðum í pottinum. Bumban á Hjördísi er alltaf aðeins upp úr vatninu í pottinum sökum þess að hægt er að liggka í pottinum. Ég get svo spjallað við Klementínu í pottinum og gerði það einmitt í dag. Klementína svaraði með góðu sparki, hún er svo rosalega dugleg. Ég fór svo og þreif bílinn meðan Hjördís spókaði sig í IKEA. Ég fann svo Hjördísi á labbi með hálffulla körfu fyrir utan IKEA og pikkaði hana upp. Við skelltum okkur heim og byrjuðum að elda risotto stuttu seinna. Ég er búinn að elda þetta tvisvar núna og einhvern daginn get ég þetta alveg hjálparlaust. Það er ekki alveg það einfaldasta að búa þetta til.
Er búinn að vera að horfa á vídeó á yahoo launcinu og búinn að finna nokkur rosalega góð mynbönd með hinum og þessum. Nýja Depeche mode lagið Precious er alvegg geggjað. Ég er núna að horfa á myndband með Moby sem heitir Beautiful, snilldarmyndband þar sem fólk í dýrabúningum er í partí, hljómar kannski ekki vel. Ég fann lag með Air sem heitir Surfing on a rocket og er rosagott. Ég verð kannski að skoða Air plötu frá 2004.
Ég var búinn að gleyma þessu videó dæmi á tímabili en er alltaf að detta þarna inn núna. Maður getur einfaldlega gleymt sér þarna í því að grufla upp gömul myndbönd í bland við að finna eitthvað nýtt. Plottið virkar fyrsts ég ætla að fara kaupa eitthvað.
Við erum bara búinn að vera að slaka á eftir matinn og njóta þess að vera til. Ég spjallaði við Klemmu áðan og hún svaraði mér fljótlega. Vona að hún sé ekki að láta vita af sér af illri nauðsyn svo ég hætti að babla fyrir utan heimili hennar. Þetta er bara svo gaman.
Ég á örugglega eftir að tala hana í kaf einhvern daginn. Einhverntímann í framtíðinni segir hún mér örugglega að halda kjafti, hún á þó ýmislegt eftir að læra þangað til það gerist t.d að tala.

10/08/2005

Hljómsveitin...

Var að horfa á Todmobile spila á RÚV, skemmtilegt band í rauninni. Gömlu lögin mörg hver dúndurgóð og svo var eitt mjög gott lag sem hlýtur að vera nýtt. Fæ ekki leið á því að horfa á hljómsveitir spila í sjónvarpssal. Væri til í að sjá Sigur Rós, Mínus, Barða bang gang, MÚM, Without Graviti og örugglega eitthvað fleira sem ég man eftir þegar ég logga mig út.
Hafið þið tekið eftir því að lagið í Dressman auglýsingunum er orðið falskt af of mikilli spilun.
Ég og Hjördís fórum í sund í dag, skelltum okkur svo í bílasölurúnt sem er að verða vikulegur rúntur hjá okkur. Ég held að það sé búið að selja bílinn sem mér leist svo vel á en maður finnur bara annan í staðinn. Við erum nú að dunda á netinu og reyna að ákveða hvað við eigum að borða núna. Kemur í ljós....

Ákvað að skella inn mynd af mér og vinnufélaga mínum, þetta var tekið á árshátíð hjá fyrirtækinu um daginn.

10/06/2005

Afmælið

Hjördís elskan átti afmæli í gær og við byrjuðum á því að fara í sund. Eftir það fórum við á Vox og fengum geðveikan mat, það lá við að það þyrfti að bera okkur út enda taldist þetta vera um níu rétta máltíð. Það er langt síðan ég hef fengið svona rosalega góðan mat. Þjónustan þarna er alveg til fyrirmyndar og við vorum rosalega sátt eftir þetta. Það er mikið að gera í vinnu núna og dagarnir fljúga áfram. Ég þarf að fara að undirbúa stóra ritgerð sem þarf að skilast í sögu. Þetta er svona stykki sem þarf að eyða hellings vinnu í ef eitthvað vit á að vera í þessu. Ég er ekki búinn að ákveða hvað ég á að skrifa um en það verður gert fljótlega.

Það hefur rignt eldi og brennisteini í nótt en nú er sólin farinn að skína á gluggunum, ég þarf þó ekki að vera með sólgleraugu sökum þess að búið er að setja upp gardínur hérna, þessu er stjórnað með fjarstýringu þannig að maður þarf ekki að sitja með þetta í augunum.

Nú stefni ég á að reyna hlaupa meira á næstunni, ég er í lélegu formi núna og ætla mér að bæta það fljótt. Svo er fín aðstaða til líkamsræktar hérna í vinnunni þannig að maður ætti að notfæra sér það líka.

Annars sá ég það í fréttum að öldungadeild Bandaríkjaþings hefur bannað bandarískum hermönnum að pynta og misþyrma föngum í fangelsum. Ótrúlega er þingið góðhjartað að banna þessar misþyrmingar á föngum.

10/05/2005

Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún Hjördís, hún á afmæli í DAG....veiiiii húrra húrra húrra... til hamingju með afmælið elsku Hjördís..

10/03/2005

Helgarspjallið.

Massív helgi flaug áfram eins og ekkert væri. Ég fór á árshátíð sökum þess að það var skyldumæting, ég var einn af þeim sem skipulagði allt dæmið. Það var svona rosa ánægja með þetta allt saman. Ég fór frekar snemma heim og þurfti að róa Klementínu litlu sem var alveg óð í maganum á mömmu sinni. Hún róaðist eftir að ég hafði spjallað við hana í smá stund, þetta er alveg merkilegt. Við fórum um allt hjónin og skemmtum okkur bara vel um helgina. Það sem er á dagskrá fyrir vikuna er vinna og skóli ásamt einhverjum smáverkefnum. Það þarf að gera eitthvað í bílamálum bráðlega, svona verkefni sem auðvelt er að fresta en það borgar sig samt ekkert. Ég gaf Hjördísi kápu og peysu í afmælisgjöf og hún var rosalega glöð. Nú á Hjördís slatta af flottum óléttufötum. Það er svo gaman að hún sé svona ólétt og ég er bara endalaust glaður að þramma um með henni í þessu ástandi, maður er svo ríkur.
Heyrði í mömmu og bara góðar fréttir úr sveitinni, nóg að gera hjá Gylfa og allt á pari.

Pistillinn sem meistari Hallgrímur Helgason skrifaði í DV á laugardaginn var algjör snilld, ég er svo innilega sammála honum í flestu sem hann færir þar fram um hvernig stjórnvöld og Morgunblaðið hafa hagað sér upp á síðkastið. Ég verð aldrei þreyttur á að segja að þetta sé einn af okkar besti penni núna. Svo er svo gaman að sjá hann vappa niður í bæ með barnavagninn, það er eitthvað sem ég ætla að gera mikið af þegar að því kemur.
Þetta skrifaði Hallgrímur í sínum pistil um bláu höndina.

“Já. Aumt er það. Hægrimenn öfunda annara hag og vinstrimenn hugsa bara um eigin hag. Öllum er sama um þjóðarhag. Og eftir sitjum við með óbreytt ástand: Markaðskerfi sem hefu snúið lögmáli sínu upp í tóma meðalmennsku: “Hinir þægustu lifa af”.”

Og hafið þið það....