12/24/2005


Sæl öll. Þetta er Klementína sem skrifar.
Ég vil óska ykkur allra gleðilegra jóla og þakka ykkur fyrir allar kveðjurnar og gjafirnar.
Ég er búin að vera laus við sonduna síðan í gærkveldi og kannski þarf ég hana ekki aftur. Ég er búin að léttast svolítið síðan í gær, enda fer svo mikil orka í að drekka allar gjafir sjálf. Risarnir hér á spítalanum segja að ég fari aftur að þyngjast þegar ég verð búin að jafna mig á þessum breytingum. Mamma og pabbi eru orðin voða þreytt, komu til mín kl. hálfátta í morgun og voru stórskrýtin, með hárið út í loftið og allt. Það verður gott þegar ég kemst heim til mín og við getum öll lagt okkur saman.
Eins og þið sjáið neðst á myndinni er ég með kreppta hnefa. Ég er voða oft með kreppta hnefa og svo sperri ég mig oft. Mamma vildi vita hvort þetta væri allt í lagi og læknirinn sagði svo vera og sagði mig mjög fína stelpu. Hjúkkan sagði mömmu og pabba að svona værum við fyrirburarnir oft.
Ég er að hugsa um að drekka bara úr pela og er búin að láta mömmu og pabba vita oft af því undanfarna tvo daga að ég vilji ekki standa í þessu brjóstastússi. Ég veit ekki hvort þau taka eitthvað mark á því, en bíðið bara. Ég mun sigra þessa baráttu. Hjúkkurnar segja að ég sé svakalega sterk og svo er ég líka mjög ákveðin, eins og allir segja sem þekkja mig. Mamma segir að ég minni hana að þessu leyti á Elvar Orra frænda minn.
Bless bless,
Klementína.
PS. Ég heyrði áðan að mamma og pabbi eru svona næstum því búin að ákveða nafn. Ég bíð voða spennt eftir nafninu mínu, þau eru nú búin að vera alveg nógu lengi að reyna að ákveða þetta!

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Kæra fjölskylda!
Vonandi hafið þið öll þrjú haft það gott yfir jólahátíðina þótt jólahald hafi ábyggilega ekki verið alveg hefðbundið hjá ykkur að þessu sinni. Ísak hefur haft miklar áhyggjur síðan hann frétti að þið yrðuð á spítalanum um jólin. Mestar áhyggjur hafði hann af því hvort þið fengjuð þá enga pakka!! Já forgangsröðunin í lífinu er svona þegar maður er 8 ára!
Gott að heyra að það fer að styttast í heimför, þá getið þið vonandi öll hvílst betur.

bestu kveðjur
Rúna og fjölsk

09:58  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ hæ, og sömuleiðis. Þú verður að skila til Ísaks að við fengum nú alveg pakka, en við opnuðum þá ekki fyrr en við vorum komin heim til okkar seint um kvöldið. Það getur líka verið mjög skemmtilegt að opna pakkana seint.

Já, þetta voru skrýtin jól, en samt bestu jólin!

12:40  

Skrifa ummæli

<< Home