Hæ, þetta er Hjördís. Maggi stakk upp á því að ég myndi skrifa textann í þetta skiptið.
Það gengur allt rosalega vel hjá Klementínu, hún stóð sig mjög vel í drykkjumennskunni í dag. Við erum að hugsa málið með nokkur nöfn á skvísuna, en látum ekkert uppi fyrr en við höfum tekið lokaákvörðun. Sum nöfnin eru glæný á lista, en önnur hafa verið í skoðun í nokkra mánuði, frá því að við vissum að við ættum von á stelpu. Maggi valdi eitt nafn í kvöld og við prófum að nota það þangað til annað kvöld, og þá vel ég annað. Kannski hjálpar þetta okkur við að taka ákvörðun, en kannski ruglar þetta okkur enn meira í ríminu – kemur í ljós.
Skvísan var 2335 grömm í gærkvöldi. Ofnarnir eru bilaðir á vökudeild, þannig að við settum á hana húfu áður en við fórum í kvöld. Hún hefur ekki verið með húfu í nokkuð langan tíma og það var greinilegt að húfan passaði ekki jafnvel og áður. Ég þurfti að teygja hana til og frá til að gera hana passlega á hausinn hennar Klemmu.
Klemma er náttúrlega alltaf jafn yndisleg – skemmtilegasta, duglegasta, klárasta og sætasta barn í heiminum. Að sjálfsögðu. Ég bíð eftir að komast til hennar á hverjum degi og finnst alltaf jafn erfitt að fara frá henni á kvöldin. Það styttist í að hún fái að koma heim, en þetta fer allt eftir því hversu fljót hún verður að geta klárað allir gjafir á pela eða brjósti. Þess vegna er ekki hægt að hugsa um neinar sérstakar dagsetningar í sambandi við heimferðina, heldur verður að koma í ljós hvenær Klemma verður orðin “sjálfbjarga” að þessu leyti.
Á morgun fer ég í fyrsta skipti niður á spítala áður en stofugangur byrjar, það er að segja í fyrsta skipti síðan ég útskrifaðist sjálf af spítalanum. Þá er ég hjá Klemmu frá því fyrir klukkan 8 og til kl. 9, þegar stofugangur byrjar. Svo mæti ég aftur á svæðið eins og vanalega kl. 12, þegar stofugangi lýkur. Við erum yfirleitt hjá henni til 10 á kvöldin og þá taka við ýmis heimaverkefni. Það er því mikið að gera hjá okkur, en það er alltaf jafn gaman.
Bestu kveðjur og knús,
Hjördís.
PS. Takk fyrir konfektið og smákökurnar Rúna, ótrúlega gott! Við hámuðum þetta í okkur á spítalanum í kvöld með bestu lyst.
1 Comments:
Gleðileg jól, vonandi fáið þið Klemmu heim sem fyrst. Baráttukveðjur Eva Laufey.
Ps Jón Björn Liljuson fæddist 17.des.
Kveðja Eva Laufey.
Skrifa ummæli
<< Home