12/08/2005

Þar sem mikið er spurt um heimsóknir á vökudeildina þá set ég hérna smá upplýsingar.

"Sem stendur eru heimsóknir takmarkaðar við foreldra og systkini (það er að sjálfsögðu átt við foreldra og systkini litla barnins, ekki foreldra og systkini foreldra litla barnsins). Þetta er vegna mikils álags á deildinni, sem ég sé ekki betur en að verði viðvarandi um einhverja hríð. Þegar heimsóknir eru leyfðar á annað borð eru þær mjög takmarkaðar, og í raun er ætlast til eða mælt með að foreldrar velji að einungis sá sem veitir þeim sérstakan stuðning á meðan barnið er á vökudeild komi í heimsókn. Það á ekki við í okkar tilfelli, við erum til að mynda ekki með tvíbura sem þarfnast umönnunnar tveggja, eða einhvern heima hjá okkur sem er að sjá um heimilið og systkini barns. Auðvitað kemur það fyrir að foreldrar eru að semja við hjúkrunarfræðing annað, en við munum ekki gera það. Það er alveg nóg stress að hafa áhyggjur af því sem við sjálf erum að bera þarna inn, bæði vegna Klementínu (sem er mun viðkvæmari en ég gerði mér grein fyrir fyrst) og allra hinna litlu barnanna sem þarna eru. Það má ekki gleyma því að inni á deildinni er gjörgæsludeild og fyrirburar sem geta verið allt niður í 2 merkur, og það er stöðugur gangur á milli mismunandi hluta deildarinnar. Fyrirburar og léttburar (sem Klemma er aðallega þó hún sé líka fædd nokkuð fyrir tímann) fæðast ekki með sömu mótefni og fullburða börn. Fullburða börn hafa tiltekið magn í líkamanum sem fer úr þeim á fyrstu mánuðunum, en á sama tíma eru þau að byggja um mótefnaforða sem þau fá úr brjóstamjólk. Fyrirbura og léttbura vantar hins vegar þessar birgðir sem fullburða börn hafa í byrjun. Vegna þessa eru heimsóknir á heimili eftir heimkomu barnsins líka mjög takmarkaðar og jafnvel bannaðar. Ungbarnaeftirlitið metur fyrir okkur hvernig þessu verður háttað, og fær allar viðeigandi upplýsingar þegar þar að kemur frá lækni Klementínu upp á vökudeild. Ef heimsóknir verða leyfðar eitthvað í Mávahlíðina þurfa allir sem koma þar inn fyrir dyr að byrja á að þvo sér vel um hendurnar, meira að segja þó þeir komi ekki við Klemmu. Síðan mega engin börn koma inn á heimilið og alls ekki fólk með kvef eða hálsbólgu, eða aðrar sýkingar. Ég veit að fólk á erfitt með að skilja þetta og vill fá að sjá heimsins sætasta barn, en við biðjum bara um skilning á því að við munum alltaf láta heilsu og velferðKlemmu ganga fyrir þörfum og löngunum aðstandenda okkar. Að sjálfsögðu látum við vita hvað ungbarnaeftirlitið segir um leið og við á, og þangað til munum við leggja okkur fram um að birta myndir á vefnum."

Maggi, Hjördís og Klementína...

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mjög greinargott. Ég sé nú ekkert vandamál hér og enga ástæðu til að sýna óþolinmæði. Það er nógur tími til heimsókna þegar Klemma litla er tilbúin til þess. Það er um að gera að segja sem flestum frá þessari síðu. Allflestir komast í tölvu með einhverjum hætti og geta þá fengið hjálp til að komast inn á síðuna. Myndirnar og skrifin segja heilmikið og gaman að. Bestu kveðjur,
Harpa systir

12:48  
Anonymous Nafnlaus said...

Elsku Hjördís og Maggi, til hamingju með dömuna enn og aftur, gaman að sjá að allt gengur svona ljómandi vel. Bestu kveðjur Eva Laufey.

18:15  
Blogger Hjordis said...

Takk Eva Laufey. Okkur þótti mjög vænt um að þú værir viðstödd fæðinguna. Bestu kveðjur frá okkur öllum. Hjördís

22:50  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ hæ,

Mér finnst þið taka alveg hárrétt á málinu. Að sjálfsögðu gengur velferð stúlkunnar fyrir allri forvitni. Ég held nú líka að enginn sem að ykkur stendur vilji taka einhverja áhættu í þessum efnum. Það er líka svo frábært hvað pabbinn er duglegur að leyfa okkur að fylgjast með. Það er heilmikil uppbót og manni finnst eiginlega eins og maður sé búinn að hitta ykkur öll!
Gangi ykkur vel og ég hlakka til að fylgjast áfram með ykkur hér á netinu.

kveðja
Rúna (saumófrænka)

09:31  

Skrifa ummæli

<< Home