1/31/2005

Helgin.....

Jæja helgin rúllaði í rólegheitunum, við erum bæði búin að vera frekar slöpp. Horfðum á einhverjar bíómyndir og elduðum okkur góðan mat. Getur varla verið betra miðað við aðstæður. Ég er kominn á kaf í skólann og verkefnin hrannast upp hjá mér. Þetta verður tekið á jákvæðni sem að ég næ mér í einhversstaðar. Annars er ekkert sérstakt þannig lagað, bara þetta venjulega en ef að mér dettur eitthvað sniðugt í hug þá skelli ég því inn.
Sá að RÚV var að sýna Lilja 4-Ever í gær, þetta er ein rosalegasta mynd sem ég hef séð. Ég hef nú básúnað um það hér áður en það er aldrei of oft minnst á svona mola. Ég held að það sé skylda hvers manns að sjá þessa mynd. Það er ekki oft sem að efni mynda ná alveg beint inn á þing eins og í Svíþjóð. "Hvað um allar Liljurnar", er frasi sem heyrist oft á þinginu þar.

1/28/2005

Rokkið..

Úfff segi ég bara, var að hlusta á tónleika með gamla bandinu mínu Hún Andar og þvílíkur kraftur og hraði í þessu. Ég og Röggi erum með plott í gangi í sambandi við þessar upptökur sem að voru lagaðar af góðum félaga. Það er einnig miklar heimildir í því sem sagt er milli laga þarna. Er að koma þessu inn í vélina mína áður en þetta fer með pósti yfir heiðar. Þetta er eina eintakið í dag.
Það er eitthvað fyndið við að ég og Hjördís séum bæði með headphone í tölvunum að gera ólíka hluti og í bakgrunni er sjónvarpið sem lýtur í lægri hlut í kvöld.

1/27/2005

Stofugangur..

Jæja ég vaknaði við að eitthvað fólk ruddist inn í íbúðina mína í morgun. Ég hélt fyrst að þetta væri hinn svokallaði stofugangur þar sem læknarnir koma og tékka á því hvernig sjúklingarnir hafa það. Ruðst var inn í svefnherbergið og spurt var hvar talvan væri. Ég vissi að ég væri ekki tengdur við tölvu þannig að ég aulaði því út úr mér að hún væri inn í skáp. Ég hugsaði um hvað væri í gangi en þá fattaði ég að konan mín var kominn með annan karl inn á heimilið. Þetta var tölvukarl sem að kom vélinni minni í samband við umheiminn. Svo skaust þetta gengi út úr húsinu og ég rétt náði að þakka fyrir mig. Þetta var rosalegt en það var reynt að vara mig við en ég hélt að síminn væri bara að vekja mig svo ég snoozaði hann bara í gríð og erg. Allavega er ég þá kominn í samband við umheiminn og er sjálfur að koma til. Ég stefni á að fara að vinna á morgun en þangað til slappa ég af og reyni að ná þessu alveg úr mér. Verst er að ég missi af leiksýningu í kvöld á þetta er allt að koma....arghhh..

1/26/2005

Veikur..

Það hefur komið á daginn að ég er heima veikur, ótrúlegt en satt. Ég lét mig hafa það að vera heima og játa mig sigraðan, ekki beint það sem að ég vill viðurkenna. Þetta byrjaði eftir að ég svaf í stofunni vegna hrota sem koma sökum þess að ég var helkvefaður. Ég er búin að liggja í hitamóki hérna í stofunni og horfa á Alias seríuna mína á spænsku. Þetta er svona smá trix til að læra aðeins meira í spænsku, þetta síast inn meðan ég ligg í mókinu. Ég er einnig með hausverk dauðans þannig að þetta er fínn kokteill sem að ég vill losna við NÚNA. Ég sé fram á að ég verði heima á morgun þar sem að ekkert vit er í því að fara hálfveikur í vinnu. Þegar að þetta er staðan þá kemur ekkert vitrænt út úr höfðinu. Hjördís er að verða snillingur í bílamarkaðnum þar sem að hún leitar nú að bíl fyrir mig á netinu. Hún spyr mig fullt af spurningum en nú er þeim að fækka þannig að hún er kominn með eitthvað plott. Ég nenni ekki að fletta á netinu núna þar sem ég er slappur. Var að horfa á nýja myndbandið hennar Bjarkar og það er nett snilld.

1/25/2005

Allt og ekkert....

Vá ég hef ekkert skrifað í marga mánuði. Helgin var fín og við höfðum það mjög gott í hlíðunum. Fórum í sundið okkar eins og venjulega og ég er ekki frá því að 1/4 af nýju laugardalslauginni sé í eyrunum á mér, hef verið eitthvað skrýtinn eftir þetta. Kannski er ég með einhverja flensu í eyrunum. Ég hraut eins og fakír með fuglaflensu í nótt og þurfti að fara fram í stofu um fjögur leytið svo að fólk í kringum mig gæti sofið. Veit ekki hvort að ég hef vakið þá sem að voru hinumegin í húsinu þegar að ég færði mig en þá hafa allir fengið jafnmikinn eða lítinn svefn. Uppstoppaður af kvefi en það skal ekki leggja mig því að ég hef ekki tíma og fremur en allt þá nenni ég því ekki. Ekkert sorglegra en eitthvað miðjuþóf í flensurugli.
Þurfti að taka fjarkann í morgun þar sem Opel neitaði að fara í gang, skrýtið sem þetta er. Ég verð sennilega að leggja hann inn til að sjá hvað er að honum. Nenni ekki í uppskurð þar sem að ég fékk nóg af bílaviðgerðum á yngri árum. Helst vill ég ekkert opna húdd á bílum nema í mesta lagi að tékka á olíu.
Þusaðist í þrjá tíma í skólanum í gær og það var fróðlegt eins og venjulega, lærði þó ekkert um magann á beljum í þetta skiptið.

1/21/2005

Fimma dagsins

Topp fimm listi dagsins í dag er svohljóðandi:
1. Red hill mining town - U2 (spilist á góðum styrk og syngja með)
2. Nancy boy - Placebo
3. untitled track (8) - Sigur Rós ( )
4. Death of a party - Blur
5. C´mon Billy - PJ Harvey
Maturinn

Hef verið að borða allskonar rusl í hádeginu síðustu daga, allt frá pylsum í skyr. Ég hef ákveðið að halda þessu áfram. Gefur deginum blast að þurfa að pæla í því hvað maður á að borða í hádeginu.
Nýtt.

Setti hérna til hliðar fleiri áhugaverða tengla að mínu mati. Vona að það sé í lagi. Allar kvartanir skulu sendar á skrifstofu ríkis og bæja.
Í gær........
Reyndi að taka strætó heim í gær og það tók mig klukkutíma að komast hurð í hurð. Þetta samgöngukerfi hér fær F- hjá mér. Þetta er sökum þess að ekki er hægt að gera betur á hagkvæman hátt, eða hvað? Mér er alveg sama, þetta er eins og það er. Alias í gær var suddalegur, allt að gerast og nú er Sidney búin að komast að því að hún á systir einhversstaðar. Alltaf viðsnúningur í hverjum þætti og maður situr eftir með sveitt ennið. Annars var ég að reyna að koma vélinni minni á netið og var farinn að hlaupa með tvær tölvur um allt húsið og símann í eyranu, "Þú ert númer 212 í röðinni". Annars fékk ég ágætis þjónustu hjá símanum þegar að ég loks náði í gegn. Verst að ég fékk samt ekki það sem ég vildi. Þetta endar örugglega með því að ég verð farinn að leita af lykilorðinu um allan heim, Necesito una llave de la red, Ich benötige den Netzschlüssel, J'ai besoin de la clef de réseau, Eu necessito a chave da rede, 私はネットワークのキーを必要とする, 나는 네트워크 열쇠를 필요로 한다, 나는 네트워크 열쇠를 필요로 한다. Eða hvað, veit það ekki.

1/19/2005

Hvað er þetta.
Ég fékk þær fréttir að Sony vélin væri að detta í gang, gargandi snilld. Sökkum þess dettur Go your own way út og Today með Smashing Pumkins kemur inn á listann. Annars er ég helst í stuði fyrir málingarpensil og Pink Floyd í eina viku og slökkva á símanum. Hvernig væri það.
Topp fimm fyrir daginn.

Ég og mætur félagi höfum verið að hlæja af kassettugerð og topp fimm lagalistum yfir allan djöfulinn. Ég held að ég verði að gera topp fimm lista yfir lög sem lýsa því hvernig mér líður.

1. Hysteria - Muse
2. Hairdresser on fire - Morrisey
3. Go your own way – Fleetwood Mac
4. Life is sweet - Chemical Brothers
5. Lucky - Radiohead
Sony vélin.

Fékk að vita það í gær að vélin er ónýt. Það verður því einhver bið á því að ég fari að breyta útlitinu á þessu öllu saman. Svona er þetta bara. Opel er ennþá með magakveisu og best væri ef að ég gæti sett hann undir sæng, það er það eina sem dugar. Var að reyna dáleiða veðurgaurinn á RÚV í gær en hann spáði bara kulda áfram. Kannski að ég ætti að stökkva upp í Toyotu og kaupa nýjan Yaris og keyra svo niður í EJS og kaupa nýja tölvu, svo get ég farið það á fasteignasölu og nei bíddu alveg rólegur...

1/18/2005

Markmið.

Þegar að ég verð búin að fá Sony vélina aftur þá set ég upp nýtt blogg með nýju útliti og kannski nýjum áherslum. Sony vélin er í höndum mesta tölvugúru hérna megni sólkerfis þannig að ég er nokkuð rólegur. Sá sem að síðast fékk vélina lánaða virðist hafa flautað fyrir horn þegar hann var að eyða gögnum úr vélinni..
Trip down the memory lane.

Ég þurfti að taka fjarkann í morgun sökum þess að Opel er sennilega með lungnabólgu. Það var gaman að labba niður á hlemm í kuldanum og bíða í smástund eftir vagninum og skoða fólkið. Ég fer alltaf ósjálfrátt að spá í því hverjir fara út á minni stöð. Sumir eru í góðu skapi aðrir eru eitthvað pirraðir og sumir eru hreinlega sofandi. Ég held að það væri gott ef að allir yrðu að taka einu sinni strætó í mánuði til að átta sig á því hvað það er. Það er mjög gott að sitja og slappa af og þurfa ekki að keyra til tilbreytingar, þetta gefur manni smá næði til að hugsa um hvað er að gerast og einnig að staðsetja sig í tilverunni. Labbið frá húsinu mínu niður á Hlemm er það sama og labbið frá Svartviksslyngu að lestarstöðinni í Sverige, þetta er svona hæfileg tíu mínútna ganga sem kemur öllu kerfinu í gang. Ég væri til í að gera þetta á hverjum morgni en það er að komast úr vinnu sem að rústar þessu alveg. Það er ekkert hægt að stóla á strætó þegar komið er fram á kvöld, því miður. Missi maður af vagninum þá er hálftíma bið eftir næsta og það gengur ekki. Merkilegt.

1/17/2005

How do you like Greenland.

Trommusettið komið upp í hillu og ljónið í ryðvörn. Það er engin smá dugnaður sem að einn drengur hefur sýnt á nokkrum klukkutímum. Flennifagurt veðrið hefur gert það að verkum að ég er meira en til að skokka þegar ég á rúmlega klukkutíma frímó í skólanum í kvöld. Nú er allt kapp lagt á að koma sér í form til að geta verið í formi. Horfði á þáttinn How do you like Iceland í gær, þvílík snilld að fylgjast með hvernig útlendingar sjá okkur. Ég hló mig máttlausan þegar að verið var að tala um markaðssetningu Íslands á erlendri grund. Við getum verið svo máttlaus í sumum málefnum. Einnig var það skondið þegar að komið var að trúmálum sökum þess að við erum skráð í þessa þjóðkirkju.

1/16/2005

Allt í gangi hér og þar.
Varð að þjóta áðan sökum sjoppuferðar eiginkonu minnar. Annars sá ég konuna mína í viðskiptablaði morgunblaðsins á föstudag og svo í Fréttablaðinu í morgun, ég var að borða morgunkornið og rýna í blaðið þegar að þessi elska birtist á einni síðu blaðisns, snilldin var að stuttu seinna birtist hún hálfsofandi og sagði góðan daginn.
Það sem að ég þurfti að gera áðan var að sækja trommusettið niður á Laugarveg og setja það í bílinn. Hljómar einfalt en þegar að ég dröslaði statífatöskunni upp stiga og setti inn í bíl þá leit ég í kringum mig til að sjá hvort að einhver væri að fylgjast með. Ástæðan fyrir því er að taskan er mjög stór og u.þ.b 70kg, átti von á því að löggan kæmi og tékkaði á því hvað ég væri að dröslast með í svona stórri svartri og gríðarlega þungri tösku. Ég andaði léttar þegar að allt settið var komið inn í bílinn. Núna vantar mig húsnæði þar sem ég get geymt settið uppsett og spilað á það þegar að mig dettur í hug. Til að byrja með fer það á vörubretti og upp í hillu þar sem mun fara vel um það í bili. Trommusett eru ekki eins og gítar sem hægt er að stinga hvert sem er, ég hef stundum bölvað því rosalega að hafa valið trommur í staðinn fyrir t.d bassa. Ég er alveg viss um að ég hefði klárað mig vel á bassanum. Stundum þegar að ég er að hlusta á tónlist þá einangra ég bassann og hlusta bara á hann í einhvern tíma og það er algjör snilld. Bassaleikarinn í Muse er til dæmis alveg einstaklega skemmtilegur og ég get gleymt mér í að hlusta eftir honum. Ég er ekki góður í að muna texta og það er sökum þess að ég er alltaf að gleyma mér í einhverjum smáatriðum í hljófæraleiknum.
Helgin hefur verið fín og ég lærði vel og svo var íbúðin þrifin og verslað í matinn. Við elduðum pizzu í gær og hún var fín. Við leigðum svo tvær myndir til að losna við að horfa á söfnunina sem að var á öllum stöðvum í gær. Ég fór í sund á föstudagskvöldið og svo aftur í dag, ég og Hjördís syntum í nýju innilauginni í Laugardalnum. Þetta er ekkert smá flott laug og svo er hún vel köld þannig að gott er að synda í henni. Minnir mig á það að formaður sjósundfélagsins reyndi að fá mig til að synda í 2 gráðu heitum sjó um helgina, að sjálfssögðu gerði ég það ekki þar sem ég er að skrifa þetta núna. Það væru sennilega ekki puttar á lyklaborðinu heldur belgvettlingar ef ég hefði látið slag standa. Ég reyndi að fara út að hlaupa í gær og sá fljótlega að það var svo mikil hálka að þetta var ekkert sniðugt, ég reyndi þó. Þetta var einfaldlega helgi sem maður á að vera þakklátur fyrir, við gerðum bara það sem okkur langaði að gera og það með bros á vör.
Vinnuvikan er óþekkt stærð en skólavikan er nokkuð þekkt risastærð. Jæja verð að fara að sofa, þegar að ég er farinn að sjá tvöfalt þá er gott að fara að leggja sig. Ég hef þó fundið lausn á þessu sjátvöfaltdæmi og það er einfaldlega að setja gleraugu á höfuðið, þá sleppur ekki annað augað af stað. Nú hugsa mínir nánustu að ég sé að geggjast en ég eins og ég er.
Er á lífi og stórgóður. Helgin hefur verið mjög góð ahh, verð að hlaupa.

1/14/2005

Mál málanna.
Ég er að verða fartölvueigandi, lítil snaggaraleg Sony vél með 10 tommu skjá. Þetta var svo sannarlega það mig vantaði til að geta unnið betur verkefni í skólanum. Ég er alveg rosalega hamingjusamur með þetta tæki. Á þó eftir að komast á netið og svo græjur heima en það kemur allt saman með kalda vatninu.
Esjufréttir..........

Ef að einhver hefur möguleika á að horfa á Esjuna núna þá mæli ég með því. Þvílík fegurð..
Appelín dagsins.........

Ef að FM 95,7 væri föst í útvarpinu í bílnum þá væri ég að nota strætó. Það er alveg ótrúlegt hvað ég legg á mig stundum. Í morgum ákvað ég að gefa stöðinni meiri séns og halda það út að keyra alla leiðina án þess að skipta um stöð. Ég var allt í einu kominn á 210 km hraða til að vera laus sem fyrst úr þessari klemmu sem ég setti sjálfan mig í. Það var miklu meira vit í útvarpi Samfés þar sem að ungir krakkar voru að leika sér í útvarpinu í samanburði við þetta rugl sem er í gangi þarna á þessari stöð. Þetta verða mín seinustu orð um þetta í dag.
Óli snillingur kom í heimsókn í gær og sagði okkur skemmtilegar sögur. Það er ótrúlegt hversu gaman er að vera nálægt honum. Hann sagði okkur frá ýmsum tölvumálum og hvernig maður gæti gert hitt og þetta. Ég er reyndar rosalega syfjaður eins og stendur og ætla að fá mér Kófi Annan...
Alias þátturinn í gær var rosalegur, ég rann úr sófanum af spenningi..

1/13/2005

Dagurinn...........................

Ég er byrjaður í skólanum og það hefur verið gaman að fara í fyrstu tímanna. Ég fæ að lesa einhverjar skemmtilegar bækur og ensku áfanginn verður örugglega skemmtilegur þar sem þetta er síðasti áfanginn og honum var bætt við félagsfræðilínuna fyrir stuttu. Annars er ég allur að koma til og ég verð að fara að hreyfa mig eitthvað. Það hefur verið annaðhvort allt of kallt eða of mikill vindur síðustu daga, þetta er ekki afsökun. Árni vinur kíkti á mig í dag, hann er í borginni að skoða með vinnu þar sem að hann nennir ekki að vera á Akureyri. Annars hefur dagurinn verið þéttur þannig að höfuðið er bara fullt af vinnutengdu efni sem að ég mun ekki tala um hér.
GRarrraaararererere útvarpsleysi..........
Ég trúi ekki að Gunnar sé búin að loka fyrir X-ið. Ég vissi ekki af þessu og stillti á stöðina þegar ég fór í vinnu í morgun. Ég hélt að eitthvað væri bara bilað en heyrði þetta svo í fréttum. Þetta skilur eftir risagat í þessu öllu saman. Ég prófaði að stilla á FM95,7 og það er ekki hægt að hlusta á þessi börn væla þarna um ekki neitt. X börnin vældu þó um eitthvað sem að hægt var að hlæja af en þarna eru strípurnar og hvítu peysurnar að teppa blóðflæðið svo að ekkert nema rugl flæðir út. Ég skal lofa ykkur því að Sigurjón verður komin með nýja stöð áður en snjóa leysir.

1/11/2005

Magginn
Það er nokkuð þungt ský yfir mér núna en ég hef verið að reyna að blása því burtu. Maður fær ekki allt sem maður biður um en það er bara svoleiðis í teiknimyndum. Haf verið að fara yfir stöðuna og sé margt í henni en það er allt gott. Ég var búin að heita því að gera eitthvað sniðugt í mínu lífi á þessu ári. Ég samdi við sjálfan mig í einum hlaupatúrnum að festast ekki í einhverri leiðinda farsa. Allt er þetta þó tengt því hvaða viðhorf maður hefur, ég er að gera fína hluti og nú er ég að kaffæra mér í að læra. Það er fínt og ég ætla að reyna að halda dampi fram á sumar og klára allar þessar einingar sem ég tók mér fyrir hendur. Ef að ég ætla að klára þennan skóla á þrem önnum þá verð ég að taka allavega 12 einingar á önn sem er alveg hellingur með öllu öðru.
Hvað í andskotanum með þetta væl, ég bara klára þetta. Ég fann á netinu í morgun leið til að stækka Hotmailinn úr 2 mb í 25 mb sem að breytist svo í 250 mb. Þvílík snilld sem gerð er á einfaldan hátt. Tók samt smá séns þar sem þetta hefði getað verið bull. Hér er linkurinn á þessar upplýsingar til að gera þetta. Nú getur maður farið í sumarfríi án þess að spá í því hvort að mailið springi nokkuð á meðan.
Verðum í bandi snillingar..........

1/07/2005

Útsölur......
Náði að frelsa einhverja peninga á útsölu í GK í gær. Merkilegt hvað það eru alltaf fínar útsölur í þessari verslun. Er að fara í dag og skrá mig í skólann, þetta er eins og að ákveða hvað maður vill verða stressaður og ruglaður næstu mánuði. Ég ætla að fá fimmta stigs stress og nettan pakka af geðveiki. Svo vill ég fá tvo poka því ég kem þessu ekki í einn. Nei þetta verður stemming ef að ég þekki þetta rétt. Í dag ætla ég að klára þetta og hafa það svo gott. Kannski verður farið í billiard ef að Frikki gull liggur ekki ennþá í hláturskasti síðan í gær þegar að ég sagði honum að hlusta á krypplingssketsið frá Þorsteini Guðmundssyni snillingi. Ég trylltist sjálfur þegar að ég heyrði í gegnum símann" ahh djöfull er mikið í þessu" þá var krypplingurinn að fá sér kók úr dós....
Annars fór ég í bakaríið hjá Jóa Fel í hádeginu og bað um minn vanalega skammt nema að núna var ég spurður hvort að ég vildi fá Diet-kók eða Kók- Light...þetta er nú fyndið en ég held að allstaðar í útlöndum biðji maður um Cola light en ekki diet coke. Man bara að innflutta diet kókið frá Austur Evrópu er ekki mjög gott í samanburði við önnur lönd. Norður Afríska diet kókið var til dæmis betra. Það er ekki sama hvort að þetta er cola light eða cola light. Svo er 1993 árgangurinn alltaf bestur, sennilega verið góð uppskera það árið.

1/05/2005

Jólagúffið.

Sá í gær í sjónvarpinu að kona góð lá á gólfinu og var að reyna að troða sér í allt of litlar gallabuxur. Þetta átti að vera jólamatnum að kenna. Ég er alveg viss um að í látunum hér þá er fólk ekki að þyngjast um jólin heldur þvert á móti að léttast. Fólk reyndar borðar reykt kjöt og þungt þannig að því líður kannski eins og um margra ára óhóf sé um að ræða. Ég ætla að skoða þetta betur seinna en ég er viss um að ég hef rétt fyrir í þessu. Ef að líkamsræktarstöðvar vilja að ég sleppi þessu þá geta þær sent árskort til mín.
Miðlarnir..
Ég hló mikið á leiðinni í vinnuna í morgun þar sem snillingarnir í Tvíhöfða voru að tala um miðla. Jón lýsti því þegar að manneskja var að spá fyrir hann og þetta var svo mikil snilld. Miðillinn sagði við hann að einhver sterk tenging væri við Bandaríkin og hann hlyti að vera með taugar til þessa lands. Þetta sagði miðillinn eftir að Jón fór úr peysunni, málið er að á bolnum stóð "Made in USA". Ég hef einmitt verið að reyna að útskýra vinnufélögum að þessir miðlar séu bara fólk sem er að reyna að verða sér út um pening á einfaldan hátt. Algengasta spurning sem að kemur þegar að fólk vill ekki trúa að þetta sé svona er ,, Hvernig er hægt að sanna að miðlar og spáfólk séu að rugla". Það er ekki hægt að svara þessari spurningu en ef spurningin er skoðuð aðeins þá kemur í ljós að hún er vitlausari en allt annað sem til er. Ég ætla að vona að mamma sé ekki að lesa þetta.
En hvað um það, búin að kaupa ný kerti og þræði handa Opel og mun setja þetta í seinna í dag. Fyrir þá sem ekki þekkja Grand master Opel Record 85 þá hefur hann komið okkur að góðum notum þar sem ekki voru til peningar fyrir svona djásni á sínum tíma. Nú er kominn Peuogeot sem að Hjördís sprangar á frá degi til dags og ég slepp við að nota vonlaust samgöngukerfi sem að við búum við í Reykjavík. Opelinn ætlar að rokka eitthvað með mér áfram.

1/04/2005

Það er nú svo.

Merkilegt rokk, Opelinn malar fyrir utan gluggann hjá mér. Hann róaðist eftir að fá að þorna aðeins. Vona að hann sé nógu sáttur til að hafa það heim til sín. Hann fær ný kerti og þræði ef að hann verður góður.
Ávalur sívalur Opel Record 85.

Merkilegt nokk, Opelinn var eitthvað ósáttur við kuldann og rigninguna. Hann drap bara á sér í gær þegar að ég var að leggja af stað heim úr vinnu. Hann fékk að gista á plani IKEA í nótt og þótti dvölin einmannaleg þar sem hann var eini bílinn þar í nótt. Nú er hann kominn in í vöruhús og er að þurrka sig. Ég á von á því að hann fari í gang á eftir. Hann er duglegur en hann er kominn á tuttugasta aldursárið, ég vona að hann sé bara sáttur. Annars er brjálað að gera hjá mér og menn virðast vera missa sig í látunum. Verð að vinna eitthvað frameftir og vonast til að eiga gott kvöld framundan.

1/03/2005

Mættur.....

Bara að láta vita að maður er lifandi og mættur í vinnu. Gærdagurinn fór í rosalegt afslapp og rólegheit. Dagurinn í dag fer í að vinna því það er mikið að gera þegar að allt breytist úr 2004 í 2005. Merkilegt sem það hljómar þá er ég að geispa, eitthvað sem á ekki að vera hægt eftir þennan svefn.

1/01/2005

Fyrsta blogg ársisns 2005............

Jæja, 2005 mætt og veðrið kallt og fallegt. Gærkveldið var frábært heima hjá Önnu, Vidda og Tómasi. Tómas varð þó fyrir því óláni að detta á svelli rétt fyrir klukkan tólf og fá skurð á ennið. Þetta varð til þess að við keyrðum í sprengiregni með hann á slysó þannig að hægt væri að sauma greyið saman. Hann stóð sig eins og hetja í þessu öllu saman en þetta fer í reynslubanka þar sem að ekki hefur maður verið á spítala á áramótum. Eftir þettta keyrðum við aftur á Flókagötu og héldum áfram gleðinni sem stóð til að ganga fimm í nótt. Þegar að heim var komið þá voru einhverjir að skjóta upp flugeldum þannig að ekki var svefnfriður strax. Maturinn sem við fengum í gær var stórkostlegur og samanstóð af mörgum réttum. Við sváfum til klukkan tólf og höfum verið að horfa á annála í sjónvarpinu. Við munum tala því rólega í dag og stefnan er sett á göngutúr. Það var sérstakt að horfa á samantekt frétta frá árinu og fannst mér svo mikið um hræðilega hluti sem hafa verið að gerast út í heimi. Mikið um sprengjutilræði og hörmungar sem hefur leitt til mikils mannfalls og oftar en ekki eru það börn sem verða fyrir þessu.

Hjördís tók saman smá lista yfir það markverðasta á síðasta ári á bloggi sínu og það er gaman að fara svona yfir árið og sjá hvað maður hefur margt til að þakka fyrir. Ég mun aldrei gleyma allri þeirri upplifun sem ég varð fyrir í Túnisferðinni. Svo var Stokkhólmsferðin afar sérstök, það er eki hægt að lýsa því hversu skrýtið það er að vera þar og geta ekki farið heim til sín í íbúð sem við leigðumm á sínum tíma. Við fórum í snilldarbátsferð með Stjóna og fjöl og fengum svo rosalega gott veður. Lo-Fi spilamennskan á árinu var einnig frábær þar sem við fengum lánaða tvo snillinga til að spila með okkur, þetta var bara svo rosalega gaman. Skólinn á árinu var þokkalega erfiður og ég þurfti að taka á stóra mínum til að standast alla áfanga þar sem mikið var að gera í vinnu allt árið.

Árið sem er komið núna verður vonandi spennandi og ég ætla að leggja mig fram um að gera eitthvað spennandi. Ég stend á smá tímamótum þar sem ég hef það á tilfinningunni að ég eigi eftir að breyta til í vinnumálum hjá mér. Mér finnst eins og að ég þurfi að gera eitthvað meira krefjandi, þetta kemur þó í ljós. Ég ætla að leggja mig fram um að styrkja mig bæði andlega og líkamlega. Búið er að gera tvær utanlandsferðir klárar og vonandi dettur sú þriðja inn ef allt gengur að óskum. Ég þarf að gefa mér smá tíma til að gera hluti heima hjá mér eins og að mála stofuna og svoleiðis hluti sem þarf að gera til að viðhalda fasteigninni. Maður hefur ekki mikið gert upp á síðkastið en það hefur bara verið mikið að gera.

Maður ársins að mínu mati hér heima er forsetinn okkar fyrir að samþykkja ekki fjölmiðlalögin. Ekki maður ársins er Davíð fyrir að hafa farið hamförum í dónaskapi á árinu.
Eftirminnilegasta komment ársins er: Gunga og drusla
Ég ætla að hugsa um tónslistarlista ársins meðan ég tek göngutúr í frostinu..