Allt í gangi hér og þar.
Varð að þjóta áðan sökum sjoppuferðar eiginkonu minnar. Annars sá ég konuna mína í viðskiptablaði morgunblaðsins á föstudag og svo í Fréttablaðinu í morgun, ég var að borða morgunkornið og rýna í blaðið þegar að þessi elska birtist á einni síðu blaðisns, snilldin var að stuttu seinna birtist hún hálfsofandi og sagði góðan daginn.
Það sem að ég þurfti að gera áðan var að sækja trommusettið niður á Laugarveg og setja það í bílinn. Hljómar einfalt en þegar að ég dröslaði statífatöskunni upp stiga og setti inn í bíl þá leit ég í kringum mig til að sjá hvort að einhver væri að fylgjast með. Ástæðan fyrir því er að taskan er mjög stór og u.þ.b 70kg, átti von á því að löggan kæmi og tékkaði á því hvað ég væri að dröslast með í svona stórri svartri og gríðarlega þungri tösku. Ég andaði léttar þegar að allt settið var komið inn í bílinn. Núna vantar mig húsnæði þar sem ég get geymt settið uppsett og spilað á það þegar að mig dettur í hug. Til að byrja með fer það á vörubretti og upp í hillu þar sem mun fara vel um það í bili. Trommusett eru ekki eins og gítar sem hægt er að stinga hvert sem er, ég hef stundum bölvað því rosalega að hafa valið trommur í staðinn fyrir t.d bassa. Ég er alveg viss um að ég hefði klárað mig vel á bassanum. Stundum þegar að ég er að hlusta á tónlist þá einangra ég bassann og hlusta bara á hann í einhvern tíma og það er algjör snilld. Bassaleikarinn í Muse er til dæmis alveg einstaklega skemmtilegur og ég get gleymt mér í að hlusta eftir honum. Ég er ekki góður í að muna texta og það er sökum þess að ég er alltaf að gleyma mér í einhverjum smáatriðum í hljófæraleiknum.
Helgin hefur verið fín og ég lærði vel og svo var íbúðin þrifin og verslað í matinn. Við elduðum pizzu í gær og hún var fín. Við leigðum svo tvær myndir til að losna við að horfa á söfnunina sem að var á öllum stöðvum í gær. Ég fór í sund á föstudagskvöldið og svo aftur í dag, ég og Hjördís syntum í nýju innilauginni í Laugardalnum. Þetta er ekkert smá flott laug og svo er hún vel köld þannig að gott er að synda í henni. Minnir mig á það að formaður sjósundfélagsins reyndi að fá mig til að synda í 2 gráðu heitum sjó um helgina, að sjálfssögðu gerði ég það ekki þar sem ég er að skrifa þetta núna. Það væru sennilega ekki puttar á lyklaborðinu heldur belgvettlingar ef ég hefði látið slag standa. Ég reyndi að fara út að hlaupa í gær og sá fljótlega að það var svo mikil hálka að þetta var ekkert sniðugt, ég reyndi þó. Þetta var einfaldlega helgi sem maður á að vera þakklátur fyrir, við gerðum bara það sem okkur langaði að gera og það með bros á vör.
Vinnuvikan er óþekkt stærð en skólavikan er nokkuð þekkt risastærð. Jæja verð að fara að sofa, þegar að ég er farinn að sjá tvöfalt þá er gott að fara að leggja sig. Ég hef þó fundið lausn á þessu sjátvöfaltdæmi og það er einfaldlega að setja gleraugu á höfuðið, þá sleppur ekki annað augað af stað. Nú hugsa mínir nánustu að ég sé að geggjast en ég eins og ég er.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home