Ég hef ekkert skrifað í háa herrans tíð eða svo. Fór í sumarbústað með vinnufélögunum á föstudag og þurfti að skilja Hjördísi og Klemmu eftir heima, þær eru reyndar óaðskiljanlegar núna þar sem klemman er á mallanum á mömmu sinni, anyway þá var þetta fín ferð og við komum til baka í bæinn upp úr hádegi á laugardag, þetta var svona grill plús singstar með slatta af hlátri og þessháttar. Næst verða svo makar og börn með og þetta sennilega aðeins lengra.
Ég kom svo heim í faðm Hjördísar og svo skelltum við okkur í Kringluna og svoleiðis. Matarinnkaup og þesháttar, það var eldaður fínn bananafiskur á laugardagskvöldið og slappað af. Ég staulaðist með Hjördísi inn í rúm um nóttina eftir að við höfðum bæði sofnað í sófunum. Ég lærði á sunnudag og svo skelltum við okkur í bíltúr út úr bænum. Við fengum okkur desert í rauða húsinu á Eyrarbakka og keyrðum svo í Þorlákshöfn en þangað man ég ekki eftir að hafa farið, greinilega ekki misst af rosalega miklu. Við tímasettum svo heimkeyrsluna til að sjá hvort að hægt sé að búa þarna en vinna í Reykjavík, ekki halda að við séum að flytja þangað, þetta er meira svona tilraunaverkefni styrkt af Peugeot og Essó.
Ég eldaði svo kjúklingalundir sem voru þokkalega góðar þó að ég segi sjálfur frá. Kvöldið fór svo í að horfa á Downfall aftur svo ég gæti klárað eitt smá verkefni fyrir skólann. Hún batnaði ekkert þessa annars ofmetna mynd eins og einhver góð kona sagði. Hún er þó ekki leiðinleg en ansi var gott að geta hraðspólað aðeins stundum.
Í dag vorum við félagarnir tveir eftir í deildinni þegar að konurnar stóðu upp og fóru, þetta var þó ekkert mál þar sem það var lítið að gera. Skellti mér í smá körfu áður en ég fór heim eftir vinnu.
Ég er búinn að spjalla heilmikið við Klemmu um helgina og hún er svo dugleg að heilsa manni, það er eins og hún fatti alveg hvar maður er að spjalla, hún virðist ýta á magann og hittir akkúrat á munninn á mér. Þetta er bara krúttlegt, maður getur vart beðið eftir jólunum þegar að hún á að koma í heiminn þessi dúlla. Yndislegt dæmi....
Nú er ég á bílasölurúntinum á netinu og helsta leitin er nú að Land Rover Freelander... ég ætla að finna einn áður en vikan er liðinn....
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home