Þetta og hitt.
Nú erum við búin að koma okkur fyrir saman í stofunni eftir að hafa tekið góðan göngutúr í hverfinu. Við vorum að skoða húsin í hverfunum um leið og við löbbuðum um. Við lágum ekki á gluggum en það er gaman að skoða hvernig fólk hefur húsin sín og umhverfið. Það er fullt af skemmtilegum götum eins og Kjartansgata og Hrefnugata. Það er annars kallt í borginni, sennilega við frostmark núna og svo er einnig vindur sem gerir þetta frekar slæmt. Eftir smá labb er þetta samt ekkert mál, húfan á kollinum og vetlingarnir klárir.
Í fréttum síðustu daga hefur verið svo mikið fjallað um Baugsmálið að erfitt er að fylgjast með þessu öllu, ég hef einfaldlega ákveðið að blása ekkert um málið nema í mesta lagi heima í stofu þar sem maður getur alltaf másið og blásið. Þetta er samt gríðarlegur banani sem er í gangi. Davíð fékk drottningarviðtal í Kastljósinu eins og venjulega og spyrillinn líktist dómara í snókerleik sem er með hvíta hanska og stoppar sundum leikinn til að þurrka af hvítu kúlunni. Ég skil samt alveg að fólk vilji einfaldlega ekki segja of mikið við gaurinn þar sem hann gæti fengið kast. Davíð vill ekki vera í Kastljósinu nema að hann sé einn, ég vill sjá breytingu á þessu. Hann er eini maðurinn sem virðist komast upp með þetta.
Annars er víst Kastljósið að hætta þar sem verið er að sameina þann þátt með Ópinu og einhverjum einum enn. Það er verið að búa til einhverja samsuðu sem er erfitt að ýminda sér að gangi upp þó svo ég sé yfirleitt bjartsýnn. Kastljósið er þátur sem að ég treysti mikið á, þar er tekið á málum sem eru í gangi og fólk fengið til að tala saman og margir fletir skoðaðir. Ég bara trúi ekki að RÚV sé til í að henda þessu út af dagskránni og taka séns á einhverri samsuðu. Þetta kemur þó í ljós og maður verður bara að bíða rólegur.
Ofninn á baðinu er kalldur og það virðist ekki vera nógur þrýstingur á kerfinu hérna í húsinu. Það hefur því verið nokkuð kallt hérna, ég er byrjaður að leita að pípara til að kíkja á þetta. Verður leitin að iðnaðarmanni erfið nú, það er erfitt að segja. Sé fyrir mér sjónvarpsþátt sem heitir týndi iðnaðarmaðurinn, þar er leitað af iðnaðarmönnum sem hafa komið og tekið að sér verk og ekki sést síðan. Gæti verið stórskemmtilegt efni í anda amerískra lögguþátta þar sem fylgst er með lögreglunni eltast við glæpamenn. Nei ég þarf bara að ráðast á gulu síðurnar og byrja að hringja.
Nú fer að styttast í það að Opelinn fá að fara að hvíla sig, við fórum og prófuðum tvo bíla á laugardaginn. Við erum að leita að jeppling eins og Vitara eða Kia, eitthvað í þeim flokki. Það er ekki hægt að vera á óöruggum bíl þegar að Klementína verður mætt á svæðið. Það er samt ótrúlegt hvað Opelinn er búinn að vera duglegur öll þessi ár, hann var eins og guðsgjöf á sínum tíma og maður mun sjá mikið eftir honum.
Það hefur verið nóg að gera í skólanum og eitthvað smá af verkefnum sem ég hef þurft að ganga frá. Það er samt pínu eins og að það séu færri í skólanum en venjulega. Sennilega eru bara allir að vinna í góðærinu. Það dettur alltaf eitthvað út þegar svona þensla er í gangi, svo kemur næsta lægð og þá sest fólk aftur niður og fer að læra. Það er alltaf auðvelt að sjá þetta gerast í kvöldskólanum. Ég hef verið að lesa aðeins greinar um kvennasögu og hefur það verið stórskemmtilegt. Það er mikill uppgangur í rannsóknum á þátt kvenna í sögunni og eins og kennarinn segir þá erum við nokkrum árum á eftir í þessu en þetta er vel á veg komið í háskólanum hér. Það er skemmtilegt að lesa um hvernig þetta er rannsakað og hvaða kenningar eru notaðar í þessu samhengi. Sumir ganga svo langt að segja að það verði að endurskrifa söguna og rannsaka hvaða þátt konur áttu í henni. Við eigum eftir að fá einhverjar skemmtilegar greinar til að lesa og vinna verkefni út frá.
Okkur hefur fundist vera eyðimörk í bíóhúsunum hérna upp á síðkastið, það er einfaldlega ekkert sem maður nennir að sjá. Þetta er einmitt tíminn sem maður á nota til að fara. Það verður ekki eins einfalt að stökkva frá þegar að Klemma verður mætt þó svo að það verði sennilega stanslaust bíó. Það er að vísu að detta í kvikmyndahátið hérna þannig að kannski ætti ég ekkert að vera að kvarta, þar verður örugglega svo mikið í gangi að maður lendir í vandræðum með að velja úr.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home