9/18/2005

Rúv og Rambó 7 í Hagkaup.

Er að horfa á þáttinn sem var á RÚV í gær þar sem Hjálmar taka nokkur lög. Ég er svo ánægður að það sé kominn svona þáttur á dagskrá hjá RÚV. Þetta verða svo mikil menningarverðmæti sem geymast upp í Efstaleiti. Maður verður alltaf glaður þegar sýnd er t.d gamlar upptökur með Þursaflokknum eða Baraflokknum. Það er einnig gott fyrir landsbyggðina að fá þessar hljómsveitir inn í stofu þar sem ekki allir nenna að bregða sér í kaupstað til að sjá þessar hljómsveitir sem eru þó duglegar að kíkja í ferðalög. Hjálmar eru fínir þó svo að mér finnist hún skiptast svolítið eftir því hver semur lögin, ég hef áður sagt að mér finnist vera himinn og haf milli þess sem Sigurður og Þorsteinn komi frá sér, þá er ég hliðhollari Þorsteini. Annars þótti mér vænt um að heyra sænsku talaða í þættinum.
Við skelltum okkur á Rambó 7 í leikhúsinu í gær og skemmtum okkur vel, ég hafði nett gaman að því hvernig til tókst að gera áhorfendur spennta sökum þess að þeir vissu aldrei hvenær þeir yrðu þáttakendur í leikritinu. Svolítið var gert út á sóðaskap en það fór þó aldrei yfir strikið þó svo að litlu hefði munað. Þetta var allt í allt fínasta kvöldstund. Ég var 7,2 prósent lasinn í gær og vaknaði 4,2 prósent lasinn, held að ég sé alveg orðin þokkalegur núna. Við fórum að versla í matinn áðan og á boðstólnum verður kjúklingur og fínerí.
Annars hef ég verið að dunda við að læra og reyna að slaka á, veðrið í Reykjavík hefur verið fram úr vonum gott í dag og er það eitthvað annað heldur en var á föstudag þegar ringdi steypubílum og garðsláttuvélum, þvílík rigning og læti.
Við erum að fara í sónar í þessari viku og verður spennandi að sjá Klementínu í þríviddarsónarnum aftur, held að hún sé að hvíla sig núna svo að hún verði úthvíld þegar kemur að myndartöku.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home