1/30/2006

Búið að vera í nógu að snúast. Opel var kvaddur með söknuði fyrir helgi þar sem hann fór til Opel safnara í Keflavík. Hann er eini maðurinn sem getur haldið bílnum gangandi áfram þannig að ekki var annað hægt en að láta hann hafa bílinn. Í staðinn er kominn Nissan Terrano 2001 jeppi, mjög fínn bíll sem ætti að koma okkur lengra inn á hálendið þegar við förum að fara með Klementínu og tjaldið af stað. Helgin gekk fínt og ég fékk að kynnast því að dóttir mín stjórnar þessu heimili, aðfaranótt sunnudags var svona merkilega góð þar sem ég ætlaði að gefa henni að drekka og leggja hana í rúmið sitt, nei það var ekki svo einfalt. 2 kúkableiur og fataskipti í einni gjöf og svo var ekki farið að sofa... yndileg snúlla.....

Við erum bara merkilega hress held ég. Frænkurnar komu í heimsókn á laugardaginn og litla var svo sátt við þetta allt saman.

Núna er sumarveður í Reykjavík og allir sáttir....

1/29/2006

Tilkynning frá Klementínu.....
Ég er komin með eigin síðu loksins... Smellið bara á nafnið mitt hérna til hliðar....
Takk pabbi fyrir lánið á blogginu...
Klemma

1/22/2006

Allt gengur vel og helgin hefur verið fín. Við höfum verið að gera hreint og hafa það eins gott og hægt er. Snúllan litla er búin að vera góð um helgina þó svo að nokkrar rokur hafi komið inn á milli. Það er ekkert alltaf gaman þegar að risarnir eru að bögglast með mann og henda manni í bað og svoleiðis. Pabbi og Kristjana komu í heimsókn í dag og kíktu á litlu. Litla var afar sátt við þessa heimsókn og brosti óvenju mikið af þessu öllu saman, sennilega ánægð að heyra í einhverjum öðrum en mömmu og pabba sínum.

Á morgun kemur ljósan í heimsókn og athugar hvort að allt sé ekki í góðu, litla verður vigtuð og svoleiðis. Það verður gaman að sjá hvað hún er þung í dag. Það er ekki alveg hægt að átta sig á þessu þegar maður er alltaf með hana fyrir framan augun. Hún er þó farinn að taka þokkalega á handlegginn þegar labbað er með hana um íbúðina. Það verður komið Stjána bláa look á upphandleggi seinna á árinu giska ég.
Afi ánægður að sjá loksins litlu....

Pabbi og Kristjana vöktu mikla lukku hjá litlu....

Alltaf gott að sofa

.... og aðeins meira

.....svo er sofið á mömmu sinni

....svo smá galsi inn á milli

....og svo sofnað aftur

1/20/2006


Dagarnir svífa áfram og snúlla stækkar og stækkar og svo kann hún að grenja líka. Hún er yndisleg litla snúllan. Hjördís blómstrar í móðurhlutverkinu og hún er farinn að kenna mér ýmis trikk til að róa snúllu. Það er ennþá verið að finna nafn á hana en það er 90% komið, held ég. Erfitt er að taka endanlega ákvörðun um málið. Helgin er framundan og þá fær maður mikinn tíma með litlu og vonandi gefur Hjördís sér tíma til að gera eitthvað skemmtilegt utan heimilissins..........

Myndirnar eru á leiðinni.....

1/17/2006

Fór út á meðal fólkssins í morgun þar sem ég tók strætó í vinnu. Það var einhver útópia að hlusta á doktorinn syngja Glæpur gegn ríkinu í Mp3 spilarann á Hlemmi fyrir klukkan átta á þriðjudagmorgni. Ég vildi óska þess að maður gæti stólað á þessa samgönguleið þannig að ekkert þyrfti að bíða og svoleiðis. Það er aldeilis fín slökun að sitja í risabíl og láta keyra sig um svona snemma morguns. Auðvitað er borgin ekki búin að moka neinar gönguleiðir nema í kringum ráðhúsið. Ég brasaði mig í gegnum skalfla og hló bara í frostinu og doktorinn hélt áfram að syngja “50 stunda vinnuvika milljón stunda vinnulíf….”…

Stubbulína lét heyra í sér í nótt og foreldrarnir blikkuðu hvort annað og reyndu að hugga krílið, gekk ekki mjög vel en maður er ágætur eftir tvo kaffi og 0,5 af diet kók, ekki má gleyma frostgöngunni heldur. Þetta er yndislegt, frétti að mæðgurnar í barnalandi hafi náð að dotta í morgun eftir að ég var farinn.

Er að fara setja inn myndir á næstu dögum…..

1/15/2006

Allt gott að frétta af okkur hérna í barnalandi 18. Ég setti innn teljara til að sjá hvað er að gerast hérna á síðunni sem Klementína fékk lánaða í smá tíma hjá pabba sínum. Hún fer að fá sína eigin síðu bráðlega þannig að hún geti farið að blása út sínum pælingum um hvernig foreldrarnir eru að standa sig.
Set inn myndir við fyrsta tækifæri, svona áður en að hún fer að hlaupa um íbúðina.

1/13/2006

Vildi bara benda á að veðrið í Reykjavík þessa stundina er konfektmoli.
Sælt veri fólkið. Við erum búin að opna á heimsóknir. "Reglurnar" sem við fengum frá lækninum hennar Klemmu og ungbarnaeftirlitinu eru þessar: Fullorðnir og stálpuð börn mega koma í heimsókn sem lengi sem ekki er um neins konar sýkingar að ræða, svo sem kvef eða hálsbólgu. Ekki má vera minnsti vottur af slíku, enda getur nefrennsli í stálpuðu barni orðið að hættulegum veikindum hjá Klemmu. Þá er alveg bannað að "kyssa stelpuna 40 sinnum á sitt hvora kinnina", eins og Hörður læknir orðaði það. Börn á leikskólaaldri fá ekki að koma í heimsókn fyrr en í sumar. Þannig er nú það, mun frjálslegra en við bjuggumst við og það er léttir að horfa ekki fram á hálfgerða einangrun næstu mánuði. Já, eitt að lokum, það verða allir sem koma inn í húsið að byrja á að þvo sér um hendurnar, eða fá hjá okkur sótthreinsandi gel. Það er margoft búið að ítreka þetta við okkur af vökudeildinni og ungbarnaeftirlitinu, þannig að það verður engin miskunn!

1/08/2006

Litlan að hugsa málið.

Dúllurnar.


Hérna er verið að ræða um mjólkurgjöfina.


Alveg steinsofandi þessi elska.


Sekúndum fyrir drekkutíma.

Það er langt síðan ég skrifaði síðast enda hefur verið í nógu að snúast. Hjördís var ein með litlu fimmtudag og föstudag þar sem ég fór í vinnu. Það var nóg að gera hjá henni allan tímann meðan þetta er allt saman að venjast. Næturnar hafa batnað og skiptum við gjöfunum á milli okkar og reynum við að hafa eitthvað kerfi á þessu. Það var skrýtið að fara vinna hálf ósofinn en þetta er ekkert rosalegt, Hjördís er að sofa minna en ég. Við erum að reyna gera okkar besta og erum oft pínu óörugg með þetta allt saman. Litlan er á 3 tíma drykkjarprógrammi þannig að þetta er frekar rútinerað núna en breytist þegar hún er orðin aðeins þyngri. Ég held að hún sé í kringum 3 kílóin núna en ljósmóðir kemur í heimsókn á morgun þannig að þá kemur í ljós hversu vel hún er að dafna. Maður sér samt stundum dagamun á henni þar sem kinnar eru að stækka og hún einfaldlega lítur betur út.
Lífið hefur breyst gríðarlega með tilkomu þessarar dúllu og við skemmtum okkur vel þó svo að við séum stundum pínu úfinn. Við erum ennþá ekki með heimsóknir í gangi þar sem ljósan sagði að við ættum að gefa okkur smá tíma hérna heima. Frekari upplýsingar um það koma líklega á næstu dögum.
Þetta er svona það helsta sem ég hef í fréttum núna en einnig erum við í svo miklum vandræðum með nafn á stelpuna þar sem nokkur koma til greina. Við erum alltaf að máta nöfnin og ég vona að hún muni þetta ekki því annars heldur hún að mörg nöfn séu á henni. Þetta kemur allt saman....

1/03/2006

Alltaf fjör hjá okkur

Næturbjallan er nýjasta fyrirbærið á heimilinu.

Hér sefur hún vært snúllan

Sörfað á netinu með litlu sér við hlið.

Slakað á eftir yfir sjónvarpinu...


Það er nú smá síðan síðast. Vð þurftum að leggjast öll þrjú inn á spítalann í eina nótt. Ástæðan fyrir þessu var sú að litla snúllan var gjörsamlega uppgefin eftir að reyna að drekka í gegnum pelatúttur sem að voru ekki að skila nóg. Hún var orðin svo lengi að drekka að þetta var eitthvað skrýtið. Það var engill sem tók á móti okkur þarna um nóttina og hafði einu sinni unnið á vökudeild þannig að hún fattaði strax hvað málið var. Það vantaði einfaldlega betri túttur á pelana sem við höfðum keypt og litla greyið var búin að vera að berjast við að ná mjólkinni úr pelunum. Þessa nótt svaf hún eins og engill og við fengum í fyrsta skipti alvöru leiðbeiningar um það hvernig ætti að bera sig að við þetta. Síðasta nótt hérna heima var góð og greyið er farið að sofa vel og er samt ekki svona uppgefin eins og áður. Þetta er einfalt mál og við vissum ekki betur en þessir pelar væru í fína lagi.
Ég er alveg með það á hreinu að það hefði mátt fara betur í gegnum þetta mál með okkur þegar verið var að útskrifa dömuna, málið er bara það að þau voru svo mikið að flýta sér við þetta að ekkert var spáð í þetta. Konan sem tók á móti okkur vissi strax að þetta hefði ekki verið skoðað þegar okkur var hent út af vökudeildinni. Dúllan fór svo í venjubundna læknisskoðun í dag og læknirinn hennar sagði hana 150 % í lagi og hún er að þyngjast vel, ekki langt í 3 kílóin.

Ég hef talað vel um vökudeildina hingað til og sleppt öllu þvi sem betur má fara þar. Það er alveg klárt að þar sem unnið er á vöktum þar þá er allt of lítil samkipti á milli vaktanna og það sem var búið að ákveða á einni vakt er allt í einu búið að breytast þegar að næsta vakt kemur í hús. Þetta er mjög óþægilegt fyrir foreldra sem eru að reyna að halda sönsum með barnið sitt inniliggjandi á spítala. Þetta er bara eins og aðrir vinnustaðir þar sem eitthvað getur verið að í þeim ferlum sem vinna á eftir. Þegar að sondan var tekinn úr klemmu á föstudegi þá átti það að vera tilraun til að sjá hvort að hún kláraði sig á pelanum. Það gekk vel en ekki 100% þannig að spurning er hvort að of geyst hafi verið farið í þessu. Þetta skiptir ekki mái fyrir okkur núna þar sem hún er að klára sig vel núna en það gæti skipt máli fyrir einhverja aðra sem eiga kannski eftir að vera þarna á vökudeild með nýjan einstakling.
Ég er búinn að segja að þarna er fullt af góðu starfsfólki og sumir ættu meira að segja skilið að fá að kíkja til Ólafs Ragnars á gamlársdag og taka á móti orðu. Ég vildi bara benda á að þetta er ekki alveg 100%.

Núna erum við að skemmta okkur heima og hafa gaman að þessu öllu saman. Læknirinn hristi hausinn þegar að Klementína hafði sem hæst og svo brosti hann og sagði hana vera í góðum gír....það er kraftur í henni.........