2/23/2006

Nú býr maður í stundaglasi sagði einhver, hvað hann átti við veit ég ekki. Það er búið að rigna tveimur meðalmánuðum á þremur dögum hér í borg óttans. Nú er loksins farið að sjá í peruna sem heldur í okkur lífinu og gleðst ég yfir því. Mér líður eins og ég standi yfir másandi tekatli þegar rignir svona mikið, maður einfaldlega getur ekki tekið hann af hellunni. Febrúar massast áfram eins og stjórnlaust skip og við verðum dottinn í Mars áður en við vitum af. Klementína verður þriggja mánaða á föstudag sem er nýtt met hjá henni. Methagnaður hjá Háskólanum á Akureyri sá ég og allir sáttir. Paris Hilton vill leika Móðir Theresu er á sama basa og að biskupinn okkar bregði sér í hlutverk Nosferatu í nýrri uppfærslu í Borgarleikhúsinu. Í dag er það skóli eftir vinnu og alveg til klukkan 2100 í kvöld með smá pásu. Svo er það bara föstudagur og þá er komin helgi ....
Klementína er algjör demantur og stækkar og stækkar,,,, yndislegt barn...

2/20/2006

Ég og Klementína náðum ekki að gefa atkvæði, við bara náðum ekki í gegn en það skipti svo sem ekki máli þar sem sigurinn var auðveldlega í höfn. Við skemmtum okkur yfir þessu og Klementína skellti sér í bað meðan á kosningunni stóð, svo var drukkið meðan að sigurvegarinn var krýndur. Svo var farið að sofa.. Hjördís kom heim um tólfleytið og laumaðist til að kíkja á okkur um nóttina meðan á næturgjöf stóð. Í gær fórum við niður í bæ og löbbuðum með vagninn á Laugaveginum. Við fengum okkur að borða og skyldum Klementínu eftir sofandi í vagninum, þetta var í fyrsta skipti sem við borðum saman úti eftir að hún kom heim. Þetta var yndislegt alveg hreint og við hittum fullt af fólki sem við þekkjum. Pabbi og Kristjana kíktu óvænt á litlu í gær og þeim fannst hún hafa stækkað helling á þeim þremur vikum sem liðið hafa síðan þau sáu hana síðast. Maður áttar sig ekki alveg á þessu

2/18/2006

Sit með kaffi í annari og taubleyju í hinni og horfi á Klementínu sofa undir hljómum Antony and the Johnsons, getur það verið betra. Hjördís fór á fund snemma í morgun og verður frekar upptekinn í dag, hún er jú að fara á árshátíð Logos í kvöld. Ég og Klemma verðum að horfa á júróvisíón og munum gefa Sylvíu atkvæðin okkar sökum þess að ekki eru lögin í keppninni upp á marga fiska. Það er yndislegt veður úti og munum við fara út í vagninn á eftir, það er reyndar ekki pláss fyrir mig en ég ætla að reyna að þrífa jeppann á meðan, maður verður að spila úr öllum stundum sem maður hefur meðan litlan sefur. Hún er farinn að hjala svo skemmtilega og einnig er hún einstaklega skemmtilegur karakter á morgnanna. Það er nettur galsi í henni og hún unir sér vel og horfir út í loftið og segir ýmislegt sem ég reyndar er ekki alveg búinn að ná. Held að hún hafi verið að reyna að tjá sig um myndina sem hangir fyrir ofan hjónarúmið og er eftir Egil Sæbjörnsson, Klemma er ekki sátt við að það geti hangið föt í lausu lofti, allavega skildist mér það á henni. Ég heyri í rigningu fyrir aftan mig sem hendir bóninu mínu út af borðinu, vonandi styttir upp, ég þoli ekki að hafa aldrei bónað jeppann. Nú kemur Hjördís heim......

2/14/2006

Kemur á óvart að nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hafi fundið það út að fangelsið á Guantanamo-flóa eigi að loka sökum þess að meðferð á föngum þar stangist á við alþjóðalög.
Svo segir talsmaður Hvíta hússins að þetta sé bara lygi. Þeir hefðu átt að gagnrýna Sovétmenn meira í gamla daga fyrir slæma meðferð á föngum. Alltaf eru þeir sínu verstir með eitthvað skrýtið í bakgarðinum sínum. Hvalveiðar, mengun o.s.f.v.
Svo er spurning hvort að Dick Cheney hafi ekki alveg farið með ljómann af byssubraski þeirra með því að skjóta vin sinn í bringu og andlit.

Er búinn að hraðlesa nýja frumvarpið hans Björns og sýnist í fljótu bragði að þetta sé besta mál, ótrúlegt en satt. Kannski eins gott að hann samdi það ekki sjálfur því þá væri sennilega einni stormsveitinni í viðbót bætt við. Það er alveg frábært að unnið sé svona mikið í þessum málaflokkum sem tengjast kynferðisafbrotum á allan hátt.

Litlan tók kast í gærkveldi og lét okkur aðeins heyra hvað hún hefði að segja um málefni líðandi stundar, reyndi að skilja hana en er ekki viss hvort að hún vildi drekka eða kannski var hún óþreyjufull sökum þess að Lost þátturinn var svo seint á skjánum. Vorum að skoða myndir af henni nýfæddri og ég var búinn að gleyma hversu lítil þessi elska var þegar hún fæddist.
Hjördís skrapp í búðarferð eftir að ég kom heim í gær og kom heim með svo yndislega peysu handa mér og sokka, ég bráðnaði alveg við þetta. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar hún kom heim þessi elska. Það gegnur allt vel og við erum glaðir foreldrar, ég er ennþá að átta mig á því að vera orðinn PABBI, hversu mikil snilld er það.

Veðrið næstu daga á að vera fínt í Reykjavík og við rúllum einhverjum kílómetrum inn á Brio bílinn hennar Klementínu. Ég væri alveg til í að hafa fjöðrunarkerfið á bílnum hennar á Terrano, þá færi maður yfir kjöl á 100 km jafnaðarhraða

2/13/2006

Hvað fær karlmenn til að fara í sund án þess að fara úr sundskýlu og þífa sig almennilega. Ég er reglulega í sundi eins og margir aðrir og get orðið pirraður þegar að menn koma út úr klefanum í sundskýlu og labba undir sturtuhausinn og bleyta sig aðeins, strolla svo út í pottana óþrifnir. Það sem er svo sorglegt er að þeir virðast ekki fatta að þeir eru að baða sig í sínum eigin skít og annara sem er eins þenkjandi. Ég kvarta reglulega út af þessu og vill að eitthvað verði gert í þessu. Hvað er hægt að gera.. Kannski þarf bara að hafa einn starfsmann bara í þessu, fylgjast með hvort að menn þrífi sig… Ég bendi á að í hvert einasta skipti sem ég er að fara í sund þá sé ég allavega einn svona rugludall sem ekki þrífur sig, það er því hægt að ýminda sér hversu algengt þetta er. Ég veit að þetta er ekkert betra í kvennaklefanum þannig að tugir einstaklinga fara svona skítugir í laugarnar á hverjum degi. Ég verð að blása um þetta mál……Þegar ég var í leikfimi í gamla daga þá var bara potað í mann með priki og manni ýtt í sturtu ef maður var latur. Ef að við strákarnir vorum eitthvað erfiðir þá var sturtan bara köld, þarna lærði maður að það gengur ekki að þrífa sig ekki, veit ekki hvort að allir yrðu ánægðir ef að þetta væri notað í almenningssundi en ég væri til að sjá þetta prófað.

Helgin frábær og litlan alveg slípaður demantur. Fórum í göngutúra með hana í vagninum og svo var nýi ömmustóllinn prófaður. Klementína var ekki alveg að kaupa þenna nýja stól til að byrja með en hún á eftir að fíla hann. Var að spá í því hvers vegna ekki væri til svona stóll fyrir fullorðna, það er sennilega nokkuð þægilegt að sita í svona stól. Kannski verður til útíbú af Baby Sam, Adult Sam þar sem hægt verður að kaupa lausnir fyrir fullorðna sem standa í barnauppeldi. Fínt fyrir börnin að sjá forledrana vera nota stóra ömmustóla, rúm með háum rimlum sem hægt væri að opna með hliði því engin er til að lyfta manni yfir.

Ok hvað skeði hjá KEA á Akureyri, nýtt lógó með nýjum áherslum, mesta klúður sem ég hef séð í langan tíma, sennilega síðan að skipt var um lúkk á ópal. Maður tekur ekki gamla græna tígulinn og skiptir út fyrir merki sem verður ljótt eftir korter. Svo er sagt frá þessu á heimsíðu þeirra og þeir vita ekki hver hannaði upprunalega tígulinn, skammarlegt dæmi verð ég að segja þó svo að ég viti ekki hver hannaði þetta upphaflega. Sé ekki eftir því lengur að hafa gert starfsfólk í KEA í gamla daga gráhært með því að leika mér daglega í rúllustiganum í versluninni í Hafnarstræti.

2/09/2006

Nokkuð er maður góður núna, litla fór í bað í gærkveldi og fljótlega eftir pelann var farið að sofa. Húna vaknaði bara einu sinni í nótt til að drekka. Hún vaknaði svo aftur á sama tíma og ég og bað um meira. Mamma hennar var að gefa henni að drekka meðan ég kom mér í vinnugallann og svo ætlaði ég aldrei að koma mér af stað sökum þess að erfitt er að yfirgefa þær á morgnanna þegar þær eru vakanaðar og eru að dúlla sér. Það er fullt af litlum krúttlegum hljóðum sem heyrast úr svefnherberginu og maður gjörsamlega bráðnar í eldhúsinu.
Söng einkennilega mikið með útvarpinu í morgun og skammaðist mín ekkert fyrir það þó að maður sé litinn hornauga úr öðrum bílum. Nú situr maður aðeins hærra þannig að söngurinn hækkar í takt við það. Dagarnir eru fljótir að líða núna, það er alltaf komin helgi áður en maður veit af.
Er að fara í próf eftir vinnu og svo eru tveir samliggjandi tímar eftir það, fimmtudagar eru aðal skóladagarnir hjá mér núna. Skrýtið sem það er en febrúar er að verða hálfnaður og sumarið á næsta leyti, er annsi bjartsýnn þó svo að Dr. Haraldur veðurfræðingur hafi sagt að veturinn væri langt frá því að vera búinn. Þetta kemur í ljós allt saman.
Var að spá í hvort að Halldór Ásgrímsson hafi verið að sópa yfir prófkjörsklúður síðustu vikna með því að henda fram líkindum um aðild að Evrópusambandinu árið 2015. Ég hef ennþá tíma til að koma mér að og stoppa þessa vitleysu.

2/08/2006

Konfekt í veðrinu í dag...