8/31/2004

Tilveran........

Það hefur lítið heyrst í manni síðustu daga enda hefur maður verið að kreista það síðasta út úr sumarfríinu. Nú er allt að fara í venjulegt horf , byrjaður að vinna og búin að skrá mig í skólann. Skólinn var reyndar byrjaður þegar að ég kom heim en það reddaðist allt saman. Ég er rosalega sáttur við sumarfríið og við vorum dugleg að ferðast allan tímann bæði innanlands sem utanlands. Einnig erum við búin að vera á ferðinni flestar helgar í sumar þannig að þetta er snilld.
Túnis ferðin var hápúnktur og ég er ennþá að fatta hversu mikil snilld þetta var. Ég hlæ stundum að því að ég hélt að ég myndi deyja úr hita í eyðimerkurferðinni.
Það slæma í þessu öllu saman er það að ég týndi giftingarhringnum mínum á föstudaginn síðasta. Ég var að synda í sundlaug og fattaði að ég var ekki með hringinn á mér. Ég tek hann aldrei af en það sem að hefur gerst er að maður er ekki búin að koma sér í rétta þyngd eftir ferðalagið þannig að hringurinn var frekar laus á puttanum. Ég ætla að gefa þessu nokkra daga en gullsmiðurinn minn er að sanka að sér efni til að hefja smíði á nýjum hring. Ég er ekkert ánægður með þetta en svona er þetta bara. Er búin að vera 7% þunglyndur síðustu daga en vonandi næ ég að hrista það af mér á næstu dögum………

8/25/2004

Heimkoman........

Halló, við erum nývöknuð eftir 24 stunda ferðalag og þrjú flugtök. Ólýsanlega gott að sofna í rúminu sínu í nótt. Ferðasaga mun koma bráðlega en þetta var allt saman frábært. Nú er verið að þvo þvott og stússast í hlutum sem þarf að gera til að taka þátt í öllu saman.

Afhverju í ósköpunum er teljarinn byrjaður upp á nýtt??

8/04/2004

Akureyris með öllu..
Jæja vorum að detta í hlíðina eftir Akureyrferð. Við fórum til Aku á Laugardaginn og það var gaman að sjá að bærinn var fullur af gróðri og græddur af fullum unglingum. Það var ótrúlegur fjöldi af fólki þarna um verslunarmannahelgina. Sunnudagurinn rann upp og við eyddum honum með fjölskyldu Hjördísar í Einilundinum og það komu margir í kaffi. Það var mjög gaman að hitta alla og allir sáttir. Um kvöldið var okkue boðið í partý til Diddu og við duttum þar inn um tíu leytið og vorum þar til að verða þrjú. Við kíktum í bæinn og fórum á kaffi Akureyri þar sem að við vorum svo til að ganga fimm um nóttina, ég endutek að ganga fimm. Ég gæti skrifað marga pistla um upplifun mína af þessarri pöbbaferð en geri það kannski seinna. Þetta var fínt kvöld og geggjuð stemming var heima hjá Diddu þar sem að ég hló og hló af snilldarsögum.
Á mánudag sváfum við fram á hádegi og skelltum okkur svo í sund á Hrafnagili. Það var svo farið í bæinnn og ég kíkti aðeins á mömmu. Við lögðum svo af stað áleiðis til Ásbyrgis eftir kvöldmat. Við enduðum þó í sumarbústað hjá Olgu sem að er gift bróður Hjördísar. Þar voru einnig Anna Karen, Didda og börnin þeirra. Við fengum gott að borða hjá þeim og svo var okkur boðið að gista og það var ekki hægt að neita því. Þetta er stórkostlegur bústaður sem að þau eiga þarna. Þriðjudagur var mættur og Hjördísi tókst að redda okkur í bólusetningar á Húsavík. Þetta gerði hún eftir að læknir í Reykjavík hafði vakið hana og skammað fyrir að vera ekki búin að þessu. Ég tek það fram að þetta gerðist snemma um morgun þannig að ég skil ekki ennþá hvernig Hjördís náði að græja þetta allt nývöknuð. Þetta er snillingur. Jæja við fórum þá í bólusetningu á Húsavík sem að verður að teljast bónus í gagnabankann. Hélt að maður fengi bara mæru á Húsavík. Við fórum svo í Ásbyrgi eftir þetta allt saman. Ég hafði bara keyrt framhjá staðnum fram að þessu og þetta er hreint ótrúlegur staður. Við slökuðum á þarna og skoðuðum okkur um, svo var grillað og spilaður var ólsen ólsen. Við reyndum veiðimann en það var vindur sem að þeytti spilunum út um allt. Við ætluðum að tjalda en við vorum með lykil af sumarbústaðnum og ákváðum að fara þangað aftur, enda var það ágætt til að stytta akstur. Við komum aftur í bústaðinn um kvöldið og þá skellti maður sér í sturtu og svo horfðum við á vídeó. Við vöknuðum svo og fengum okkur morgunmat, framundan var akstur til Aku og svo til Reykjavíkur. Kannski ætti ég að taka það fram að við fengum rosalega gott veður allan tímann. Við komum til Akureyrar upp úr hádegi og skelltum okkur í sund. Ég skrapp í kirkjugarðinn og fór að leiði Kjartans vinar míns og það var svolítið undarlegt, það var samt gott að kíkja við......Við græjuðum okkur svo og héldum af stað til Reykjavikur. Anna Karen og sonur hennar Tómas komu með okkur og við skemmtum okkur vel á leiðinni. Nú er ég og Hjördís búin að taka og ganga frá öllu útilegudótinu og svoleiðis og sitjum í rólegheitum í sófanum. Það var nett gott að koma heim en þessi ferð var í alla staði mjög fín. Nú ætlum við að hafa það gott og undirbúa næstu ævintýri. Það verður gott að sofa í rúminu sínu í nótt og ég vona að ég haldi ekki vöku fyrir Hjördísi eins og síðustu daga með þéttum og öruggum hrotum. Kannski eru þetta ekki hrotur heldur einhver mállýska sem að engin veit um. Hver veit...............................