Var að spá í það hvað hefur verið að gera í dag þar sem ég var að setjast fyrst að tölvu núna. Vaknaði klukkan 2 í nótt og gaf Bríeti að drekka, vaknaði aftur klukkan 6 í nótt til að gefa henni að drekka. Við vöknuðum svo við vekjaraklukku klukkan 7:30 og þá var Bríet glöð að sjá pabba sinn og heyra hann segja góðan daginn þar sem maður er ekki að tala neitt á nóttinni.
Hún fékk að drekka og bleyjuskipti, andlitsþvottur og þessháttar átti sér stað. Bríet var svo á útopnu þar til klukkan rúmlega 9 að hún lagðist til svefns í fyrri morgunlúrinn. Svo vaknaði hún 45 mínútum seinna og fékk aftur að drekka. Svo var hún aldeilis hress þangað til kom að seinni morgunlúrnum rétt fyrir klukkan 12. Hún svaf í hálftíma og var enn og aftur hress við að fá blíðar móttökur beint úr draumalandinu. Þess má geta að í báðum lúrunum hélt hún í rúmið og teljum við hana hafa gert það til að taka það með sér í draumalandið.
Klukkan eitt var svo fengið sér að drekka og grautur étinn. Eftir það beint í gallann sinn og út í vagn þar sem hún sofnaði á augabragði. Ég labbaði út í bakarí og sporðrenndi einhverju skinkubrauði með diet coke og hélt af stað heim aftur. Þá fékk ég símtal frá félaga í Stokkhólmi sem var að segja mér frábærar fréttir af sér og sinni fjölskyldu og gladdi það mig mikið þar sem þau eru snillingar.
Ég fór heim og byrjaði að þrífa aðeins og taka til. Þegar því lauk fór ég aftur að stað með vagninn og labbaði um hverfið. Aftur kom ég heim og fór að taka úr þvottavél og setja þvott í vél og ganga frá þvotti af snúrunum.
Klukkan 5 tók ég svo snúllu úr vagninum og gaf henni að drekka. Hún tók smá kast þegar að ég var búinn að skipta á henni og ég gat ekki með nokkru móti ýmindað mér afhverju en það stóð stutt yfir. Eftir þetta lékum við okkur þangað til að klukkan var rétt rúmlega 7 þá fór ég að græja baðið og svo fékk daman nuddið sitt sem hún fær daglega. Hún var svo glöð með nuddið og baðið að það geislaði af henni. Ég gekk svo frá og gerði mjólkina og grautinn kláran og svo var hafist handa við að gúffa þessu í sig.
Hún var svo þreytt þegar þessu var lokið að ég lagði hana til svefns. Hún var í sæluvímu og glotti bara þegar hún lagðist niður. Hún er yndi..
Svo var hafist handa við að sjóða alla pela, túttur, lok og þessháttar og er ég nú að bíða eftir að soðið vatn kólni svo að ég geti blandað þurrmjólkina fyrir næsta session.
Þetta var týpískur dagur í lífi Bríetar og gaman að renna yfir þetta. Hjördís fór í morgun að verlsa og græjast. Svo fóru vinkonurnar í eitthvað spa session sem stendur enn yfir og það er frábært að Hjördís taki sér smá frí fyrir sjálfa sig. Hún er með svona dagskrá eins og ég var að lýsa alla virka daga...
Nú var að heyrast í vaktaranum og ég kíkti Bríeti þar sem hún var eitthvað að kveinka sér, ég lagaði hana til og strauk henni um kollinn og fór út aftur, þetta er enn og aftur yndi...
Hafið það gott..