Það er að koma sumar og þriggja hestafla fluga reyndi að fá lendingarleyfi á tölvuskjánum hjá mér í vinnunni. Það er eitt magnað við staðsetningu vinnu minnar, það er að ég fæ að upplifa það að starrinn er að reyna að finna sér stað fyrir eggin sín, endur vappa í kringum húsið og köngulær fara að koma sér fyrir utan á húsinu. Í kaffistofunni er dökk filma á gluggunum og sökum þess vappa fuglarnir óhræddir um veröndina og átta sig ekki á því að bakvið glerið sitjum við stundum og fylgjumst með þeim. Þetta er stundum ágætt eins og flugumferðarstjórarnir á Heathrow geta starað á fiskabúr til að hvíla sig frá geðveikinni sem að starfinu fylgir.
Kallarnir í sundinu eru að fjölga og eru annaðhvort að vakna að værum vetrarblundi eða að koma frá sumarhúsunum sínum í sólríkum suðurhöfum. Þetta er ágætt og partur af einhverju sem að ég verð vonandi partur af líka. Laugardagslaugin er alveg frábær sundlaug að mínu mati og ég vona að Bjössi eða Dabbi taki hana ekki undir heræfingarsvæði. Það kæmi mér ekkert á óvart sökum þess hvernig þeir hafa farið hamförum síðustu mánuði. Ég er ekki alveg að trúa hvernig Ísland er að verða vitandi þess að ég tek þátt í þessu. Yfirgangurinn er svo svakalegur að ég get orðið æfur. Það er eitt alveg á hreinu að þessi ótti við hryðjuverk er orðin af maskínu sem að keyrir hverja vitleysuna í gegn af annarri.
Ég var á námskeiði í sambandi við nýjar öryggisreglur varðandi öryggi á hafnarsvæðum. Þar sá ég myndir af sprengjuvesti eins og eru notuð af hryðjuverkamönnum sem að sprengja sig i loft upp. Þar sá ég hvernig sprengjuefninu var komið fyrir og þar voru líka naglabelti og rær sem að voru listilega raðað upp í tugatali. Þessir naglar og rær eru svo húðuð rottueitri til að valda örugglega sem mestum skaða, sjúki heimur....Þetta nægir til að sprengja strætisvagn svo illa að hann lítur út eins og kókdós sem að lendir í sláttuvél. Þetta allt saman er ekkert nýtt undir sólinni og ég sé ekki að við þurfum að missa okkur. Þessar reglur sem slíkar eru samt margar mjög góðar og ættu að vera komnar í gagnið fyrir löngu síðan. Það er samt visst afturhvarf til gömlu Sovétríkjanna sem að svífur yfir vötnunum....