2/08/2005

Reyk víkingurinn fljúgandi.

Fann sterkt fyrir því um helgina að ég er Reykvíkingur. Þetta uppgötvaði ég þegar að ég var kominn í leiðsöguhlutverk í 16 manna Ford Econline sem brunaði um götur Akureyrar og beygði í þær áttir sem ég sagði honum að gera. Ég þuldi aðeins upp litlar staðreyndir um það hvar við vorum hverju sinni og hvað bæri fyrir augum. Ég hefði getað sagt sögur að því þegar Akureyringar þurftu að sverja eið á Eiðsvelli fyrr á öldum en ég sagði þeim frekar að þetta væri fínn leikvöllur, ég benti á bíóið en nennti ekki að útskýra hversu ótrúlegur skemmtistaður hefði verið þarna sem kenndur var við tæplega þrjátíu (29). Við keyrðum um nýju hverfin á Akureyri og menn geispuðu yfir allri útbreiðslunni meðan að ég var að ýminda mér hvaðan Akureyringar hefðu fengið fólk til að fylla upp í þetta allt saman. Þegar að ég stundaði nám í Verkmenntaskólanum þá geispaði ég oft yfir hestunum sem ég sá fyrir utan gluggann, nú er barasta kominn byggð þarna. Þegar að keyrt var upp og niður Gilið þá lítur það ágætlega út en það var engin sem hafði áhuga á því að vita að þarna er Listasafn sem er orðið ótrúlega vinsælt um allan heim, segi kannski ekki vinsælt en það er mjög virt í þessu öllu saman.
Málið er bara það að ég átti mjög góðan tíma þarna á árum áður en þetta er ekki sami bærinn í dag, hann er fallegur ef veðrið spilar með og margt skemmtilegt hægt að gera en það er líka eitthvað pínu fráhrindandi líka. Ég fékk mér latte á Glerártorgi og var að skoða fólkið þarna í leiðinni, þetta minnti mig á Mjóddina á slæmum degi, get ekki sett puttann á þetta en lattebollinn var samt fínn enda kominn með bullandi fráhvörf af kaffivöntun. Ég er ekki að tala illa um bæjarlífið á Akureyri heldur benda á það að ég er ekki búin að búa þarna lengi og tengingin er að dofna með degi hverjum. Þetta er að verða eins og eitthvað sem ég las í bók einhversstaðar.
Fólkið mitt býr þarna og það er tenging sem dofnar ekki en ég er viss um að þetta fólk mun færa sig til Reykjavíkur á næstu árum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home