12/30/2004

Bloggað yfir kassanum.......
Ætlaði að logga mig inn og vinna aðeins í birgðarmálum þá er vírus í skjalinu sem að ég sendi mér, hversu vitlaust er þetta allt saman.
Það er ekki annað hægt en að pissa á sig af spenningi yfir Alias núna, þátturinn í kvöld var rosalegur og þar mátti einnig heyra í Quarashi spila lagið Stick´em up. Það er alltaf gaman að heyra íslenska tóna í erlendum spennuþáttum. Nú er Jack Bristow farinn að gruna hver er eiturpési innan hópsins, hlýtur að hljóma spennandi fyrir þá sem ekki vita um þessa þætti. Félagi í Stokkhólmi hringdi áðan og ég átti gott spjall eins og venjulega, kannski skyldi hann ekki að ég þurfti að slíta samtalinu þegar að Alias hófst. Þetta er svona eins og að einhver hefði ætlað að hafa af manni barnatímann í gamla daga þegar að ekki var sjónvarp á fimmtudögum og sjónvarpið fór í eins mánaðar frí á sumrin. Gjörsamlega heilagur tími meðan á Alias stendur. Var í vandræðum með efnistök í skýrslu í félagfræði um daginn og ég ákvað að rýna aðeins betur í þessa þætti og ég fékk tæplega níu fyrir það (8). Ef að það er ekki einhver að spila á gítar með rafmagnsþeytara í sjónvarpinu.
Það er pínu skrýtið að vera í fríi á morgun, ég er ekki alveg að skilja þetta. Maður þarf ekki að fara sofa og tölfræðin fyrir þrif og þvott fer í algjört rugl yfir svona hátíðir. Maður fer úr 3,2 þvottavélum í 2,4 miðað við nýjustu tölur. Útstreymi af bankareikningi fer líka í vitleysu þar sem að lítið sem ekkert eyðist út þegar að búðir eru lokaðar. Nú fara útsölur að fara í gang og fullt af fólki liggur fyrir framan lappana sína og ákveður hvaða hlutir eiga að fara á útsölu, þetta er nú eiginlega smá skot á félaga sem að þekkja um hvað er rætt. Venjulegt fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því að það er ekki sjálgefið að flík sem kostaði 10.000 kosti allt í einu 7.000 þegar að strikamerkið er skannað. Ónei, þetta er ekki svo einfalt þó svo að það sé ekkert svo rosalega flókið heldur.
Nú er það nýjasta hér að við höfum ákveðið að stefna á að hætta okkur aftur í líkamsrækt eftir nokkura ára hlé frá þesskonar stöðum. Við gleymdum okkur einu sinni í þessu og fengum leiða eftir að hafa æft í tvo ár, fjórum sinnum í viku. Nú er staðan bara sú að ég hef ekki getað hlaupið eins mikið úti vegna veðurs og verð því að komast undir þak. Þetta verður skoðað strax eftir áramót og stefnan er sett á Laugar. Ég verð að komast í almennilegt form fyrir sumarið svo að hægt sé að hlaupa á fjöll. Svo komst ég að því að ég er orðin þrítugur þannig að maður þarf að hafa fyrir þessu.
Diskurinn sem ég reyndi að kaupa í gær er kominn í hús og það verður alltaf sérstakt að hlusta á hann sökum þess að hann var erfiður í innkaupum. Þetta er tvöfaldur safndiskur frá Smekkleysu með fullt af skemmtilegum böndum. Þetta er mikið frá því tímabili sem að var um 93-94 þar sem allt var að gerast í bransanum. Curver sagði í útvarpinu um daginn að þetta hefði verið mjög sérstakur tími í rokksögu landans. Ég man eftir tónleikum sem ég spilaði á í MH þar sem að Curverinn sprengdi lunda í fötu á sviðinu, það var afar sérstakt og þegar að ég settist bak við settið þá var allt fullt af fiðri út um allt. Ég er ánægður að hafa fengið að upplifa þennan tíma í rokksögunni á svo skemmtilegan hátt. Nú er aftur nóg að gerast í tónslistinni á Íslandi og það er frábært. Ég hef ekkert gaman af þessu öllu en það er ekki málið, bara að tónlistarfólk hafi nóg að gera og að það hvetji fleiri til að reyna fyrir sér.
Kannski að maður geri einhverja samantekt af þessu ári á blogginu á morgun í tilefni áramóta, eða siðferðislega birgðatalningu í höfðinu, veit ekki. Allavega nota ég control F4 til að finna út úr þessu... Góða nótt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home