6/21/2004

101 Reykjavík
Hallgrímur Helgason

Úr 101 Reykjavík:


Þarna eru þau. Móðir mín lesbían og faðir minn alkinn. Hvað er ég þá? Afkvæmi alka og lesbíu. Ég lít betur á þau. Allt í einu finnst mér einsog þau séu tveir fuglar, af sitthvorri tegund. Alki og lesbía.

Tökumaður frá breska ríkissjónvarpinu panar yfir eitthvað íslenskt umdæmi. Þulur er Óskar Ingimarsson:

"Alkinn er votlendisfugl, og heldur sig einkum nærri ám og stöðuvötnum. Hann er fremur þungur og þarf gott tilhlaup til flugs en getur þó flogið lengi og hefur mikið þol. Geta liðið allt að nokkrar vikur þar til hann kemur aftur niður á jörðina. Á milli þessa hefur hann hægt um sig og er þá mjög styggur, einkum fyrstu dagana eftir lendingu."

"Lesbían er fremur nýtilkomin í náttúru Íslands og aðeins á allra síðustu árum sem hún hefur haft hér vetursetu, og svotil eingöngu á suðvestur-horni landsins. Talið er að hún hafi borist hingað frá Norðurlöndunum, einkum Danmörku, en einnig frá Bretlandseyjum. Lesbían er lítill en knár og kraftmikill fugl, auðþekkjanlegur á snöggfiðruðu höfði sínu sem minnir helst á krúnurakað mannshöfuð. Af þessari tegund verpir aðeins annar hver kvenfugl og tekur þá hinn að sér karlfuglshlutverkið við hreiðurgerð og fæðuöflun. Einu samskipti kvenfugls við karlfugl eiga sér stað við frjóvgun. Karlfugl lesbíunnar er mun þyngri en kvenfuglinn. Á undanförnum árum hafa fundist síaukin dæmi um ófleyga karlfugla og fylgjast líffræðingar grannt með þeirri þróun."

"Líkt og Alkinn og Lesbían er Hlynurinn vaðfugl, en mun stærri og þyngri, háfættur, með langan háls og gogg. Þá er Hlynurinn staðbundinn fugl og grefur sér holur í moldar- og sandbökkum, einskonar hýði, þar sem hann hefst við á vetrum, og aðeins einn fugl í hverri holu. Heimkynni hans eru einkum í útjaðri þéttbýlis, nærri vatnsbólum. Hlynurinn er auðþekkjanlegur á hvítum rúllukraga sínum og svörtum ham. Hlynsegg eru með stærri eggjum hérlendis og verpir Hlynurinn aðeins einu eggi. Hlynsunginn er óvenju seinþroska. Hann verður ekki fleygur fyrr en í lok sumars og fylgir móður sinni fyrstu þrjú árin. Karlfuglinn kemur ekki nærri hreiðurgerð eða fæðuöflun. Hann er kunnur af löngum setum sínum nærri híbýlum manna og hefur af þeim sökum öðlast óvinsældir, einkum á síðari árum, eftir að hann hefur í auknum mæli sést á svalahandriðum íbúðarblokka. Margir blokkarbúar hafa tengt þessa þaulsetu karlfuglsins við útsendingartíma sjónvarps, og meðal þeirra er Hlynurinn stundum uppnefndur "Sjónvarpsfuglinn". Hlynurinn er þó styggur, en meinlaus."
(s. 278-279)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home